c

Pistlar:

26. febrúar 2020 kl. 18:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Minnkandi fæðingartíðni vandamál í Evrópu


Síðan árið 1967 hefur frjósemi fallið um 38% í löndum Evrópusambandsins en sambandið hefur gert úrræði við fallandi tíðni að forgangsmáli. Út um alla Evrópu eru lönd og borgir að reyna að bregðast við hraðri fólksfækkun í kjölfar ört minnkandi frjósemi. Þessi vandamál eru að banka á dyr okkar Íslendinga eins og vikið var að í pistli hér fyrir stuttu. Við eins og aðrir verðum að skoða hvað er til ráða en ójafnvægi í mannfjöldapíramídanum getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélag ef færri og færri vinnandi hendur verða að standa undir samfélaginu.

Úrræðin sem birtast eru margvísleg. Þorpið Miehikkälä í Finnlandi borgar pörum ígildi 10 þúsund Bandaríkjadala (1,3 milljónir króna) fyrir að eignast barn. Fólk í Miehikkälä fær greidda eitt þúsund dali á ári þar til barnið nær 10 ára aldri. Til að fá greiðslurnar þarf viðkomandi að búa í bænum allan tímann. Miehikkälä er lítill bær úti á landsbyggðinni og eftir stöðuga fækkun eru íbúarnir komnir niður í tvö þúsund. Þeir sem eftir eru telja nauðsynlegt að sporna við þróuninni og reyna að fá ungt fólk á barnsaldri til að setjast þar að. Ef fer sem horfir neyðist bærinn til að loka einum af skólum sínum og önnur þjónusta við bæjarbúa mun smám saman dragast saman.fæð

Hækkun fæðingarorlofs

En slíkar aðgerðir hafa einnig verið boðaðar á landsvísu í Finnlandi. Þannig hefur ný ríkisstjórn boðað að báðir foreldrar fái jafn háar greiðslur í fæðingaorlofi. Samanlagt eiga foreldrar í Finnlandi nú 14 mánaða langt fæðingarorlof.

En það er ekki eingöngu Finnland sem er að glíma við fólksfækkun. Út um alla Evrópu eru þjóðir nú að reyna að snúa við þróuninni en fæðingartíðni í Evrópu er nú komin niður í 1,6 börn á hverja konu en er 2,4 börn á konu á heimsvísu. Báðar þessar tölur bera með sér miklar breytingar en almennt er talið að það þurfi að vera 2,1 börn á hverja konu til að halda mannfjölda við. Hér á Íslandi er hlutfallið komið niður í 1,7 börn á konu eins og hefur verið rakið áður.

Miðað við þessa fæðingartíðni mun vinnandi fólki fækka um 40 milljónir á meginlandi Evrópu á næstu 50 árum. Fleiri en Finnar eru farnir að beita fjárhagsstuðning til að örva fólksfjölgun. Grísk stjórnvöld greiða hverju pari sem svarar 2.235 Bandaríkjadali með hverju barni. Skiptir þá engu hvort þeir eru grískt fæddir eða ekki. Þjóðverjar hafa þegar náð nokkrum árangri við að auka fæðingartíðni og hafa aukið hana en hún var komin niður í 1,25 barn á hverja konu árið 1994. Í dag er þetta hlutfall 1,57 barn á hverja konu í dag. Ekki mikil breyting en það munar um minna. Þetta hafa þeir gert með auknu fæðingarorlofi, lengra orlofi til feðra og aukins framboðs umönnunarheimila.

Hugsanlega eru verið að bregðast of seint við í sumum tilfellum enda má segja að ör lækkun fæðingartíðni hafi komið fleirum en Íslendingum á óvart. Ljóst er að skekkja í fæðingarpíramídanum mun til lengri tíma rýra lífskjör fólks. Það verða stjórnvöld að hafa í huga.