c

Pistlar:

14. júní 2020 kl. 16:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lífeyrissparnaður einn sá mesti innan OECD

Við Íslendingar fórum þá leið að reka söfnunarsjóðkerfi í kringum lífeyrissjóði okkar en ekki gegnumstreymiskerfi og samkvæmt gögnum OECD nemur lífeyrissparnaður á vegum íslenskra lífeyrissjóða, samtryggingar og séreignar, um 167% af vergri landsframleiðslu (VLF). Það styttist í að við eigum tvöfalda landsframleiðslu í formi lífeyrissparnaðar. Svona fljótt á litið gæti það virkað skynsamlegri leið en gegnumstreymisleiðin en söfnunarsjóðir einfalda ekki málin þar sem ávöxtun þeirra verður höfuðvandamál kerfisins. Þar þarf að hyggja að mörgu eins og þátttöku þeirra í þjóðhagslega mikilvægum verkefnum. Ísland er eitt af þeim löndum þar sem flestir eiga lífeyrissparnað eða um 88% einstaklinga en einungis í helmingi landanna í skýrslunni nær hlutfallið yfir 70%.lif

Fyrir stuttu birti Efnahags og framfarastofnunin (OECD) bráðbirgðatölur um helstu kennitölur lífeyrissparnaðar innan aðildarlanda sinna og valinna landa utan samtakanna. Þá kom í ljós að eignir lífeyrissjóða eru taldar hafa numið um 32 trilljónum Bandaríkjadala við árslok 2019.

Eftir lækkanir seinni hluta árs 2018 hækkuðu eignir lífeyrissjóða innan OECD landa að meðaltali um 13,2% og um 11,3% meðal landa utan samtakanna árið 2019. Aðeins í einu landi, Póllandi, lækkuðu eignir sjóðanna og má rekja það til kerfisbreytinga á lífeyrismarkaði þar í landi.

Einn sá mesti

Að meðtöldum sparnaði á vegum innlendra og erlendra vörsluaðila séreignasparnaðar nemur heildarsparnaður hér á landi um 177% af VLF eins og kemur fram í frétt Seðlabankans. Þar er vakin athygli á því að sem áður er lífeyrissparnaður hér á landi einhver sá mesti innan OECD landa á eftir Danmörku og Hollandi. Lífeyrissparnaður í sumum löndum er ekki aðeins bundinn við lífeyrissjóði heldur er hann geymdur með öðrum hætti eins og í tryggingafurðum á vegum tryggingafélaga, lífeyrisskuldbindingum vinnuveitenda og séreignarsparnaði á vegum banka og verðbréfasjóða. Af þeim sökum er oft erfitt að fá heildarmynd af lífeyrissparnaði þar sem upplýsingagjöfin er ekki með jafn skipulegum og gegnsæjum hætti og hjá lífeyrissjóðum.

Ávöxtun var með mesta móti meðal OECD landa árið 2019 og jákvæð í nærri öllum löndum. Samkvæmt samræmdum útreikningum OECD var raunávöxtun hæst í Litháen eða 16,6%. Raunávöxtun meðal íslenskra lífeyrissjóða nam 11,6% og var með því hæsta samanborið við þau lönd sem tölur samtakanna ná til.liftafla

Ef litið er á samsetningu eigna lífeyrissjóða er stærstur hluti eigna í skuldabréfum og hlutabréfum. Samsetning eigna íslenskra lífeyrissjóða er með líkum hætti og í okkar helstu samanburðalöndum þegar horft hefur verið í gegnum eignir í verðbréfasjóðum sem að stærstum hluta eru í hlutabréfum segir í samantekt Seðlabankans.

En þróunin mun setja áskoranir á lífeyriskerfið. Í ársbyrjun 2020 voru 5,3 Íslendingar á vinnualdri fyrir hvern mann á eftirlaunaaldri. Árið 2060 verða þeir einungis 2,5 ef mannfjöldaspá Hagstofunnar gengur eftir.