c

Pistlar:

1. júní 2020 kl. 18:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nýting íslensks sjávarútvegs sú besta?

Einn mikilsverðasti vitnisburður um ágæti íslenska kvótakerfisins er virðing fyrir hráefninu. Segja má að það sé ein helsta skýring þess að við höfum stöðugt náð meiri verðmætum út úr þeim fiski sem við veiðum enda nauðsynlegt til þess að standa undir auknum kröfum um framlegð og nýtingu hráefnisins. Þessi nýting birtist í fiskvinnslu landsins, hvort sem hún fer fram úti á sjó eða í landi en nýjum fjárfestingum er ætlað að tryggja betri meðhöndlun hráefnisins og aukinni verðmætasköpun. Við erum komin ansi langt frá því sem var þegar faðir minn stundaði sjósókn frá Vestmannaeyjum í lok sjötta áratugarins og fiskurinn ónýttist oftar en ekki í höndum sjómanna vegna ónógs undirbúnings og frumstæðra vinnubragða. Aðeins hluti fisksins var nýttur. Þekking og kunnátta var bara ekki meiri á þessum tíma en sem betur fer hefur orðið breyting á. Í dag stöndum við Íslendingar hvað fremst í heiminum við að nýta það sem upp úr sjónum kemur.fisksala

Nýta 80% af hvítfiski

Í þessu sambandi er athyglisvert að sjá samantekt Íslenska sjávarklasans frá því fyrr á árinu en klasinn hefur lagt sig eftir að benda á mikilvægi bættrar nýtingu. Í samantektinni kemur fram að alls eru um fjörtíu fyrirtæki í landinu sem vinna verðmæti úr hliðarafurðum sjávarafurða. Mætti kalla þau fullnýtingarfélög en þessi félög eru utan hins hefðbundna sjávarútvegs. Í niðurstöðu klasans kemur fram að svo virðist sem engin önnur þjóð í okkar heimshluta komast nálægt Íslandi í sérhæfingu á þessu sviði, fjölda fyrirtækja og hlutfalli nýtingar á fiski.

Fullvinnsla hliðarafurða er skilgreind af sérfræðingum Sjávarklasans sem nýting á öllum pörtum fisksins öðrum en fiskflakinu. Réttilega er bent á að það sé ekkert sem kalli á að flakið sé skilgreint sem aðalafurð og aðrir hlutar sem hliðarafurðir þó svo hafi verið til þessa. Eina haldbæra ástæðan fyrir því að nefna nýtingu annarra hluta fisksins hliðarafurðir er að enn í dag er þessum afurðum hent í flestum löndum. Þótt nýting fisks hér á landi sé mun betri en í öðrum löndum má enn auka hlutfall hliðarafurða sem eru nýttar hérlendis segir í niðurstöðu klasans. Samkvæmt athugunum Sjávarklasans nýta Íslendingar um 80% af hverjum hvítfiski en sambærilegar tölur fyrir nágrannalönd okkar benda til þess að nýting í þeim löndum sé um 45-55%. Munurinn er sláandi en þarna er um veruleg verðmæti að ræða. Því miður fara þau í súginn hjá öðrum þjóðum.

Kortlagning fyrirtækja sem nýta hliðarafurðir

Um nokkurt skeið hefur Sjávarklasinn unnið að öflun gagna um fyrirtæki sem vinna með hliðarafurðir. Samkvæmt athugunum klasans eru þau fyrirtæki, sem klasinn hefur aflað sér upplýsinga um á fimmta tug talsins. Í könnuninni var haft samband við stóran hluta þessara fyrirtækja og aflað almennra upplýsinga, meðal annars um veltu þeirra og áætlanir.

Um leið var horft til útflutningstalna Hagstofu Íslands. Þar kemur fram að velta í lýsisframleiðslu nam röskum 11,2 milljörðum króna á árinu 2018. Velta í sölu þurrkaðra eða frystra hausa var tæpir 4,7 milljarðar og í lifrarvinnslu tæplega 3,7 milljarðar. Velta í hrognaframleiðslu var rösklega 1,2 milljarðar. Útflutningur á marningi og fiskafskurði nam um 1,6 milljörðum. Þau fyrirtæki, sem sinna bróðurparti niðursuðu á lifur, lýsisframleiðslu, þurrkun og hrognavinnslu eru tæplega 20 talsins. Þessi fyrirtæki velta tæplega 21 milljarði króna. Mörg þessi fyrirtæki eiga sér langa sögu og hafa fest sig í sessi á alþjóðlegum mörkuðum og nýta styrkleika íslenska sjávarútvegsins.