c

Pistlar:

3. júní 2020 kl. 15:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Faraldurinn og efnahagurinn

Það eru ekki nema þrír mánuðir liðnir síðan yfir okkur dundi faraldur sem líklega ætlar að hafa einhverjar mestu efnahagslegu afleiðingar sem við sem sjálfstæð þjóð höfum fengið að kynnast. Allt kom þetta okkur og heimsbyggðinni á óvart og meira að segja höfundar vísindaskáldskapar voru teknir í bólinu. Það má gjarnan rifja upp að í öllum þeim vísindahryllum og -tryllum sem pistlahöfundur hefur séð og tengjast veirusýkingum á heimsvísu þá voru þessar afleiðingar ekki beinlínis uppi á borðinu. Yfirleitt gekk þessi vísindaskáldskapur út á að við myndum öll deyja, oft á hræðilegan hátt, breytast jafnvel í uppvakninga og fullkomin upplausn leggjast yfir samfélagið í framhaldinu. Satt best að segja virðist hafa ríkt nokkuð mikil sátt um það meðal handritshöfunda að svona yrði þetta. En að afleiðingarnar yrðu þær að flest lifðum við en yrðum þess í stað blönk eða gjaldþrota var ekki endilega sú sviðsmynd sem vísindaskáldskapurinn bauð uppá. En og aftur sannast að veruleikinn tekur skáldskapnum fram! En fyrir vikið þurfum við að takast á við margvísleg úrlausnaefni sem lúta að efnahagnum og samfélaginu, bæði í stærri og smærri myndinni.efnahagure

Aðgerðir og sveiflujöfnun

Í smærri myndinni eru fyrirtæki landsins einfaldlega að glíma við gríðarlegan eftirspurnarskort og hafa því gripið til mikilla uppsagna og spár gera nú ráð fyrir að atvinnuleysi á landinu verði um 18% næsta haust. Hópuppsagnir dynja á Vinnumálastofnun fyrir hver mánaðamót og stofnunin verður að taka sér aukafrest til að greiða út bætur. Seðlabankinn gerir ráð fyrir ríflega 7% samdrætti í landsframleiðslu sem er vel undir spám annarra en þó nálægt því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir. Þrátt fyrir tilfallandi aðgerðir sem ýmist var ætlað að halda fólki í launþegasambandi (hlutabótaleiðin) eða tryggja fólki laun á uppsagnartíma þá er rekstrarstaða margra fyrirtækja í mikilli óvissu. Gera má ráð fyrir hrinu gjaldþrota næstu vikur og mánuði. Bankakerfið þarf væntanlega að ráðast í endurskipulagningu á fjölda fyrirtækja eða hvað eiga bankar að gera við tóm hótel um land allt?

En í stærri myndinni eru mörg álitaefni. Forráðamenn ríkisstjórnarinnar hafa ákveðið að beita ríkissjóði sem sveiflujöfnunartæki og höfðu á orði í upphafi að betra væri að gera of mikið en of lítið. Allt er þetta umdeilanlegt og líklega hefur skort nokkuð á að ríkisstjórnin hafi myndað sér plan eða í það minnsta útskýrt fyrir landsmönnum hvernig hún sjái fyrir sér hlutina. En virðast ráðherrar ríkisstjórnarinnar vera að fást við smærri myndina og takast á við verkefni svona jafnóðum og þau detta inn á borð þeirra. Fjöldi aðgerðarpakka sýndi þetta glögglega. Er hægt að fara fram á heildstæðari eða viðameiri lausn á þessu stigi? Mætti útskýra betur hvað við er að eiga og hvaða framtíðarsýn stjórnvöld styðjast við.

Meiri kynningar á aðgerðum

Í því ljósi var athyglisvert að hlusta á Gylfa Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Þar kom fram að hann telur að íslensk stjórnvöld ættu að koma sér upp hópi óháðra sérfræðinga til að meta efnahagslegar afleiðingar aðgerða í kórónuveirufaraldrinum. Gylfi sagði einnig að kynna mætti efnahagsaðgerðirnar betur og undir það er tekið hér.

„Í sumum af þessum löndum, eins og í Noregi til dæmis, er starfandi svona hópur, stór hópur hagfræðinga, ég held þeir séu fyrir fjármálaráðuneytið, til þess að vega og meta allar þessar efnahagslegu afleiðingar af þessum aðgerðum,“ sagði Gylfi. Vissulega væri áhugavert að fá fleiri og skilmerkilegri greiningar á ástandinu og skýrari sýn á hvers er að vænta. Það gæti líkað hjálpað stjórnvöldum að taka ákvarðanir um opnun landsins sem er líklega mikilvægasta aðgerð stjórnvalda og virðist fyrst og fremst ígrundast af minnisblaði eins aðila.