c

Pistlar:

23. janúar 2020 kl. 20:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stöðugleiki, kyrrstaða eða afturför?

Þegar rýnt var í áramótaávörp og þau svör og viðbrögð sem birtust um stöðu efnahagsmála er erfitt að átta sig á ástandi mála í hagkerfinu núna. - Sem endranær myndi einhver segja. Við blasir að margt er varðar stærri myndina (macro-efnahagsmál á vondri íslensku) er í ágætu lagi en síður það er tengist smærri myndinni (micro-efnahagsmál á jafn vondri íslensku!) Hvað er átt við? Jú, staða ríkisfjármála og staða hins opinbera er almennt góð. Meira að segja Reyknesingar sjá fram á að fara úr fjármálaeftirliti félagsmálaráðuneytisins.

Það er auðvitað sérkennilegt að skoða stöðu þjóðarbúsins nú 11 árum eftir bankahrunið og sjá að erlend staða er jákvæð, gríðarlegur gjaldeyrisforði og skuldastaða ríkissjóð rétt innan við 30% af landsframleiðslu. Flest sveitarfélög landsins hafa náð að lækka skuldastöðu sína og eins og upplýstist í viðtali við forstjóra Landsvirkjunar í Morgunblaðinu í gær þá er skuldastaða fyrirtækisins nú allt önnur og betri en var. Félagið er nú fært um að greiða eiganda sínum myndarlegan arð samfara því að lántökukostnaður batnar með lækkandi skuldastöðu. Sama á við um aðra opinbera aðila, lántökukostnaður er að lækka og þá er vert að hafa í huga að það er ekki langt síðan „vaxtaráðuneytið“ var annað útgjaldahæsta ráðuneytið. Með lækkandi vaxtakostnaði ríkisins eykst svigrúm til uppbyggilegri málefna.umferð

Stöðugleiki á fasteignamarkaði og lægri vextir

Samfara þessu hefur skuldastaða heimila landsins lækkað verulag, vextir hafa lækkað og stefna í að halda áfram að lækka. Þar átti leiðréttingin hlut að máli og enn er fólk að nýta sér bestu ávöxtunarleið heimilanna sem fellst í því að greiða séreignarsparnaðinn inn á lán. Nú hyllir loksins undir að íslenskir fasteignakaupendur fái notið sambærilegra vaxta og þekkjast erlendis. Meiri stöðugleiki á íbúðamarkaði hefur ekki sést í áraraðir, segir í nýrri Hagsjá Landsbankans. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3,5 prósent milli ára í fyrra. Raunverð íbúða stóð nánast í stað milli ára og jafnvægi er að skapast á íbúðamarkaði. Fasteignamarkaðurinn er hins vegar háður óvissu, meðal annars vegna ástandsins í bankakerfinu og svo virðist sem hægt hafi á nýbyggingum. Um leið hefur hins vegar hluti þess húsnæðis sem hvarf inn í ferðamannagistingu vera á leiðinni aftur út á leigu- og fasteignamarkað og orsakar án efa að leiguverð stendur nánast staðið í stað.

Kaupmáttur eykst en neytendur halda að sér höndum

Kaupmáttur jókst á síðasta ári um 2,4% og krónan reyndist nokkuð stöðug. Þrátt fyrir það hafa íslenskir neytendur hafa haldið að sér höndum og svo virðist sem þeir séu reynslunni ríkari eftir bankahrunið og séu tregir við að stofna til skulda. Þetta getur auðvitað haft áhrif á neytendamarkaði sem aftur hefur áhrif á hagvöxt. Síðustu ár hefur þjóðinni fjölga og við þurfum hagvöxt til að halda í við þjóðartekjur á mann.

En það er ljóst að það hefur þrengst verulega um með fjármögnun og þær vaxtalækkanir sem hafa átt sér stað ekki skilað sér út til atvinnulífsins. Augljóslega er ferðþjónustan í millibilsáandi og nú reynir á eiginfjárstöðu fyrirtækja þar. Viðleitni hefur verið til þess að renna fyrirtækjum saman og stækka einingar. Þorri ferðaþjónustunnar er hins vegar rekin í gegnum smáfyrirtæki og nú næstu mánuði reynir á eiginfjárstöðu þeirra og getu bankakerfisins til að vinna með þeim. Mörg hafa neyðst til að segja upp fólki og skera niður, meðal annars í kjölfar síðustu kjarasamninga. Það getur verið erfitt að meta hve mörg störf hafa beinlínis tapast vegna ríflegra launahækkana en atvinnuleysi er nú á uppleið og mun sjálfsagt aukast fram á vorið.

Af þessu sést að þó að staða ríkissjóðs og einstaklinga sé að öllum líkindum betri en áður þá er rekstrarstaða atvinnulífsins háð mikilli óvissu. Segja má að boltinn sé hjá Seðlabankanum sem sendi óvænt heldur neikvæð skilaboð um frekari vaxtalækkanir við síðustu vaxtaákvörðun. Þá er spurning hvernig bankinn bregst við augljósum lausafjárskorti hjá bönkunum  nú þegar sameiningin við Fjármálaeftirlitið hefur búið til eitt alsjáandi auga á fjármálamarkaðinum!