c

Pistlar:

4. apríl 2020 kl. 17:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Plágan og Ítalía

Ef allt væri með feldu væri ég á leiðinni til Ítalíu til hálfsmánaðardvalar eins og ég hef gert undanfarin ár í kringum páskana. Ítalía er dásamlegt land að heimsækja; mannlíf, náttúra, matur og vín, saga og menning. Allt rennur þetta saman í ótrúlegan bræðing sem gerir dvölina heillandi og upplífgandi, sérstaklega þegar veturinn virðist ekki ætla að sleppa tökum sínum á Íslandi. Það kemur því ekki á óvart að Íslendingar hafa löngum sótt Ítalíu heim í leit að andagift, hvíld og upplifun. Frægt er að Halldór Kiljan Laxness dvaldi alllengi á Sikiley árið 1925 - mestallan tímann á Taormina og skrifaði Vefarann mikla frá Kasmír þar. Bók sem ég á erfitt með að fá nokkurn botn í en það er önnur saga. Hef meiri áhuga á skáldskapalífi en skáldskapnum sjálfum!italvirus

En það er þyngra en tárum taki að fylgjast með baráttu Ítala við veiruna sem herjar á heimsbyggðina og hefur lamað mannlíf og efnahag landanna og stefnt heilsu ótölulegs fjölda fólks í hættu en nú eru um 15 þúsund dauðsföll á Ítalíu rakin til veirunnar. Ekki bætir að sjá fólkið í þeirri fögru borg Bergamo fara hvað verst út úr veirunni en ég hef átt því láni að fagna að gista þar um skeið. Sóttin mun ganga yfir að lokum og mannlíf fara aftur af stað en hverjar verða hinar efnahagslegu afleiðingar? Margir óttast að úrvinnslan muni reyna mjög á samstarfið innan Evrópusambandsins en ekki bætti úr skák að efnahagur Ítala var bágborinn eins og bent var á hér í pistli fyrir ári síðan. Dvöl fyrir tveimur árum í hinni gömlu og fögru bankaborg Siena sýndi manni einnig að bankakerfi Ítala er og hefur verið á brauðfótum enda Ítalir flutt markvisst sparnað sinn úr landi af ótta við að ítölsku bankarnir fari á hliðina. Hvernig mun greiðast úr þessu?

Áttunda stærsta hagkerfi heims

Erfiðleikarnir í Grikklandi eftir bankahrunið 2008 verða eins og hjóm eitt í samanburði við það sem gerist ef Ítalía fer á hliðina. Ítalía er þriðja stærsta efnahagskerfið innan Evrópusambandsins og það áttunda stærsta í heiminum að umfangi, það 12. stærsta þegar kemur að landsframleiðslu. Ráðamenn Ítalíu sitja við borðið þegar ráðmenn valdakjarnanna G7 og G20 koma saman og hafa verið í hringiðu ákvörðunarvaldsins á heimsvísu. Ítalía er áttundi stærsti útflytjandi í heiminum og um 60% af viðskiptum þess eru innan ESB og þar eru Frakkland og Þýskaland stærstu viðskiptalöndin.banksiitalía

Ítalía er reyndar tvískipt, iðnaðarsvæðin auðugu í norðrinu, sem hafa farið hvað verst út úr kreppunni, og hin sólþurrkuðu svæði suðursins, „mezzogiorno“, þar sem mafían á sitt helsta skjól og margir lifa fyrir utan hið opinbera bókhald. Því er reyndar haldið fram að þar starfi um 3,7 milljón manna nánast svart og benda tölur ítölsku hagstofunnar (Italian National Institute of Statistics (ISTAT)) til þess. Hvernig á að vera hægt að koma bótum til fólks sem er ekki á skrá? Ítölsk yfirvöld eins og aðrir eru að finna leiðir til að bæta fólki tekjumissinn nú þegar allt er stopp vegna sóttkvíar en margt fólk á Ítalíu er hvergi skráð í vinnu. Fréttir berast af því að smáglæpamenn, vasaþjófar, vændiskonur og annað fólk sem á erfitt með að feta brautina þröngu sé nú mætt í súpubiðraðir, rétt eins og annað utangarðsfólk. Spenna var fyrir í landinu vegna mikils fjölda flóttamanna sem maður sér gjarnan hreiðra um sig í görðum og opinberum svæðum. Menn óttast að reiðin beinist að þeim áður en um lýkur. Að sumu leyti hefur þetta eflt samstöðu meðal íbúa sem um skeið fóru út á svalir og sungu heilbrigðisstarfsmönnum til heiðurs en svo heyrist af því á öðrum stöðum að flutningabílar með mat og matvöruverslanir séu rænd. Áminning um að við erum alltaf einni máltíð frá uppreisn.

Hvernig verður samband Giuseppe Conte við ESB?

Forsætisráðherrann Giuseppe Conte, hefur lofað að setja sem svarar 440 milljónum Bandaríkjadala í matvælaaðstoð fyrir þá sem líða mesta neyð og kemur það til viðbótar við 4,5 milljarða dala aðstoð sem hann var búinn að lofa héraðsstjórnum til að standa undir aðstoð við þá sem minna meiga sín. Samhliða hefur hann sent stjórnendum Evrópusambandsins tóninn og tekið við heilbrigðisaðstoð frá Kínverjum, Kúbverjum og Rússum auk þess sem Bandaríkjamenn reistu herspítala. Ráðamenn ESB hafa verið tvístígandi í málinu og frá gamalli tíð hafa þeir tortryggt Giuseppe Conte, eða allt síðan hann samþykkti að taka þátt í belta og brauta (e. Belt and Road) átaki Kínverja. Þegar kemur að því að gera upp reikninginn stóra gæti skorist í odda. Á meðan vonum við að Ítalir nái sem fyrst tökum á plágunni herfilegu sem leikur þá svo grátt.