c

Pistlar:

15. janúar 2020 kl. 22:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að sækja gull í greipar Ægis

Í umræðu um sjávarútveg hefur undanfarið verið mikið vitnað til þróunarinnar síðustu áratugi og þá oft hlaupið hratt yfir sögu og mikilvægra þátta ekki getið. Til að gera langa sögu stutta má benda að aflakvóta í botnfiski var fyrst úthlutað árið 1983 en áður hafði síldin verið kvótasett. Sóknarmark var frá 1978 til 1983 en kvóti var settur á með lögum árið 1983 og kom til framkvæmda 1984. Þá var byggt á veiðireynslu síðustu þriggja ára í skrapdagakerfi/sóknarmarki.

Botnfiskskvótinn varð að fullu framseljanlegur 1990 eða fyrir 30 árum. Kvótinn hefur gengið kaupum og sölum allan þennan tíma, og er óhætt að segja, að hann er mestallur keyptur á fullu verði. Hafi verið ætlunin að stuðla að hagræðingu má segja að framsalið hafi náð tilgangi sínum, sem var að gera sjávarútveginn arðbæran og sjálfbæran. Augljóslega þurfti að fækka skipum og veiðimönnum. Þeir, sem vildu halda áfram veiðum, keyptu út hina, sem vildu hætta veiðum. Þetta gerðist í frjálsum viðskiptum, ekki með opinberum afskiptum. Menn voru keyptir út en ekki hraktir út þó augljóslega hafi stjórnvaldsaðgerðir haft áhrif þar á. Þannig er ljóst að markaðslegar forsendur voru hafðar í fyrirrúmi sem meðal annars hefur leitt til þess að sjávarútvegurinn er sú grein íslensks atvinnulífs sem státar af bestri framleiðni.

Almenn samstaða ríkir meðal sérfræðinga í auðlindahagfræði um að viðskipti með aflaheimildir skipta miklu máli hvað varðar hagkvæmni í sjávarútvegi. Reynsla af framsali rennir einnig stoðum undir þessa skoðun. Viðskipti með aflaheimildir grisja úr þá aðila sem síður standa sig í veiðum og hleypa þeim að sem standa betur að vígi. Framsal kvóta er hins vegar ekki sársaukalaust fyrir atvinnuöryggi á einstökum stöðum og vandinn magnast þegar afli minnkar.sjávar2

Segja má að á tíunda áratug síðustu aldar hafi hitnað mjög í deilum um kvótakerfið á Íslandi og tók oft á tíðum yfir þjóðfélagsumræðuna og stjórnmálaflokkar stofnaðir sem höfðu það að markmiði að breyta því eða jafnvel leggja það af. Kerfið hefir alltaf átt sína stuðningsmenn en andstaðan hefur oft verið ofsafengin. Margt undarlegt er sagt um sjávarútveg og fyrir nokkrum árum skrifaði Egill Helgason sjónvarpsmaður á bloggi sínu: „En í rauninni eru þetta fiskveiðar – og það er ekki útgerðin sem skapar verðmætin. Þau eru í hafinu og bíða þess að vera sótt. Og það er pólitísk ákvörðun hvernig farið er að því og hverjir hagnast.“ Bíða þess að vera sótt! Ef þetta væri rétt væri sjávarútvegurinn eina atvinugreinin í heiminum sem engu máli skiptir hvernig er rekin. Meira að segja gullvinnsla lýtur lögmálum debits og kredits. En fullyrðingar sem þessar koma heldur ekki heim og saman þegar útgerðarsaga annarra landa er skoðuð. Þar dugar ekki eingöngu að sækja fiskinn. Þekkt er að styrkir Evrópusambandsins til sjávarútvegsins nema sem svarar 50% af heildartekjum greinarinnar. Hvað varð um auðlindarentuna hjá Evrópusambandinu? Hún virðist í mínus þó verðmætin séu í hafinu.

Tveir hópar andstæðinga kvótakerfisins

Dr. Þráinn Eggertsson hagfræðingur og þekktur fræðimaður á sviði stofnanahagfræði skipti andstæðingum kvótakerfisins upp í tvo hópa í bók sinni Háskaleg hagkerfi - tækifæri og takmarkanir umbóta (gefin út 2007). Fyrri hópurinn samanstendur af fólki sem telur að atvinnulífið í ákveðnum smáum byggðalögum (þar á meðal yfirleitt þess eigin heimahögum) hafi orðið fyrir skaðlegum áhrifum af kvótakerfinu. Það kennir þá kvótakerfinu um vaxandi samþjöppun atvinnugreinarinnar í fáum byggðakjörnum. Þessir gagnrýnendur vilja gjarnan afnema kerfið í heild og leysa það af hólmi með beinni stjórn í einhverju formi, svo sem markdagakerfi. Þráinn telur að þessi hópur hafi verið að vernda persónulega efnhagslega hagsmuni. Hafa má í huga að í viðamikilli úttekt sem dr. Birgir Þór Runólfsson dósent gerði fyrir auðlindanefnd árið 2000 er niðurstaðan sú að „ekkert samband virðist vera milli aflahlutdeildarkerfisins og byggðaþróunar hérlendis“.

