c

Pistlar:

11. júní 2020 kl. 22:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjávarútvegurinn: Þróun eða bylting?

Þegar staða sjávarútvegsins í dag er skoðuð blasir við að margt hefur áunnist og greinin er í dag þungamiðjan í útflutningsgreinum okkar landsmanna. Í kjölfar þess áfalls sem ferðaþjónustan hefir orðið fyrir hefur mikilvægi sjávarútvegsins margfaldast. Um leið er hægt að dáðst að aðlögunarhæfni og sveigjanleika þess kerfis sem við búum við í sjávarútvegi en það virðist ætla að standa af sér þetta áfall um leið og tvær loðnuvertíðir í röð hafa brugðist. Á sama tíma hafa engir fjármunir runnið til styrktar eða aðstoðar sjávarútveginum, hann þarf að bjarga sér sjálfur.

Samt er það svo að dægurmálaumræðan er sjávarútveginum andsnúin. Slík umræða nánast endurtekur sig frá einni stund til annarrar og yfirleitt með sömu leikendum. Ekki verður séð að sagnfræðilegar staðreyndir eða hagfræðilegar upplýsingar trufli yfirlýsingar þeirra sem sem hæst láta. Frá árinu 1990 hefur verið í lögum heimild til framsals aflaheimilda. Frjálst framsal þeirra annars vegar og varanleiki og öryggi aflahlutdeilda hins vegar voru (og eru) talin forsenda þess að unnt væri að ná fram hagræðingu og aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Talið er að mikill meirihluti aflaheimilda hafi skipt um eigendur á þeim þrjátíu árum sem liðin eru frá því framsalið var lögfest. Samt er talað fyrir því að breyta þessu nánast með einu pennastriki.fiskur

Þróun en ekki bylting

En gæfa okkar Íslendinga er að við höfum leyft sjávarútveginum að þróast á eigin forsendum, þó með þá grunnhugsun að vernda auðlindina og tryggja sjálfbærni hennar. Þannig hefur sjávarútvegurinn tekist á við nauðsynlegar tæknibreytingar og kröfur um hagræðingu. Virðing fyrir hráefninu hefur aukist jafnt og þétt og nú er áherslan á nýtingu, vöruvöndun, ferskleika, gæði og markaðsstarf. Vilja menn bylta þessu?

Hingað til hefur engin málsmetandi aðili treyst sér til þess. Horfum til þess að þegar á reynir fyrir hinu háa Alþingi, þegar verður að taka ákvarðanir sem skipta máli og verða að standast, þá hníga öll rök að framseljanlegu kvótakerfi. Um 70 breytingar á kerfinu í gegnum tíðina, með aðkomu allra stjórnmálaflokka segja þessa sögu. Það treystir sér ekkert ábyrgt stjórnmálaafl eða stjórnmálamenn að ganga gegn hagrænni og vistfræðilegri uppbyggingu kerfisins, það er einfaldlega of mikið í húfi og popúlistar hafa ekki náð að breyta því ennþá.

Auðvitað er undarleg sú árátta að kenna kvótakerfinu um allt sem aflaga fer í þjóðfélaginu. Kvótakerfið var sett upp til að bæta hag allra landsmanna og tryggja framtíð fiskveiða sem helstu undirstöðu efnahags landsins gegn ofveiði. Nákvæmlega þetta tókst.