c

Pistlar:

5. júní 2020 kl. 10:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fiskveiðiauðlind - í stöðugum vexti

Sjómannadagurinn er framundan og sem fyrr er ástæða til að fagna honum. Vaxandi og bætt nýting sjávarafurða og þar af leiðandi betri umgengni um auðlindina er einn afrakstur þess starfs sem unnið hefur verið innan fiskveiðistjórnunarkerfisins undanfarna áratugi. Hér hefur alloft verið vikið að betri nýtingu hráefnis innan sjávarútvegsins enda má segja að við stöndum fremstir þjóða á því sviði. Þannig hafa miklar framfarir átt sér stað í bættri meðferð sjávarafla á síðastliðnum 20-30 árum. Þar fara fremst fyrirtækin í sjávarútvegi en einnig hátæknifyrirtæki honum tengd, stjórnvöld, háskólarnir, Matís og fleiri. Allir þessir aðilar hafa lagt mikið kapp á að auka þekkingu allra þeirra sem að greininni koma varðandi meðferð þessa viðkvæma hráefnis sem sjómenn þjóðarinnar koma með að landi.

Ég vakti athygli á því í síðasta pistli að samkvæmt athugunum Sjávarklasans nýta Íslendingar um 80% af hverjum hvítfiski en sambærilegar tölur fyrir nágrannalönd okkar benda til þess að nýting í þeim löndum sé um 45-55%. Munurinn er sláandi en þarna er um veruleg verðmæti að ræða. Því miður fara þau í súginn hjá öðrum þjóðum.sjávarhumar

Ein saga af þessu. Nú miðvikudaginn 3. júní kom Bjarni Ólafsson AK með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar eins og sagt var frá í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Aflann fékk skipið í færeyskri lögsögu. Það heyrir varla til mikilla tíðinda að Bjarni Ólafsson komi að landi með góðan afla, en það sem er sögulegt við þessa veiðiferð var sú staðreynd að hún var sú síðasta hjá Gísla Runólfssyni skipstjóra. Gísli hefur verið skipstjóri í rúmlega 41 ár og þarna eru því tímamót. Fróðlegt er að lesa hverju Gísli svarar þegar hann er spurður um helstu breytingar sem hafa orðið á skipstjóraferli hans: „Það sem hefur einnig breyst er að áherslan er ekki lengur á magn þess sem veitt er heldur verðmæti. Í dag veiða uppsjávarskipin fyrst og fremst til manneldisvinnslu og þau eru útbúin til að koma með kældan afla að landi.“ Þarna talar sá er hefur reynsluna.

Helsta sérstaða Íslands

Fleiri tala á líkum nótum. „Ein helsta sérstaða Íslands er einmitt hversu vel okkur hefur tekist að skapa verðmæti úr auðlindunum og tengja þarfir erlendra markaða við veiðar og vinnslu. Matís hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að skapa þessa sérstöðu og unnið með atvinnulífinu að rannsóknum og þróun til að ná sem mestum verðmætum úr auðlindunum, til að mæta kröfum neytenda og auka sjálfbærni.“ Þannig komst Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, að orði í ávarpi sínu fyrir stuttu. Oddur Már benti á að á þessari vegferð hefði verðmætasköpun úr hliðarafurðum verið eitt mikilvægasta verkefnið og nefnir hann meðal annars til sögunnar þurrkun á hausum og hryggjum, nýtingu á lifur til niðursuðu eða í lýsisgerð, hrognum í mismunandi ídýfur og nú á síðustu árum að nýta roð í gelatín og kollagen.

Í skýrslu Sjávarklasans segir að fjöldi nýrra fyrirtækja hafi orðið til á undanförnum tíu árum og sem sinna margvíslegri áframvinnslu hliðarafurða. Skýrslan tiltekur sérstaklega um 20 fyrirtæki og rösklega helmingur þeirra hefur verið stofnaður á undanförnum tíu árum. Þau sem eru einna elst í þessum hópi eru m.a. Ensímtækni og Norður sem vinna ensím úr þorski og Primex sem vinnur prótín úr rækjuskel. Nýrri fyrirtæki eru til dæmis Kerecis, Genis, Ankra, Codland og Lipid svo einhver séu nefnd. Hér hefur oft verið fjallað um þau öflugu hátækni og nýsköpunarfyrirtæki sem tengjast sjávarútveginum.ferskf

Stöðugt að fjölga í hópi fullvinnslufyrirtækja

Skýrslan segir að þau nýju fyrirtæki, sem stofnsett hafa verið á síðustu árum eða áratug eiga það sameiginlegt að byggja á rannsóknum og þróun og skila þannig auknum verðmætum út úr hverju kílói af hliðarafurðum. Þar sem mörg þessara fyrirtækja eru enn á sprotastigi er útflutningur margra þeirra enn lítill. Gera má ráð fyrir að þessi 20 fyrirtæki velti samtals um 4 til 5 milljörðum króna. Hlutabréf í sumum þessara fyrirtækja, ekki síst þeirra sem hafa þróað verðmætustu afurðir úr hliðarafurðum, eins og til lækninga eða í snyrtivörur, eru þegar metin á margfalt hærra verð en sem nemur veltu þeirra segir í skýrslunni. Þarna er nýsköpun þjóðarinnar hvað virkust.

Á listanum er ekki meðtalin fyrirtæki sem nýta hliðarafurðir að óverulegu leyti í framleiðslu sinni. Sum þeirra nýta íslenskar hliðarafurðir í matvæla- eða gosdrykkjaframleiðslu, afskurð eða marning í matvælaframleiðslu og vökvi sem fellur til við blóðgun er nýttur í prótínvinnslu, svo eitthvað sé nefnt. Töluvert fleiri íslensk fyrirtæki eru því á einn eða annan hátt tengd áframvinnslu hliðarafurða.

Í skjóli öflugs íslensks sjávarútvegs hefur þannig orðið til þyrping fyrirtækja sem sinnt hafa því hlutverk að vinna úr hliðarafurðum úr sjávarútvegi. Nú er svo komið að Íslendingar geta hiklaust fullyrt að þjóðin er leiðandi í hagnýtingu aukaafurða úr fiski í heiminum. Sá árangur sem náðst hefur hingað til hefur ekki síst náðst með góðu samstarfi útgerðafyrirtækja, frumkvöðla og rannsóknastofnana.