c

Pistlar:

15. febrúar 2020 kl. 16:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nýsköpunarkraftur íslensks sjávarútvegs

Það virðist heldur vanþakklátt hlutverk að fjalla um íslenskan sjávarútveg og reyna að benda á þá miklu möguleika sem í honum felast. Hin daglega umræða virðist snúast um helst um neikvæða þætti honum tengdan sem virðist vera eftirköst þeirra byggða- og samfélagsbreytinga sem urðu samfara nútímavæðingu hans og breytingu á stjórnun fiskveiða. Hér í pistlum hefur oft verið reynt að andhæfa gegn þessari einhæfu sýn og reyna að varpa ljósi á þann árangur sem íslenskur sjávarútvegur hefur náð og þá miklu breytingu sem hefur orðið á rekstri fyrirtækja hans og hve vel hefur tekist til með markaðs- og sölustarf. Ekki alveg venjulegt sjónarhorn þegar kemur að umræðu um íslenskan sjávarútveg.

Eitt það athyglisverðasta við íslenskan sjávarútveg er sú mikla nýsköpun og sá frumherjakraftur sem þar er að finna. Margir hafa virkjað það og fjallað um en óhætt er að hrósa þar sérstaklega starfi Þórs Sigfússonar sem setti á fót Íslenska sjávarklasan fyrir átta árum og hefur nú fært starfsemina og hugmyndafræðina til útlanda. Í sjávarútvegsblaði Morgunblaðsins fyrir skömmu var viðtal við Þór þar sem sagt var frá áformum hans og þeim möguleikum sem er að finna þegar kemur að nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi. Í pistlum hér hefur við ýmis tækifæri verið sagt frá forvitnilegum fyrirtækjum sem hafa tengsl við sjávarútveginn. Það má færa margvísleg rök fyrir því að hvergi séu meiri tækifæri og hvergi auðveldara fyrir okkur Íslendinga að sækja fram en einmitt á sviði sjávarútvegs. Fáar eða engar atvinnugreinar hér á landi státa af jafn mikilli framleiðni en það stafar af vilja og getu sjávarútvegsins til að fjárfesta í nýrri og betri tækni.sjávarutvegur

Horfa til Íslands

Í nýrri bók Þórs rekur hann sögu Íslenska sjávarklasans og fer í saumana á þeim áskorunum sem hann hefur þurfti að takast á við. Bókin heitir The New Fish Wave og er gefin út í Bandaríkjunum þar sem Íslenski sjávarklasinn hefur opnað starfsemi. Þór sagði samtali við Morgunblaðið að með ritinu sé hann meðal annars að bregðast við þeim mikla fjölda fyrirspurna sem klasanum berast frá fólki í öllum heimshlutum sem langar að beita sömu nálgun til að örva nýsköpun í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Þór bendir í viðtalinu á áhugaverðar skýringar á því hve vel tekst til með nýsköpunarstarf í sjávarútvegi. Hann segir að það hafi haft mikla þýðingu að nýsköpun í sjávarútvegi var þegar komin nokkuð vel á veg á Íslandi og hefð fyrir athafnasemi, sköpunar- og tilraunagleði í greininni. „Þegar Sjávarklasinn kemur til sögunnar getum við byggt á áratugalöngu starfi í átt að fullvinnslu afurða, og áratugalöngum rannsóknum á íslensku sjávarfangi. Með þetta veganesti áttum við auðveldara með að setja okkur í stellingar til að gera enn betur, enda búið að ryðja brautina.“

Þór telur að eftir bankahrun hafi mátt greina breyta viðhorfi samfélagsins til sjávarútvegsins og um leið lækka þröskuldinn fyrir fólk með góðar hugmyndir að láta þá þær reyna og setja sprotafyrirtæki á laggirnar. Þór rifjar upp að þegar hann var að fara af stað hafi margir haft á orði við hann að það væri kannski betra að beina kröftunum í nýsköpun að öðrum atvinnugreinum, enda færi vægi sjávarútvegs minnkandi á meðan aðrir geirar væru í örum vexti. Athyglisvert er að lesa eftirfarandi ummæli Þórs: „Ég man eftir fundi sem ég tók þátt í með stofnendum um 50 nýsköpunarfyrirtækja og sprotum í byrjun árs 2011. Þar bað ég gesti um að rétta upp hönd ef þeir hefðu hugmyndir sem tengdust hafinu og sjávarútveginum – en engin einasta hönd fór á loft. Þessu vildi ég breyta,“ segir hann.

Áhrifin meiri en flestir héldu

Meðal fyrstu verkefna Þórs var kortleggja betur þjóðhagsleg áhrif sjávarútvegsins í samstarfi við dr. Ragnar Árnason hagfræðiprófessor. „Þegar aðeins var horft til veiðanna sjálfra leit út fyrir að greinin færi smám saman dalandi, en allt önnur mynd kom í ljós þegar sjávarhagkerfið var skoðað í heild sinni, og nýsköpunarfyrirtækin og stoðþjónustan tekin með. Blasti þá við að bæði var mikilvægi greinarinnar mun meira en flestir höfðu áttað sig á og sjávartengd starfsemi í örum vexti,“ segir Þór í viðtalinu.

En með þessu gat Sjávarklasinn beint kastljósinu að hverju áhugaverðu nýsköpunarverkefninu á fætur öðru. Segir Þór að hann hafi lært snemma að það væri lykilatriði í árangursríku klasastarfi að geta reglulega bent á nýja sigra og framfarir. Þannig hafi frumkvöðlarnir hjá Sjávarklasanum meðal annars verið reglulegir gestir á síðum Morgunblaðsins þar sem þau segja frá mergjuðum uppfinningum, nýjum vörum, framförum í hönnun tækja og tóla, eða dýrmætum viðskiptatækifærum innan seilingar fyrir greinina. Já, jákvæð umræða getur skipt máli.

Meðbyr

Þór segir að með þessu hafi verið unnt að auka meðbyrinn jafnt og þétt, og fá fleira hugmynda og hæfileikaríkt fólk til að skoða betur tækifæri tengd nýsköpun í sjávarútvegi. Þá segir Þór að það hafi verið ómetanlegt fyrir Íslenska sjávarklasann að rótgróin fyrirtæki í greininni og leiðtogar atvinnulífsins fylktu sér á bak við starfsemina og voru boðin og búin að vera sprotafyrirtækjunum innan handar.

Þetta mættu þeir sem tala af lítilsvirðingu um íslenskan áliðnað, sem rétt eins og sjávarútvegurinn, getur af sér mikilvægt nýsköpunarstarf hafa í huga. Þó að grunnurinn liggi í hráefnavinnslu fylgja báðum þessum starfsgreinum mikil þörf fyrir menntað fólk, nýjungar og nýsköpunarstarf. Markmið Þórs og samherja í Sjávarklasanum er að nýta íslenskan fisk 100%. Það er metnaðarfull fyrirætlan en engin þjóð nýtir fiskinn eins vel og Íslendingar í dag. Spenandi verður að fylgjast með áframhaldandi þróun Sjávarklasans og íslensks sjávarútvegs.