c

Pistlar:

13. desember 2019 kl. 11:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Paul Volcker: Risinn sem drap verðbólguna

Flestir virðast sammála þeirri skoðun að fáir hafi átt meiri þátt í því að drepa verðbólguna í Bandaríkjunum en fyrrverandi seðlabankastjóri Paul A. Volcker sem lést í vikubyrjun á 92 aldursári. Paul A. Volcker gnæfði uppúr hvar sem hann kom enda ríflega tveir metrar á hæð en að sumra dómi var hann einn mikilvægasti embættismaður Bandaríkjanna fyrr og síðar enda starfaði hann með sjö forsetum.volcker

Auðvitað er ofsagt að segja að verðbólgan hafi verið drepin af Volcker en það eru ekki margir sem muna að þegar Volcker kom til starfa sem seðlabankastjóri var verðbólgan í tveggja stafa tölu í Bandaríkjunum. Jimmy Carter, þáverandi forseti, tilnefndi Volcker sem seðlabankastjóra (Fed chairman) í ágúst 1979 og þá voru verðbólguhorfur þungar. Ársverðbólgan fór upp í 11,8% skömmu eftir að Volcker tók til starfa og verðbólguhraðinn en meiri á tímabili. Við lítið var ráðið til að byrja með en Volcker hugðist sanna að ef seðlabanki ætlaði af alvöru að berjast við verðbólgu þá gæti hann það. Hann hóf því að hækka vexti og hélt áfram að hækka vexti hverju sem tautaði. Í júlí 1981 voru stýrivextir bandaríska seðlabankans komnir upp í 22,36%, tala sem margir eiga erfitt með að skilja í dag.

Óhætt er að segja að bandaríska hagkerfið hafi veinað undan þessum þungu vöxtum. Atvinnuleysi óx og þjóðfélagið allt sýndi kreppueinkenni. Aumingja Jimmy Carter tapaði kosningum árið 1980 fyrir Kaliforníubrosi Ronalds Reagans en Reagan gat ekki komið í veg fyrir að atvinnuleysi færi upp í 10,8% í lok árs 1982. Svo háar atvinnuleysistölur höfðu ekki sést síðan í Kreppunni miklu á fjórða áratugnum. Margir beindu reiði sinni að forsetanum en það var ekkert á við það sem starfsmenn seðlabankans urðu að þola. Hvar sem þeir fóru og reyndu að útskýra stefnu sína voru gerð hróp og köll að þeim og andrúmsloftið var mjög neikvætt. Bændur fjölmenntu að höfuðstöðvum bankans og dreifðu skít þar svona til að leggja áherslu á orð sín.

Varanleg áhrif á peningastefnu

En Paul A. Volcker gaf ekki eftir og hélt þetta út og verðbólgan var komin niður í 1,2% í lok árs 1986, skömmu áður en hann hætti störfum í bankanum. Stefna bankans undir hans stjórn hefur haft varanleg áhrif á peningastefnu Bandaríkjanna og verðbólgan hefur aðeins einu sinni farið yfir 6% síðan en það var, í stuttan tíma árið 1990. Seðlabanki Bandaríkjanna undir stjórn Paul A. Volcker sýndi að það er hægt að vinna á verðbólgu og það hefur haft gríðarleg áhrif á stefnu seðlabanka um allan heim. Menn hentu gaman að því í sumar þegar Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og einn nefndarmanna í peningastefnunefnd, sat með forláta bolla með mynd af Volcker á kynningafundi Seðlabankans. Hugsanlega var það til marks um að aðalhagfræðingurinn vildi telja sig til stýrivaxtahauka eins og Volcker!bolli volcker

Þó að Reagan hefði aldrei opinberlega gagnrýnt Volcker þá lét hann það berlega í ljós að Volcker fengi ekki þriðja skipunartímabilið. Reagan vildi keyra hagkerfið af stað og lækkaði vexti og jók fé til hersins og halli ríkissjóðs óx meira en sómakær seðlabankastjóri eins Volcker gat þolað. Hann kaus að draga sig í hlé og Alan Greenspan var ráðinn. Greenspan hafði orð á sér að skilja hagfræðigögn betur en aðrir og naut gríðarlegrar virðingar á meðan hann gegndi starfi seðlabankastjóra. Það var ekki fyrr en eftir bankahrunið sem menn fóru að efast um ákvarðanir Greenspans og lágvaxtastefnu hans sem birtist að hluta til sem viðbrögð við árásinni 11. september 2001. En það er auðvelt að gagnrýna þegar horft er í baksýnisspegilinn.

