c

Pistlar:

27. maí 2020 kl. 15:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stærðin og hagkvæmnin

Allir vilja hlúa að fíngerðari gangverkum atvinnulífsins og reyndar mannlífsins alls ef svo stendur á. Við viljum sjá sprotana þrífast en hryllir svo við stórfyrirtækjunum sem upp af þeim vaxa. Litlum fyrirtækjum er hampað af öllum en stórfyrirtækin fordæmd. Samt er það svo að stærðin og hagkvæmnin eru hluti af sama peningi. Þetta birtist ekki aðeins í atvinnulífinu, við sjáum það í menningu og listum og jafnvel fjölmiðlum. Af hverju þarf að vera Þjóðleikhús? Mætti ekki allt eins setja þá milljarða sem í rekstur þess fara í minni og áhugaverðari einingar? Að því sama mætti spyrja þegar rekstur Ríkisútvarpsins er skoðaður. Er sú eining ekki dæmigerð fyrir drottnunarstöðu stórfyrirtækis sem vill svo til að er í eigu ríkisins og kostað af skattgreiðendum að stórum hluta. Já, öll nef landsins verða að láta sitt af hendi til þess að Ríkisútvarpið hafi afl og styrk til þess að reka sig eins og hinir raunverulegu eigendur þess, starfsmennirnir, vilja.

Fyrir stuttu sá ég greindarlega menn á samfélagsmiðlum bölsóttast yfir tómstundabændum í sauðfjárrækt. Gott ef þessir snillingar voru ekki úr Skagafirðinum en þeir töldu að tómstundarekstur spillti fyrir alvöru sauðfjárbændum. Nú er það vitað að sauðfjárrækt er ekki beinlínis að skila miklum arði til þeirra sem leggja hana fyrir sig og til að styðja við greinina fá þeir er hana stunda beingreiðslur úr ríkissjóði. Til að einhver hagnaðarvon væri í greininni þyrfti að stækka búin verulega, fjárfesta í tækjum og búnaði og þannig ná fram hagkvæmni stærðarinnar. Vilja menn fara þá leið eða halda áfram leið tómstundabænda og beingreiðslna?

Fjárfestingar kalla á stækkun

Sama má segja um mjólkurbúskapinn. Mjólkurbú landsins hafa löngum verið of lítil og smá til að skila mikilli arðsemi. Segja má að ný tækni hafi þar knúið búin til að stækka þar sem kostnaður við mjólkurþjóna (róbóta) og aðra þjarka í greininni er verulegur. Er nú svo komið að menn sjá að einingar sem eru að minnsta kosti tvisvar til þrisvar sinnum stærri en gömlu fjölskyldubúin eru einu einingarnar sem geta rekið sig. Jafnvel þurfa búin að stækka enn meira, helst að framleiða vel yfir eina milljón mjólkurlítra á ári til að geta skilað eigendum sinni arði og tekjur upp í fjárfestingar. Ef þessi leið verður farin er þess ekki langs að bíða að íslenskur landbúnaður verði aðeins rekin af stórbúum. Minnumst þess að það er ekki langt síðan sauðfjárrækt og mjólkurbúskapur voru kvótasett. Kvótin var framseljanlegur (og erfanlegur) þannig að hægt var að leita hagræðingar vildu menn fara út úr greininni.

Þegar rekstur þeirra sem rækta hvítt kjöt, svín og kjúklinga, er skoðaður sést að búin verða alltaf að verða stærri og stærri. Það er eina leiðin til þess að geta látið neytendum í té hagkvæma vöru þegar þeir óska eftir henni. Svipuð sjónarmið gilda í grænmetisræktun. Þegar grannt er skoðað er allur þessi búskapur að leita hagkvæmni stærðarinnar, að hluta til með tilstyrk ríkisvaldsins en háar greiðslur renna til landbúnaðar á hverju ári. Íslenskar landbúnaðarvörur eru hreinar og góðar en við getum ekki sagt að neytendur njóti hagkvæmni stærðarinnar nema að takmörkuðu leyti meðal annars af því að við höfum haft skilning á því að landbúnaður hér á Íslandi getur ekki verið samkeppnishæfur við stórbúskap umheimsins. En önnur lögmál gilda í sjávarútvegi, þar erum við einmitt að reyna að keppa við umheiminn með okkar góðu vörur.fiskur

Stærð og hakvæmni í sjávarútvegi

Flestir þeir stjórnmálaflokkar sem vilja breyta rekstri landbúnaðar, til þess að neytendur geti notið lægra matvælaverðs, fordæma stærðarhagkvæmni sem hefur orðið til af sjálfu sér í sjávarútvegi. Þegar ég segi sjálfu sér, þá er verið að vísa til þess að sjávarútvegurinn nýtur engra styrkja, þvert á móti þarf hann einn atvinnugreina að greiða há gjöld til samfélagsins í formi auðlindaskatts og annarra tilfallandi gjalda.

Vissulega eru forsendur að sumu leyti ólíkar í sjávarútvegi. Þar hefur orðið að takmarka aðgengi að fiskimiðum landsins til að vernda hina náttúrulegu auðlind. Til þess að ná þessu fram var sett upp aflamarkskerfi (kvóti) og síðan má segja að stöðugt hafi verið unnið að lagaumbótum til að auka og bæta skilvirkni íslensks sjávarútvegs. Löggjafinn hefur samþykkt þetta á öllum stigum enda vita menn innst inni að án hagkvæmni í sjávarútvegi munu almennileg lífskjör ekki þrífast á Íslandi. En nú bregður svo við að það er barist gegn samþættingu og hagræðingu stærðarinnar í sjávarútvegi, sem meðal annars er knúin áfram að mikilli fjárfestingaþörf sem gerir það að verkum að hvergi er meiri framleiðni hér á landi en einmitt í sjávarútvegi. Allt í einu vilja menn hverfa aftur í tíma þegar litlir og hættulegir bátar stunduðu útgerð og reglulega varð að rétta stöðu hans af með gengisfellingum eða sértækum aðgerðum. Undir þessum skoðunum er róið með margvíslegum fullyrðingum sem fá ekki staðist. Það er því brýnt að skoða þessa sögu alla í samhengi áður en menn steypa undan sjálfum sér og spilla samkeppnisstöðu sjávarútvegsins.