Hugmyndafræðileg barátta

En Þráinn segir hinn hópinn áhugaverðari út frá fræðilegum skilningi því þar sé andstaðan í grundvallaratriðum hugmyndafræðileg og reiðir sig á lögmætislíkön. Grunnafstaðan sé sú að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar og þingið hafi þannig svipt þjóðina lögmætri eign sinni með úthlutun kvóta (ókeypis) í upphafi. Sýnilegustu talsmenn þessa strangsiðferðilega viðhorfs eru menntamenn, bæði til hægri og vinstri segir Þráinn. Baráttan sé því fyrst og fremst hugmyndafræðileg vegna þess að hinar efnahagslegu kringumstæður þessara gagnrýnenda myndu ekki batna verulega þótt stjórnvöld færu að tillögum þeirra. Aðgerðir þeirra eru þess í stað til marks um átök félagslíkna þar sem auðsöfnun „ómaklegra“ birtist með bættri stöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Við sjáum það aftur og aftur að grunsemdir um hagnað og arðgreiðslu sjávarútvegsfyrirtækja verða tilefni umræðu um að breyta kerfinu og auka greiðslur í ríkissjóð. Munu fyrirtæki sem selja hálendisferðir og sýna hagnað fá sömu umræðu og verða að þola sambærilega kröfu um að greiða hlutaframlegðarinnar í auðlindaskatt?sjávar1

Kvóti og afréttur

Þráinn telur að rök fyrir hinu sameiginlega yfirráðasvæði þjóðarinnar eða eign séu í raun frekar óljós sem meðal annars birtist í að tengja tengja eignarhald á auðlindum sjávar við hina fornu sameiginlegu afrétti landsmanna á hálendinu. Því séu ýmis siðferðis og hagsýnisrök algeng og vinsæl. Þráinn telur að afréttir á hálendinu fyrr á öldum séu hliðstæðir núverandi kvótakerfi. Hver bóndi átti kvóta, byggðan á stærð býlis, sem sagt er til hve mörgum skepnum hann mátti beita á afréttunum og hægt var að leigja út kvótann. Bændur greiddu ekkert gjald fyrir notkun beitilandanna.

Annar angi slíkrar umræðu er það sem Þráinn segist hafa heyrt frá prestum í sunnudagsguðsþjónustum um að það sé siðlaust að kaupa og selja fisk í hafinu áður en hann er veiddur og breytir engu þó sportveiðimenn hafi kynslóðum samankeypt veiðileyfi af bændum og öðrum eigendum til að veiða lax og silung í ám og vötnum landsins. Þar er sannarlega kvótakerfi til staðar og eignarrétturinn á því nokkuð umdeildur. Bregður svo við að sportveiðimenn í röðum listamanna verja nú talsverðum tíma í að verja réttindi þessara veiðiréttarhafa í ætlaðri baráttu gegn fiskeldi. En það er útúrdúr.

Ruglingslegri hugmynd um auðlindarentu

Má vera að þessar deilur byggist einfaldlega á ruglingslegri hugmynd um auðlindarentu. Að sjórinn haldi til haga auðlindarentu sem er í eigu þjóðarinnar en útgerðinni sé falið að sækja þessi auðæfi á bátum og eigi með réttu að fá greitt fyrir róðurinn, eins og þegar maður borgar leigubílstjóra fyrir aksturinn, en ekkert umfram slíkan taxta. Þetta telur Þráinn fráleitt en hann sagði þetta í viðtali við tímaritið Frjálsa verslun í loks árs 2013:

„Sjávarútvegsfyrirtæki og starfsfólk þeirra eru ekki sendlar þjóðarinnar sem sækja fyrir hana gullmola í greipar Ægis gegn hóflegu gjaldi. Fyrirtækin skapa auðlindarentuna með nýjungum í veiðum, vinnslu og markaðssetningu, ef umhverfi þeirra hvetur til slíks framtaks. Hugtakið auðlindarenta er úrelt hugmynd frá fyrri öldum þegar hagfræðingar gerðu sér ekki grein fyrir eðli áhættu og mikilvægi stofnana og athafnasemi fyrir verðmætasköpun.“

Svo mörg voru þau orð. Ég mun halda áfram að fjalla um sjávarútveginn og kvótakerfið í næstu pistlum.