Reglur Volckers

En ferill Paul A. Volcker var lengri og merkilegri en svo að hann væri eingöngu bundin við tíma hans í stól seðlabankastjóra. Volcker fæddist og ólst upp í New Jersey, stundaði nám í Princeton og Harvard auk þess að vera gestanemi um tíma í London School of Economics. Hann útskrifaðist með láð frá Princeton árið 1949 og réðst sem hagfræðingur til Seðlabankans í New York árið 1952 og fimm árum síðar varð hann aðalhagfræðingur Chase Manhattan bankans en hugur hans leitaði í stjórnsýslunna. Volcker var eftirminnilegur maður og lét fljótlega að sér kveða. Reykti stóra vindla og reyndist röggsamur stjórnandi hvar sem hann kom. Hann var aðstoðarráðherra í fjármálaráðuneytinu, fyrst frá 1962-65 og aftur frá 1969-74 í tíð Richard Nixons og átti þá þátt í þeirri ákvörðun þegar horfið var frá því að miða gengi dollars við gull, gullfóturinn svokallaði, sem leiddi til brotthvarfs Bretton Woods-kerfisins. Volcker tók virkan þátt í að móta fjármála- og peningastefnuna í kjölfarið. Hann var handgenginn George Shultz þáverandi fjármálaráðherra og var settur yfir þann hóp sem átti að móta regluverkið.volcker2

Eftir bankakreppuna sem nánast setti bandarískt fjármálakerfi á hliðina 2008 var aftur kallað í Volcker. Barack Obama fékk hann til að stýra ráðgjafnefnd sem ætlað var að koma með tillögur um nýskipan fjármálamarkaðarins í þeim tilgangi að draga úr áhættu og efla styrk eftirlitsaðila. Út úr því starfi kom lagasetning sem nefnd var Volcker Rule eða reglur Volcker. Engin var víst meira undrandi en hann sjálfur að reglurnar skyldu kenndar við nafn hans en Obama mun hafa metið það svo að það gerði líklegar að þær yrðu samþykktar og valdi nafnið sjálfur. Með reglunum var reynt að setja fram viðmið eða leiðsögn til að draga út áhættutöku banka.

Volcker hefur átt við heilsubrest að stríða undanfarið en var þó meðhöfundur að aðsendri grein sem birtist Wall Street Journal í ágúst síðastliðnum þar sem varað var við öllum tilraunum til að hreyfa við Jerome Powell í stól seðlabankastjóra. Slíkar vangaveltur voru á sveimi í kjölfar digurbarkalegra yfirlýsinga Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Með Volcker skrifuðu eftirmenn hans í seðlabankanum, þau Greenspan, Bernanke og Yellen en öllum rann greinilega blóðið til skyldunnar að varðveita sjálfstæði bankans.

Kom oft til að veiða á Íslandi

Það er forvitnilegt að rifja upp að Volcker var tíður gestur hér á landi vegna áhuga hans á fluguveiði. Upphaflega mun hann hafa komið hingað á vegum Sigurðar Helgasonar eldri í Flugleiðum og Jóhannesar Nordal fyrrum seðlabankastjóra. Í seinni tíð var hann gestur Orra heitins Vigfússona. Þá veiddi Volcker meðal annars í Laxá í Aðaldal, í Selá og Hofsá í Vopnafirði. Síðast var hann hér sumarið 2007 með dóttur sinni og dóttursyni og veiddi þá í Fljótaá eins og kemur fram í áhugaverðri samantekt Björns Vignis Sigurpálssonar, fyrrverandi viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, sem birtist í blaðinu í lok árs 2008. Þar viðhafði Orri eftirfarandi orð um Volcker sem við skulum láta vera lokaorð þessrar samantektar: „Hann er sérstaklega skemmtilegur og viðræðugóður maður. Um leið er hann mjög jarðbundinn maður, stórfróður og með mikla yfirsýn."