c

Pistlar:

9. júní 2020 kl. 10:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjálfshjálparbækur í kjölfar niðurlægingarinnar

Það er stundum fróðlegt að grípa niður í atvinnusögu fyrri alda. Hér á Íslandi er hún fábreytt og einkennist af því hve einangrað og harðbýlt landið var áður en nútímasamgöngur komu því í tengsl við umheiminn. Það er stundum sársaukafullt að rifja hana upp. Við lýðveldisstofnunina 1944 var sett upp sögusýning í Menntaskólanum í Reykjavík. Eitt herbergi bar nafnið „Niðurlæging“. Það skyldi búið þannig, „að tímabilið, er það táknaði (um 1550-1787), væri þjóðinni ævarandi áminning um, hve djúpt sú þjóð sykki sem hætti að veita viðnám gegn kúguninni og léti bjóða sér allt.“ Í þessu herbergi var 18. öldin kynnt sem öld hungurdauðans á Íslandi. Í sögu Íslands (8. bindi) er bent á að í samræmi við þessa kynningu hafi áhersla verið lögð á að sýna áhrif drepsótta og náttúruhamfara á mannlíf í landinu. Pistlaskrifari gerði reyndar sögusýningu vegna 100 ára fullveldis að umræðuefni á þessum vettvangi en það mátti á sama hátt undrast þá söguskýringu sem þar birtist.

En þarna í MR var dregin upp dökk mynd af 18. öldinni sem hefur líklega greipst inn í huga flestra landsmanna. Auðvitað er hún of einhæf, þegar betur er rýnt í heimildir sést að á fyrri hluta aldarinnar var þokkalegt árferði þó að Skaftáreldar og Móðuharðindi hafi sett svip sinn á seinni hlutann. Margt breyttist þó til jákvæðari vegar og Jón Espólín skýrði til dæmis frá því í árbókum sínum að þekking almennings hafi aukist mikið á öldinni og hjátrú þorrið, almenningur sýnt meiri fyrirhyggju en áður (hvað sem í því fólst en kannski það sé ein afrakstur aukinnar þekkingar). Þá telur Jón að drykkjuskapur hafi minnkað og stórdeilur og átök manna á milli. Réttaröryggi hafi aukist sem er rétt þar sem áhrif Stóra dóms voru að minnka samfara því að það glitti í upplýsinguna og aukin skilning á réttindum fólks. Umbótahugmyndir utan og innan kirkjunnar höfðu áhrif. Jón bendir einnig á að mismunandi réttur fólks eftir þjóðfélagsstöðu hafi minnkað. Jón var hins vegar ekki alltaf sáttur við þjóðfélagsbreytingar og sá ýmsa annmarka í aukinni lausung samfara auknum rétti. Það var stutt í hugsunina, „heimur versandi“ fer!benjamin

Boðberi upplýsingarinnar

Hér var fyrir skömmu vikið að hugmyndasögu 19. aldar í ljósi þess að þá komu fram rómantíkerar og skynsemihyggjumennirnir sem mótuðu frelsisbaráttu Íslands nútímans. Þá voru birtar hér vangaveltur um hvað menn lásu og hvaðan hugmyndirnar komu, meðal annars með vísun í inngang Sigurðar Líndals, lagaprófessors, að bók Max Webers, Mennt og máttur, sem Hið Íslenska bókmenntafélag gaf út. Sumt af þeim bókum sem 19. aldar menn lásu fellur undir það að vera sjálfshjálparbækur þess tíma og er merkilegt að skoða. Þannig er fróðlegt að sjá þann mikla áhuga sem Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri og alþingismaður og einn helsti framfarasinni aldamótamannanna fyrir og eftir 1900, hafði á ritum Benjamíns Franklíns sem var einn af „landsfeðrum“ Bandaríkjanna og einn helsti boðberi upplýsingarinnar í Vesturheimi. Hugsanlega má velta meira fyrir sér áhrifum Benjamíns Franklíns á íslenskan hugmyndaheim.


Smiles - maður tveggja alda

Einnig lásu menn sér til gagns rit skoska læknisins Samuels Smiles (1812-1904) en þau voru að sögn Sigurðar einhver almennasta lesning í Evrópu og Ameríku, en þau eru í líkum anda og rit Benjamíns Franklíns segir Sigurður. Tryggvi Gunnarsson lét þýða á íslensku eitt af ritum Smiles, Sparsemi, og kom það út árið 1885. Skyldleiki Smiles við Franklín sést á þessum ummælum hans við fátæka iðnaðarmenn:
„Ég reyndi til þess … að gjöra þeim það ljóst, að farsæld þeirra og vellíðun í lífinu síðar meir væri að miklu leyti komin undir þeim sjálfum, og að mest riði á, að þeir gætu jafnan haft virðingu og stjórn á sjálfum sér og hefðu stöðugar og nákvæmar gætur á hugsunum sínum, og umfram allt ræktu ávallt skyldur sínar, eins og góðum drengjum og kjarkmiklum sæmir.“

Síðar kom út annað rit Smiles, Hjálpaðu þér sjálfur, sem var síðan endurútgefið á vegum Æskunnar árið 1965. Áður höfðu kaflar úr því riti birst í alþýðulestrarbók séra Þórarins Böðvarssonar árið 1874. Sigurður Líndal bendir á þá athyglisverðu staðreynd að þegar hann er að rita formálann, sem birtist 1978, voru rit Smiles prentuð í miklum upplögum og lesin í mörgum þróunarlöndum. Telur hann að hugmyndir úr þeim hafi áhrif á ýmsa leiðtoga þeirra tíma, rétt eins og þær hafi haft áhrif á forvígismenn Íslendinga á 19. öld.tryggvi g

Tryggvi Gunnarsson er kannski þekktastur af mynd þar sem hann er að vökva garðinn við Alþingishúsið sem hann sjálfur bjó til. Hann hélt áfram útgáfustarfsemi í líkum anda og árið 1888 gaf Tryggvi út ritið Auðnuvegurinn eftir William Mathews og stóð fyrir að gefa aftur út ævisögu Franklíns árið 1910 með viðeigandi hvatningarorðum.

Dyggð ráðdeildarinnar

Árið áður en Sparsemi Smiles kom út á íslensku, birti varaforseti Þjóðvinafélagsins Eiríkur Briem ritgerð í Andvara, sem nefndist Um að safna fé. Er þar dyggð ráðdeildarinnar studd eindregnum nytsemissjónarmiðum. Sigurður Líndal segir að þar varpi Smiles fram þeirri ályktun að siðferðilega sé fé hlutlaust, en það ráðist hins vegar af frjálsum ákvörðunum hvers og eins hvort það verður til góðs eða ills. Lík sjónarmið munu hafa komið fram í Auðfræði séra Arnljóts Ólafssonar, sem kom út á vegum Bókmenntafélagsins árið 1880.

Sumar bækur úr þessum „sjálfshjálparbókum“ rötuðu ekki hingað heim fyrr en síðar eins og á við um bók Lysander Spooner (1808–1887) Löstur er ekki glæpur (Vices Are Not Crimes). Spooner var Bandaríkjamaður og róttækur frjálshyggjumaður og fannst taktur fyrir bækur hans hér á landi þegar stjórngleði fór vaxandi á kostnað einstaklingsfrelsis en það er önnur saga.