c

Pistlar:

9. apríl 2020 kl. 17:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mistök WHO og heimsfaraldurinn

Heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir setur nýjar og erfiðar áskoranir á öll samfélög heims, leiðtoga þeirra og ekki síður samstarfsvettvangi eins og alþjóðastofnanir og alþjóðasamtök. Ef einhver ein stofnun þarf að fást við heimsfaraldur eins og COVID-19 þá er það Alþjóðaheilbrigðistofnunin WHO. Stofnunin og stjórnendur hennar sitja nú undir margvíslegum ásökunum rétt eins og leiðtogar margra ríkja. Sú sátt sem hér á Íslandi hefur ríkt um viðbrögð við faraldrinum er að mörgu leyti einstök en líklega fer að reyna meira á ákvarðanir þríeykisins ópólitíska þegar reynt verður að koma samfélaginu af stað aftur til að minnka þann efnahagslega skaða sem veiran hefur valdið. Viðbrögð við ummælum menntamálaráðherra, um að ekki verði unnt að opna landið fyrr en bóluefni finnst, sýnir glögglega hvað við verður að eiga.

Dags daglega sjáum við mest þá gagnrýni sem sett er fram í Bandaríkjunum og þá einkum gagnvart Trump-stjórninni. Það er einfaldlega af því við erum hluti af ensku málasvæði og fylgjumst best með þeim fjölmiðlum. Augljóslega sitja margar ríkisstjórnir undir gagnrýni enda fara löndin misharkalega út úr faraldrinum. Samræmd aðferðafræði virtist ekki til þegar kom að skimunum eða prófunum, hvað þá í hvaða mæli ætti að beita lokunum. Hvert og eitt land virtist þurfa að þreifa sig áfram þó að sóttvarnarlæknirinn íslenski hafi upplýst okkur um samráð, meðal annars við Sóttvarnastofnun Evrópu. Trump-stjórnin hefur augljóslega gert mistök en hafa verður í huga að bandaríska stjórnkerfið byggist á valddreifingu og því hafa einstaka ríkisstjórar og borgarstjórar stóru hlutverki að gegna eins og við höfum fylgst með í gegnum daglega fundi Cuomo ríkisstjóra New York ríkis.whokarlinn

Gagnrýni Matt Ridley

En víkjum aftur að WHO og hinum umdeilda yfirmanni stofnunarinnar Tedros Adhanom Ghebreyesu. Matt Ridley (dr. Matthew White Ridley,) rithöfundur er mörgum Íslendingum kunnur en fyrir nokkrum árum kom út bók hans Heimur batnandi fer (The Rational Optimist: How Prosperity evolves) á íslensku. Matt Ridley lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-Háskóla 1983. Hann var vísindaritstjóri Economist í mörg ár og skrifar reglulega um vísindi fyrir Wall Street Journal. Bækur Ridleys um vísindi hafa vakið mikla eftirtekt og selst mikið en hann er með fasta pistla í breska blaðinu The Telegraph.

Í pistli fyrir stuttu rekur Ridley viðbrögð WHO og gagnrýnir stofnunina harðlega. Hann tekur undir með utanríkisráðherra Breta, Dominic Raab, núverandi staðgengli forsætisráðherrans, um að það verði að framkvæma ítarlega úttekt á undirbúningi og útbreiðslu farsóttarinnar þegar aðstæður leyfa. Ridley hafnar því hins vegar að slík úttekt verði gerð á vegum WHO, einfaldlega af því að stofnunin sjálf hljóti að verða til skoðunar. Hann segir að margt gott fólk sé innan stofnunarinnar og menn séu að reyna sitt besta en eitthvað alvarlegt hafi farið úrskeiðis.

Gagnrýni hans á WHO er þríþætt. Í fyrsta lagi hafi stofnuninni mistekist að undirbúa lönd heimsins undir faraldurinn. SARS og ebólu faraldrarnir hefðu átt að senda rétt skilaboð til WHO en í stað þess að setja kraftanna í að undirbúa sig fyrir næsta heimsfaraldur hafi stofnunin einbeitt sér að loftslagsmálum, offitu og tóbaksvörnum. Ridley gagnrýnir forgangsröðunina en á sama tíma voru aðrar óháðar stofnanir, eins og Wellcome Trust og Gates stofnunin á fullu við að styðja við nýsköpun til varnar heimsfaraldri. Lönd eins og Singapore og Suður Kórea hafi þá ákveðið að beita eigin aðferðafræði og þá helst haft hliðsjón af útbreiðslu SARS.covi

Framferði kínverskra yfirvalda

Í öðru lagi gagnrýnir Ridley WHO fyrir að hafa dregið úr alvarleika faraldursins þegar hann hafi komið upp í Kína og þannig sýnt þjónkun við kínversk yfirvöld sem greiða stórar fjárhæðir til WHO. Í tweeti frá WHO 14. janúar hafi sagt að fyrstu rannsóknir kínverskra yfirvalda sýni engin merki þess að sóttin geti borist milli manna. (e. “preliminary investigations conducted by the Chinese authorities have found no clear evidence of human-to-human transmission of the novel #coronavirus”). Á sama tíma hafi stofnunin verið aðvöruð af heilbrigðisyfirvöldum í Taíwan sem sögðu að vísbendingar væri um að heilbrigðisstarfsmenn í Wuhan væru að sýkjast. Nýlega var sýnd í ríkissjónvarpinu dönsk heimildarmynd sem skyldi eftir margar spurningar um viðbrögð kínverskra yfirvalda. Myndin eins og sér kallar á rannsókn en samkvæmt henni mun veiran hafa komið upp í nóvember og fyrstu vikur hafi kínversk yfirvöld einbeitt sér að því að þagga málið niður.

