c

Pistlar:

1. apríl 2020 kl. 20:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Spretthlaup og langhlaup í baráttunni við veiruna

Sá vandi sem heimurinn er að glíma við núna mun hafa varanleg áhrif á samfélög og viðskiptakerfi þjóða heimsins. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, segir ástandið nú verstu ógn mannkynsins frá seinni heimsstyrjöldinni. Staðan sem nú er uppi er um margt einstök eins og við verðum öll áþreifanlega var við á hverjum degi. Það blasir við að í fyllingu tímans verður að gera heiðarlega úttekt á upptökum veirunnar, útbreiðslu hennar og viðbrögðum heilbrigðisyfirvalda.

Flest lönd verða að endurskilgreina áhættumat sitt og endurmeta forgangsröðun sína. Um leið verða mörg alþjóðasamtök og alþjóðastofnanir krafðar sagna um hlutverk sitt og hvernig þau reyndust á tímum veirunnar. Öruggt má telja að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) verði endurmetin frá grunni en víða má greina vonbrigði með það hvernig stofnunin hefur tekið á veirunni. Hafi einhver sýnt andvaraleysi þá var það líklega WHO. Á svona stundu virðist hlutverk Sameinuðu þjóðanna veigalítið og sama má segja um Evrópusambandið en hér var fyrir stuttu vikið að vonbrigðum sem greina hjá þeim löndum Evrópu sem verst hafa orðið úti vegna veirunnar. Fyrstu viðbrögð allra þjóða var að einangra sig og meta eigin stöðu, eðlilega. Síðar fóru ESB-löndin að aðstoða hvort annað eins og góðum nágrana sæmdi en stofnanahyggja ESB reyndist fjötur um fót þegar kom að aðgerðum. Nú þegar eru margir farnir að hafa áhyggjur af því að kostnaðurinn muni reyna mjög á sambandið og nægir þar að nefna varnaðarorð Ambrose Evans-Pritchard, alþjóðlegs viðskiptaritstjóra Daily Telegraph í London og hins hálftíræða Jacques Delors, fyrrum forseta framkvæmdastjórnar ESB. Báðir telja að fjármögnunin muni verða ESB samstarfinu um megn.sars-cov-19

Bómullarpinninn og þekkingarsamfélögin

En meira um það seinna. Það er merkilegt að velta því fyrir sér að hlutur eins og veirusýking skuli geta lagt þekkingarsamfélag nútímans á hliðina. Skortur á jafn ómerkilegum hlutum og bómullarpinnum virtist ætla að verða okkur fjötur um fót og tafði leit að veirunni um tíma. Um leið sáum við að þekkingarfyrirtæki eins og Íslensk erfðagreining gat stokkið inn á völlinn og styrk mjög leit og rannsókn á veirunni. Við vitum af því að út um allan heim eru fyrirtæki og stofnanir með gríðarlega rannsóknargetu að skoða veiruna og reyna að þróa lyf sem geta nýst í baráttunni við veiruna.

Um síðustu helgi var áhugavert viðtal við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í Fréttablaðinu þar sem hann sagði að við værum þrátt fyrir allt ekki svo illa undirbúin fyrir veiru sem þessa. Getur það verið rétt? Eðlilega velta margir fyrir sér hvernig þekkingarsamfélög okkar tíma takast á við svona vágest, geta þau snúið saman bökum, deilt upplýsingum og þekkingu og nýtt styrkleika þar sem þá er að finna?

Þrjár leiðir í baráttunni

Sjálfsagt skilja flestir mikilvægi þess að deila þekkingu á tímum sem þessum en spurningin sem brennur á mörgum er sú hvort menn og fyrirtæki hafi þroska til að deila henni. Í fljótu bragði virðist sem þrennt þurfi að gera: Bættar prófanir, þróa veirulyf og að endingu bóluefni sem dugar til að taka veiruna úr umferð. Hugsanlega sjáum við ekki hagkerfi heimsins ná sér á strik fyrr en það verður.

Víkjum að fyrsta þættinum. Bæta prófanir og skimun þannig að auðveldara og skilvirkara sé að greina veiruna. Þær þjóðir sem hafa prófað mest virðist standa best að vígi, þar á meðal Þjóðverjar sem strax í janúar voru farnir að vinna með próf sem myndu hjálpa þeim að leita uppi smitaða.

Nú þegar er rætt um að verið sé að þróa prófanir sem geti flýtt mjög mikið fyrir því að finna smit og auðveldað leit að því. Ef með auðveldum hætti er hægt að greina skjótt hvort fólk er smitað eða ekki verður miklu auðveldara að loka á útbreiðslu sjúkdómsins. Af fréttum að dæma má hafa nokkrar væntingar um að þetta geti tekist innan ekki langs tíma.

Leitin að veirulyfjum

Í öðru lagi þarf að finna réttu lyfin/lyfjakokkteilana til að milda sjúkdóminn gagnvart þeim sem eru að fá hann núna. Líklega er þetta það sem er brýnast í bráð en þarna er þá verið að vinna með þekkt lyf og skoða hvort hægt sé að nýta þau í baráttunni við Covid-19. Fagnaðarefni var þegar greint var frá því að lyfjafyrirtækið Alvogen ætlaði að gefa Landspítalanum 50 þúsund skammta af malaríulyfinu Hydroxychloroquine. Það hefur verið gefið sjúklingum með COVID-19, meðal annars á smitsjúkdómadeild Landspítalans og víðar í heiminum. Eins og Kári upplýsti í áðurnefndu viðtali gekk framan af mjög hægt framan af að berjast við AIDS veiruna, enda flóknari en Covid-19, en svo rættist úr. Skilja má Kára þannig að baráttan nú muni ganga betur.

Í þriðja og síðasta lagi þarf að finna bóluefni. Ljóst er að allt kapp verður lagt á það og lyfjafyrirtæki um allan vinna nú dag sem nótt við að þróa bóluefni. Kári benti á að þegar séu lyf komin í prófanir sem sé í raun ótrúlegur hraði þar sem ekki séu nema þrír mánuðir síðan vísindamenn fóru að fást við veiruna. Ómögulegt er að segja hve hratt lausnirnar koma en hugsanlega þarf að slá af kröfum eftirlitsins einhversstaðar, heimurinn þarf á bóluefni að halda til að geta andað léttar. Á svona tímum þurfa allir að snúa bökum saman.