c

Pistlar:

27. desember 2019 kl. 11:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Alneitunarstefna í loftslagsmálum


Jólabók Viðskiptaráðs í ár reyndist vera bókin Project Drawdown eftir höfundinn Paul Hawken sem hefur vakið athygli fyrir að nálgast umhverfismál með lausnir að leiðarljósi. Í bókinni setur Paul Hawken fram innkaupalista sem inniheldur jákvæð áhrif á umhverfismál, einhverskonar framkvæmdaáætlun bjartsýnismannsins. Á þann hátt vill hann leggja áherslu á að hægt er að hafa jákvæð áhrif á umhverfi án þess að kalla eftir stórkostlegum efnahagslegum fórnum og stefna þannig fjárhagslegri velferð jarðarbúa í hættu. Áhugaverð nálgun og andstæð þeirri hamfarahugsun sem öðru fremur hefur einkennt árið þegar kemur að umhverfismálum. Hér er maður sem talar í lausnum og því vel skiljanlegt að Verslunarráð skuli tefla bókinni fram en í myndbandi á Facebook-síðu Verslunarráðs fjallar Bjarni Herrera Þórisson frá Circular Solutions um bókina og segir meðal annars:

„Það má segja að við séum komin af þessu meðvitundarstigi með tilliti til umhverfismála og núna verðum við að leita þeirra aðgerða sem hafa hvað mest áhrif og forgangsraða þeim umfram önnur.“Drawdown-Book-Cover

Með öðrum orðum, við verðum að skoða þá möguleika sem eru fyrir hendi og leita hagkvæmra og gagnlegra lausna en sem betur fer hefur Ísland mörg tækifæri til þess eins og oft hefur verið rakið á þessum vettvangi. Að hluta til er slík hugsun andsvar við nálgun Andra Snæs Magnasonar rithöfundar sem tekur sér stöðu heimsendaspámannsins í bók sinni Um tímann og vatnið. Ekki verður séð annað en að niðurstaða hans sé sú að tíminn sé runnin út. Er það boðleg afstaða til ungu kynslóðarinnar í dag?

Lífið er tilgangslaust.
Tómið heimtir alla

Segir í texta Hatara en á tómhyggja eða heimsendaspá vel við í loftslagsumræðunni? Að tilvist mannsins sé án einhvers raunverulegs gildis, markmiðs eða tilgangs? Erum við dæmd til að drepa yndið okkar, jörðina? Er augljóst að þróunin verður neikvæð og skipta þær jákvæðu fréttir sem daglega berast engu máli?

Bókstafstrúin tekur yfir vísindin

Gallinn við slíka heimsendaumræðu er sá helstur að hún skilur ekkert eftir fyrir okkur efasemdamennina. Og því erum við afgreiddir sem afneitunarsinnar og á þá er ekki vert að eyða orðum. (Hafa má í huga að tómhyggja eða níhílismi var áður nefnd alneitunarstefna!) En höfum einnig í huga að samkvæmt Karl Popper, kennismið hinnar vísindalegu nálgunar, þá þreifa vísindamenn sig einmitt áfram í myrkri vanþekkingarinnar með tilgátum og tilraunum, ágiskunum og afsönnunum. Því er viðtekin vísindaleg kenning loftslagsvísindanna sú, sem er enn óhrakin, en til þess að hún gæti talist vísindaleg, yrði hún að vera hrekjanleg ef marka má Popper.

Ef nálgun loftslagsvísindanna er sú að það sé búið að loka bókinni og ekki megi opna hana aftur þá eru þeir engu betri en hinir biblíulegu dogmatistar. Bókstafstrúin tekur yfir vísindin. „Við erum öll sníkjudýr á guði,“ segir í leikritinu Vanja frændi eftir Anton Tsjékhov þar sem jörðin og guð verða eitt. En er þá engin lausn?

Hinn viti borni maður finnur lausnir

En sem betur fer er það ekki svo og bók eins Project Drawdown gengur út frá því að hinn viti borni maður finnur lausnir. Og það er daglega verið að benda á þær þó þeirra sé að litlu getið. Vissulega er maðurinn hluti vandans en lausnin er einnig hjá honum. Paul Hawken setur fram nokkurskonar framkvæmdaáætlun sem byggist á 80 lausnum í umhverfismálum og varpar því fram í þeim tilgangi að draga úr neikvæðum áhrifum en skapa um leið jákvæð áhrif eða réttara sagt, jákvæða sýn. Talan 80 skiptir engu máli, hún er bara táknræn. Upphafið að leið Paul Hawken var sú að hann hafði um skeið spurt hverjar væru áhrifaríkustu leiðirnar til að draga úr loftslagsmálum en fékk ekki nógu góð svör. Hann einsetti sér því sjálfur að setja saman framkvæmdaáætlun sem í grunninn byggir á því að finna einföldustu lausnirnar og hefjast handa.

Hér hefur áður í pistlum verið bent á að sumt af því sem þeir, sem kenna sig við umhverfisvernd, berjast gegn gagnast best í baráttunni gegn breytingum sem verða raktar til koldíoxíðs eða bruna jarðefnaeldsneytis. Sé það sannarlega vandamálið þá er einfalt að byggja kjarnorkuver, hættan frá nýjum verum er hverfandi. Þá er miklu skynsamar að nota jarðgas fremur en kol. Best væri ef Þjóðverjar hættu samstundis nýtingu brúnkola en hæfu nýtingu jarðgas. Svona mætti lengi telja og bókin Project Drawdown er gott innlegg í slíka nálgun.