Á þessum tíma hafi kínverskum yfirvöldum verið ljóst í margar vikur að veiran væri að dreifast og að flest benti til þess að hún færi milli manna. Á sama tíma hafi WHO lofað kínversk yfirvöld fyrir fagleg viðbrögð. Kína er að setja ný viðmið í viðbrögðum við faraldri (e. “China is actually setting a new standard for outbreak response”), sagði yfirmaður WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus. Hann er fyrrum utanríkisráðherra Eþíópíu en margir hafa rifjað upp að Eþíópía treystir mjög á fjárframlög frá Kína. Aðstoðarframkvæmdastjóri WHO, Bruce Aylward, bætti um betur með því að lofa sérstaklega kínverska heilbrigðiskerfið og hve vel þeim gengi að halda sjúklingum á lífi í viðtali 3. mars síðastliðin.

Bruce Aylward gerði sig að viðundri í viðtali við blaðamann frá Hong Kong þann 29. mars síðastliðin en uppritun og hljóðritun af viðtalinu hafur farið víða. Blaðamaðurinn spurði Aylward út í árangursríkar aðferðir Taiwan-stjórnarinnar við að hamla útbreiðslu veirunnar. Í fyrstu hundsaði Aylward spurninguna, lét sem hann hefði ekki heyrt hana. Þegar blaðamaðurinn bauðst til að endurtaka hana, baðst Aylward undan því og óskaði eftir næstu spurningu. Þegar blaðamaðurinn endurtók spurninguna slitnaði samtalið allt í einu. Þegar aftur náðist samband við Aylward lét hann sem hann hefði ekki heyrt spurninguna og talaði um Kína. Eins og áður segir er Kína stór greiðandi til WHO og utanríkispólitík Kína gengur út á að hundsa Taiwan sem sjálfstætt ríki. Svo virðist sem WHO hafi tekið upp þessa stefnu Kína en Taiwan bannaði öll ferðalög milli landanna strax og stjórnvöld urðu áskynja um faraldurinn.

Brugðust í ebóla-faraldrinum

Í þriðja lagi segir Ridley að WHO hafi brugðist áður. Þegar ebóla-veiran braust út í Vestur-Afríku seinni hluta árs 2013 hafi framferði stjórnenda WHO verið undarlegt en þeir hafi beinlínis hindrað baráttuna gegn veirunni með því að leyfa ekki öðrum að fylgjast með og tafið upplýsingaflæðið. Það hafi ekki verið fyrr en í apríl 2014 sem sem menn áttuðu sig á alvarleika faraldursins en þá kom tilkynning frá hjálparsamtökunum Læknar án landamæra (Medecins Sans Frontieres) sem sagði að hann væri stjórnlaus. Viðbrögð talsmanns WHO hafi verið að draga úr þessum fullyrðingum og nánast hafna þeim. Í júní 2014 reyndu fleiri að vara WHO við en það var ekki fyrr en í ágúst sama ár sem WHO viðurkenndi alvarleika málsins. Að endingu létust 11 þúsund manns úr veirunni.whomynd

Seinna gekkst WHO við því að viðbrögð þeirra hefðu verið ófullnægjandi og að stofnunin hafi ekki gætt að því að gefa upplýsingar í samræmi við alvarleika málsins (e. “initial response was slow and insufficient, we were not aggressive in alerting the world, our surge capacity was limited, we did not work effectively in coordination with other partners, there were shortcomings in risk communication.”) Ridley segir að það sé dapurlegt að sjá það sama gerast aftur.

Til að bíta höfuðið af skömminni, segir Ridley, hafi Margaret Chan, þá yfirmaður stofnunarinnar, sent frá sér yfirlýsingu í september 2014, þegar ebóla-faraldurinn var í hámarki, þar sem hún sagði helsta markmið stofnunarinnar vera að berjast loftslagsbreytingum. Þær séu helsta heilbrigðisvandamál 21. aldarinnar. Í október 2014 tók hún ráðstefnu í Moskvu um tóbaksvarnir fram yfir ebóla-ráðstefnu sem haldin var á sama tíma. Enn og aftur undruðust menn forgangsröðun WHO.

Ridley segir að WHO vilji fremur skammast út í rík lönd fyrir lofslagsmál og lífstílssjúkdóma en að byggja upp þær varnir sem eru nauðsynlegar gegn heimsfaraldri. Þá sé það opinbert leyndarmál í hinu alþjóðlega umhverfi og meðal sérfræðinga heilbrigðisgeirans að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin standi einfaldlega ekki undir nafni. Þetta eru harðar ásakanir og sjálfsagt á eftir að verða mikil umræða um þetta þegar faglegt uppgjör verður við faraldurinn og þær ákvarðanir sem voru teknar. En fyrst er að kveða hann niður.