c

Pistlar:

25. maí 2020 kl. 15:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Einkaframtakið á leið út í geim!


Nú í vikunni verða þau tímamót í geimferðum að SpaceX, fyrirtæki bandaríska frumkvöðulsins Elon Musk, mun fara með bandaríska geimfara til Alþjóðlegu geimferðarstöðvarinnar. Þetta verður í fyrsta sinn síðan 2011 að bandarískum geimförum er skotið á loft frá Bandaríkjunum og þetta verður í fyrsta sinn sem einkarekið geimferðarfyrirtæki flýgur með geimfara á braut umhverfis jörðu. Þetta eru því talsverð tímamót en margir hafa fylgst með SpaceX þróast áfram en það eru ekki liðin nema 17 ár síðan Musk hóf rekstur félagsins og nú er það komið í vinnu fyrir bandarísku geimferðastofnunina, NASA, við að flytja geimfara þeirra út í geim. Það er því ekki nema von að margir velti því fyrir sér á þessum tímamótum hvort einkaframtakið sé að sigra geiminn!geimur

Ef allt fer að óskum munu geimfararnir Bob Behnken og Doug Hurley hefja sig til flugs frá Kennedy geimferðarmiðstöðinni (Kennedy Space Center) á miðvikudaginn og tengjast Alþjóðlegu geimferðarmiðstöðinni sólarhring síðar. Þar munu þeir dvelja ein til fjóra mánuði við rannsóknir. Geimfararnir munu fara á loft í Dragon hylkinu sem verður knúið áfram af Falcon 9 eldflaug. Hvoru tveggja eru þessir gripir hannaðir og framleiddir af SpaceX. Að sjálfsögðu verða geimfararnir keyrðir síðustu vegalengdina í Tesla rafmagnsbíl, framleiddum af öðru fyrirtæki Musk. „Þetta eru ekki ósvipuð tímamót og þegar Appolo-áætlunin fór af stað,“ hefur Forbes tímaritið eftir Tom Zelibor, hershöfðingja á eftirlaunum og fyrrverandi forstöðumanni geimferðaráætlunarinnar. Forbes rifjar upp að það að koma Neil Amstrong á tunglið hafi ekki síður verið sigur kapítalismans yfir kommúnismanum en vísindalegt afrek en eins og mönnum er í fersku minni þá stóð Kalda stríðið sem hæst þá. Sama eigi við núna, þetta sé sigur kapítalismans og einkaframtaksins. Það sé með ólíkindum að SpaceX sé komið í þessa stöðu.

Einkaframtakið á rústum kommúnismans

Vissulega byggðist Appolo-áætlunin á starfi hundruða einkafyrirtækja en það var opinber aðili sem stóð bak við framtakið og peningarnir komu frá skattgreiðendum. Uppreiknað kostaði það 152 milljarða Bandaríkjadala að kom Armstrong á tunglið. Á þeim tíma var það aðeins talið vera á færi stórvelda að koma mönnum út í geiminn. Það var hins vegar eftirtektarvert að þegar Kalda stríðinu lauk og Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 þá reis upp sjálfstæður geimferðaiðnaður á rústum kommúnismans. Einkaframtakið hafði haldið innreið sína. Þannig varð til fyrirtækið MirCorp, sem var skráð í Hollandi, en það tók um tíma yfir rekstur á Mir geimstöðinni og rannsóknarstarfinu þar. Á sama tíma var heldur barist gegn því í Bandaríkjunum að menn væru að setja upp slíka starfsemi. Margir reyndu þó fyrir sér og héldu við þekkingu og áhuga á meðan NASA var að draga úr sinni starfsemi.

Það var í þessu umhverfi sem Musk stofnaði SpaceX árið 2003. Hann notaði til þess fjármuni sem hann fékk þegar hann seldi í öðrum frumkvöðlafélögum. Þannig fékk hann 307 milljónir dala við söluna á Zip2, en það var fyrsta félagið sem hann stóð að. Einnig fékk hann 1,5 milljarð dala við sölu á hlut sinum í greiðslumiðlunarfélaginu PayPal. „Það blasti við að það var nauðsynlegt að skapa áreiðanlegt félag sem gæti fundið leiðir til að stunda geimferðir á mun ódýrari hátt en áður,“ sagði Musk í samtali við Forbes á þessum tíma. Honum tókst að fá aðra hluthafa til liðs við sig en við blasti að bandarísk stjórnvöld yrðu alltaf einn aðal viðskiptavinurinn. Því var mikil áhersla lögð á að tryggja góð samskipti við NASA og árið 2006 fékk félagið samning við NASA sem auðveldaði hönnun á Falcon 9 eldflauginni.

Augu margra munu beinast til himins á miðvikudaginn og alla jafnan myndu margir mæta á Kennedy-höfða en nú er fólki ráðlegt að horfa heiman frá sér. Og svo er bara að biðja um gott veður.