c

Pistlar:

20. mars 2020 kl. 16:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Aðlögunarhæfni sjávarútvegsins

Á nánast einni viku hafa þau tíðindi gerst að stór hluti heimsviðskipta hefur lagst af. Atvinnulíf er nánast að stöðvast víðast hvar, lönd hafa lokað landamærum sínum og alþjóðasamstarf og þjóðríkjasambönd eru endurskilgreind upp á nýtt undir orðunum; hver er sjálfum sér næstur. Það er orðið klisja að segja að við lifum á fordæmalausum tímum en allt þetta fær okkur til að endurmeta okkur sjálf, samskipti við annað fólk og grunnstoðir samfélagsins.ferskfisk

Alþjóðaviðskipti umturnast en munu hefjast aftur og engin veit hvenær og þá hvernig. Í byrjun vikunnar tóku útgöngubönn gildi víðsvegar um Evrópu. Við þessi tíðindi urðu stakkaskipti á erlendum mörkuðum fyrir fisk, mikilvægustu útflutningsafurð okkar. Margir töldu sig sjá hvað koma skyldi á mörkuðum í aðdraganda þessa, en viðskipti munu þó hafa haldist óbreytt furðu lengi. Í kjölfar hertra aðgerða til þess að hefta útbreiðslu COVID-19 í Evrópu breyttust aðstæður til muna: Veitingastöðum, hótelum, mötuneytum og fiskborðum matvöruverslana hefur verið lokað. Staða ýmissa birgja í virðiskeðjunni, til dæmis í dreifikerfinu, er jafnframt í óvissu. Þetta hefur því sem næst þurrkað upp eftirspurn eftir ferskum afurðum í Evrópu, með tilheyrandi áhrifum á útflutning fisks frá Íslandi. Áhrifin eru ekki aðeins bundin við ferskar afurðir. Þetta kemur til viðbótar við erfiðleika við að halda flutningsleiðunum sjálfum opnum í kjölfar takmarkanna á landamærum og flugsamgöngum.

Eftirspurn eftir ferskum fiski horfin

Í öllum tilfellum átti það við að alger umskipti hafi orðið á markaðnum yfir helgi: Eftirspurn eftir ferskum fiski í Evrópu er orðin því sem næst engin enda eru strangar lokanir í gildi víðast hvar. Ferskur fiskur frá Íslandi hefur til þessa einkum farið inn á veitingahús, hótel, í mötuneyti, til fyrirtækja í veisluþjónustu eða í opin fiskborð í verslunum. Þetta er flest allt lokað eins og staðan er í dag. Áhrifin af þessum lokunum eru þó ekki aðeins bundin við ferskar afurðir; fyrirtækin eru að sjá samdrátt á eftirspurn allra tegunda sem fara inn á framangreinda markaði.

Allt er þetta að breytast. Þar má til dæmis nefna sjófrystar afurðir sem fara í „Fish&Chips“ búðir í Bretlandi, saltaðar afurðir sem fara á veitingastaði, til dæmis á Ítalíu og Spáni, og afurðir sem fara inn á markaði sem reiða sig á ferðamennsku, til dæmis Kanarí og Tyrkland. Eftirspurn eftir eldisafurðum, sem fara að miklu leyti einnig inn á veitingastaði, hefur dregist saman, og gera má ráð fyrir áframhaldandi samdrátt eða stopp næstu vikur í það minnsta. Þá hafa markaðir fyrir hráefni hrunið: Fiskvinnslur innan Evrópu eiga erfitt með að manna starfsemi sína, eftirspurnin er veik og óvissa er til staðar varðandi aðra þætti virðiskeðjunnar.

Sjávarútvegurinn að bjarga verðmætum

Íslenskur sjávarútvegur er núna að umbreyta öllum sínum ferlum og færa framleiðsluna yfir á aðra markaði í aðrar pakkning með nýjar vinnsluleiðir. Það sem áður fór í ferskt fer núna í frystingu. Sjómönnum er gert að færa sig til á veiðisvæðum og breyta um áherslur. Inn í þessu umhverfi er íslenskur sjávarútvegur að vinna að þessa dagana.

Hvar eru þeir nú sem telja þetta barnaleik, að skipuleggja veiðar með hámarksnýtingu, skipuleggja vinnslu svo að hollustu sé gætt og finna markaðssvæði sem vilja og geta keypt þann fisk sem við getum framleitt og afhent? - Og þá auðvitað á sem hæstu verði til að standa undir því þjóðfélagi sem hér er að finna. Á meðan fjölmiðlamenn skjalla hver annan og gera upp æskuárin eru rekstraraðilar sjávarútvegsins að vinna hörðum höndum við að endurmeta starfsemina þannig að fyrirtækjum, störfum og verðmætum verði bjargað.