c

Pistlar:

16. febrúar 2020 kl. 21:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Álverið í Straumsvík á tímamótum?

Á síðasta ári var þess minnst að hálf öld var liðin frá því að álframleiðsla hófst á Íslandi og eðli málsins samkvæmt var um leið 50 ára afmæli álversins í Straumsvík. Þess var getið rækilega í pistlum hér á síðasta ári enda ríkti ágæt bjartsýni um framtíð áliðnaðarins. Nú eru blikur á lofti með álverið í Straumsvík en rekstrarerfiðleikar undanfarinna ára og lágt álverð hafa eðlilega áhrif. Eftir alvarleg atvik í rekstri á síðasta ári og samdrátt í framleiðslu hafa eigendur álversins ákveðið að óska eftir endurskoðun á orkusamningum við Landsvirkjun. Fyrir nokkrum misserum var ákveðið að hætta tengingu orkuvers við álverð sem gerir það að verkum að einn sveiflujöfnunarþáttur var tekin út úr rekstri álversins. Til skamms tíma virkaði þetta skynsamlegt fyrir Landsvirkjun en kannski síður fyrir áliðnaðinn hér á landi. Hafa má í huga að Landsvirkjun fagnaði 50 ára afmæli sínu árið 2015 en saga áliðnaðarins og Landsvirkjunar er samofin.

Við tímamótin á síðasta ári var rifja upp að eftir 50 ára starf nam heildarframlag áliðnaðar, með óbeinu framlagi til íslenskrar verðmætasköp­unar, 1.150 milljörðum króna. Yfir 2000 manns hafa með beinum hætti atvinnu af álframleiðslu hér á landi og 5000 manns ef afleidd störf eru talin. Augljóslega er áliðnaðurinn okkur mikilvægur og þeir sem segja annað verða að útskýra betur hvað þeir eiga við enda áliðnaðurinn mikilvæg útflutningsgrein. Upphaf álframleiðslu markaði einnig tímamót í atvinnusögu Íslands enda hefur álframleiðsla orðið ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs eins og oft hefur verið vikið að í pistlum hér.straumsv

Umhverfismálin

Hér verður ekki stoppað við um áhrif álverslins á loftslagsmál en vert að rifja upp þessi ummæli sem höfð voru eftir Roelfien Kuijpers í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku. Þar segir hún um tækifæri Íslands: „Landið er einstakt að því leytinu til að orkuframleiðsla landsins er sjálfbær og þjóðin getur virkilega skapað fordæmi í málaflokknum. Ekki bara í Evrópu, heldur einnig alþjóðlega. Stóru atvinnugreinar landsins geta gert margt til þess að skera sig úr og þjóðin getur lagt áherslu á að eignasöfn þeirra endurspegli sjálfbær gildi.“

Roelfien Kuijpers var í haust valin ein af 25 áhrifamestu konum heims í fjármálum af American Banker. Hún hefur á 35 ára ferli sínum verið leiðandi í umræðunni um mikilvægi sjálfbærni, fjölbreytileika og jafnrétti á fjármálamörkuðum. Í dag er hún yfirmaður ábyrgra fjárfestinga og stefnumótandi tengsla hjá DWS Group á Írlandi, Skandinavíu og Bretlandi. Hún sagði í viðtalinu að hún væri bjartsýn fyrir komandi kynslóðir og telur Ísland geta sett stórt fordæmi í málaflokknum. Trúum við því sjálf?

Tvisvar skipt um eigendur

Álverið í Straumsvík hefur tvisvar skipt um eigendur. Það var svissneska álfyrirtækisins Alusuisse sem stóð að stofnun þess en seldi það til Alcan sem síðan seldi það núverandi eiganda, Rio Tinto. Lengi hefur verið skrafað um að Rio Tinto vill selja og sala til Norsk Hydro mun hafa verið komin langt áleiðis þegar snuðra hljóp á þráðinn. Ólíklegt er að af sölu verði úr þessu.

