c

Pistlar:

30. nóvember 2019 kl. 18:12

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagavatnsvirkjun er sérlega áhugaverð

Enginn þarf að velkjast í vafa um að orkukostum á Íslandi fer fækkandi. Þrátt fyrir að rammaáætlun bjóði upp á marga kosti í nýtingaflokki þá er ljóst mikil barátta verður um að koma þeim í framkvæmd. Mikil andstaða hefur verið við virkjanakosti í neðri hluta Þjórsár sem eru svo gott sem er tilbúnir í framkvæmdaferli. Öll áform um virkjanir í Skaftafellssýslu virðast mæta harðri andstöðu og deilan um Hvalárvirkjun á Vestfjörðum hefur ekki farið framhjá neinum.

Eftirspurn eftir raforku fer vaxandi með aukinni fólksfjölgun, orkuskiptum og auknum umsvifum í atvinnulífinu. Fyrr á árinu vöktu yfirlýsingar forstjóra Landsnets athygli en hann vakti máls á á yfirvofandi hættu á orkuskorti með tilheyrandi skerðingum. Önnur orkufyrirtæki hafa tekið undir þetta. Vinna við raforkuspá er í höndum Orkustofnunar sem gefur út nýja orkuspá árlega.hagavatn1

Aukin orkuþörf og fyrirsjáanlegur orkuskortur

Samkvæmt ársgamalli spá Orkuspárnefndar mun afhending frá dreifikerfinu aukast um 8% fram til 2020 og um 80% alls til 2050 og eru dreifitöp meðtalin. Árleg aukning þessarar notkunar er 1,8% að meðaltali næstu 33 árin og eykst notkun um 2.815 GWh í orku og 464 MW í afli yfir spátímabilið, frá árinu 2017 til ársins 2050.

Margir telja þetta vanmat en þó sést að halda þarf áfram að afla orku fyrir innanlandsmarkað. Augljóslega erum við ekki fær um að taka við neinum frekari stórverkefnum á sviði orkusölu. Það hefur auðvitað áhrif á tækifæri til atvinnuskapandi vinnu.

En um leið erum við að henda frá góðum og óumdeildum virkjanakostum. Hér var fyrir stuttu spurt hvort virkilega væri sjálfsagt að kasta frá sér 30 MW á stað sem virðist óumdeilur og kalla á litlar mótbárur. Hér er að sjálfsögðu rætt um Hagavatnsvirkjun en óformleg rannsókn pistlahöfundar hefur fært mér sannir um að afskaplega fáir þekkja til svæðisins. Líklega yrði stærri virkjun þar að mestu óumdeild.

Ef ætti að lýsa stöðu Hagavatnsvirkjunar í stuttu máli þá væri líklega frásögnin þannig: Öll gögn liggja fyrir til að taka afstöðu til verkefnisins. Í tveimur umsagnarferlum um rammaáætlun þar sem fram komu rúmlega 400 umsagnir var engin neikvæð umsögn um verkefnið við Hagavatn. Heimamenn eru nánast á einu máli um ágæti framkvæmdarinnar sem virðist fjárhagslega fýsileg og er þar að auki áhugaverð fyrir ferðamennsku á svæðinu. Einnig er verkefnið af skynsamlegri stærðargráðu og getur komið með 30 til 40 MW inn á uppseldan raforkumarkað Íslendinga. Síðast en ekki síst, þá virðist verkefnið hafa jákvæð hliðaráhrif á umhverfi og draga verulega úr sandroki á svæðinu eins og fjallað hefur verið um í pistlum hér.

Miklar rannsóknir

Skipulagsstofnun féllst á fyrirhugaða stækkun Hagavatns með skilyrðum árið 1996. Frekari rannsóknir hófust síðan í kjölfar hugmynda Landgræðslu ríkisins um að hefta sandfok og gróðureyðingu við Hagavatn sunnan Langjökuls. Í framhaldi þess óskaði Orkuveita Reykjavíkur eftir rannsóknarleyfi til athugana á virkjunarvalkosti við Hagavatn. Rannsóknarleyfi var síðan úthlutað þann 1. apríl 2007 og hófust þá umfangsmiklar rannsóknir á svæðinu, sem ná m.a. til útfærslu virkjunarhugmynda, mati á helstu umhverfisáhrifum, arðsemi og flestum þeim þáttum sem tengjast slíkri framkvæmd. Að sjálfsögðu er alltaf hægt að rannsaka meira, það er nú eðli slíkra vísinda, en það er ekki hægt að halda því fram að lítið hafi verið rannsakað.

Heftir sandfok

Það kemur því ekki á óvart að það hefur lengi verið áhugamál heimamanna í Biskupstungum að hefta sandfok sunnan Langjökuls með því að stækka Hagavatn þannig að það nái fyrri stærð til þess að hefta sandfok úr gamla vatnsbotninum. Mikið fok er á þessu svæði yfir gróið land. Mistur vegna moldroks er oft sjáanlegt og nær það stundum yfir byggð á Suðurlandi og jafnvel til höfuðborgarsvæðisins. Þetta þekkja allir sem koma í uppsveitir Árnessýslu.

En það eru ekki bara virkjanasinnar og heimamenn sem vilja virkja við Hagavatn. Landgræðslan hafði á sínum tíma áhuga á að hækka vatnsyfirborð Hagavatns til að draga úr sandfoki. Fékkst leyfi hjá Skipulagsstofnun fyrir framkvæmdinni, að afloknu umhverfismati, en umhverfisráðuneytið hnekkti því og krafðist frekara mats. Það var skammsýni sem því miður hefur einkennt ferlið.