Í samtali við Morgunblaðið við tímamótin í fyrra áætlaði Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, að álverið hafi þá verið búið að framleiða um 6,2 milljónir tonna af áli frá gangsetningunni 1969. Miðað við tölur Evrópsku álsamtakanna séu þrír/fjórðu álsins enn í umferð. Framleiðslan jókst úr 33 þúsund tonnum fyrsta starfsárið 213 þúsund tonn eða sjöföldun, (þessi tala var sett fram áður en stöðvun varð á rekstri þess í fyrra vegna óhappa). En þessi framleiðsluaukning mun vera í takt við þróun annars staðar í heiminum en ál hefur orðið stöðugt mikilvægara þau 50 ár síðan Straumsvíkur-verið fór af stað. En álframleiðslan er ekki síður mikilvæg fyrir efnahag Íslands en samdráttur í ferðaþjónustu sýnir okkur hve mikilvægt er að hafa stoðir í efnahagslífinu sem sveiflast minna og öðru vísi. Höfum í huga að innlendur kostnaður álvera á Íslandi nam 86 milljörðum króna árið 2018, en útflutningur alls um 230 milljörðum.

Aukin sjálfvirkni og uppbygging

Núverandi byggingar álversins voru upphaflega hannaðar fyrir 150 þúsund tonna framleiðslu á ári. Með aukinni sjálfvirkni og þjálfun starfsfólks hefur tekist að auka framleiðsluna. Steypuskáli álversins er nú mjög fullkominn á heimsmælikvarða, að hluta tölvustýrður og sjálfvirkur.

Frá árinu 2012 hafi þar verið framleiddir boltar sem skila álverinu meiri tekjum. Öll framleiðslan er nú eftir sérpöntunum sem skili auknum virðisauka af framleiðslunni í Straumsvík. Forstjóri Ísals, Rannveig Rist, benti á í afmælisviðtalinu að með álverinu í Straumsvík komu ýmsar nýjungar til landsins, bæði hvað varðar atvinnusögu og öryggismál. Það er þó ekki síður mikilvægt að álverið hefur eflt mjög tæknimenntun í landinu og þróun hennar að hafa möguleikann á að starfa hérna. Margir starfsmenn hafa hér kynnst tækni og síðan menntað sig á þeim sviðum.

Frá upphafi hefur talsverður fjöldi tæknimenntaðra Íslendinga starfað hjá Ísal en frá árinu 1997 hafa Íslendingar séð alfarið um rekstur álversins. Það er ekki lítið skref og ekki síður sú staðreynd að nú flytja Íslendingar út þekkingu tengda áliðnaðinum.

Afleiddu störfin um 1.500

Hjá Ísal starfa um 450 manns og má ætla að afleidd störf vegna starfseminnar í Straumsvík gætu verið í kringum 1500, miðað við áætlanir Samáls á heildarfjölda afleiddra starfa í greininni. Skiptast þau milli verktaka og fyrirtækja sem þjónusta álverið.

„Á þessum 50 árum hefur Ísland þróast með okkur. Margt af því sem álverið varð að gera sjálft í gamla daga er nú hægt að kaupa sem þjónustu, t.d. ýmsa sérhæfða smíða- og viðhaldsvinnu. Við þurftum í meira mæli að gera við tæki sjálf, eða jafnvel senda þau til útlanda í viðgerð. Nú eru komin verkstæði á Íslandi sem ráða við flókin búnað og mikla sjálfvirkni. Iðnaðurinn hefur þróast og við höfum markvisst stuðlað að því. Fyrirtækin hafa þróað búnað fyrir áliðnaðinn sem við höfum prófað. Þau hafa svo flutt búnaðinn út og selt öðrum verksmiðjum,“ sagði Rannveig í samtali við Morgunblaðið í tilefni 50 ára afmælisins. Þetta er merkileg þróun, álverið hefur sannarlega aukið verkþekkingu Íslendinga.