c

Pistlar:

18. júní 2020 kl. 18:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fullveldið og lúxushorn heimsins

Það var vel til fundið Jóni G. Haukssyni ritstjóra að fá Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta, til liðs við sig í þætti sínum á Hringbraut sem sendur var út að kvöldi dags, þjóðhátíðardaginn 17. júní. Ólafur Ragnar hefur næman skilning á mikilvægi fullveldisins og því að við Íslendingar getum ráðið málum okkar sjálfir. Þó eru sjálfsagt ekki til meiri alþjóðasinnar en Ólafur Ragnar eða menn sem hafa starfað meira á hinu alþjóðlega sviði. Það er því ástæða til að leggja við hlustir þegar hann ræðir fullveldið og sjálfstæðisbaráttuna.Ólafur Rag

Það var vel viðeigandi hjá forsetanum fyrrverandi að minna okkur á að það væru forréttindi að vera Íslendingur – þótt okkur finnist það nú ef til vill ekki í orðræðu dagsins – og að við búum í „lúxushorni heimsins“, eins og hann orðaði það. Það var fróðlegt að hlusta á þá Jón G. og Ólafur ræða um nokkra hornsteina í efnahagssögu lýðveldisins. Það sem hefur reynst vera undirstaðan í hagvexti og efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Vitaskuld má alltaf deila um sjónarhorn og sýn en stundum má líka andhæfa ruglinu sem yfir okkur dynur daglega. Hér hefur áður verið bent á þá furðulegu sýn á fullveldið sem birtist í sýningu sem haldin var í tilefni 100 ára afmælis fullveldisins 1. desember 2018. Það var auðvitað til marks um umræðuþjónkunina að engin reyndi að andhæfa því þó hér hafi verið gerð tilraun til að benda á að horfa mætti á hlutina með öðrum augum.

Fullveldi og friðsemd

Höfum í huga að nýlega var greint frá því að Ísland er friðsamasta land heims 13. árið í röð sem er auðvitað fagnaðarefni. Slíkt er ekki eins sjálfgefið og margir halda og þegar svona listar birtast eru Norðurlöndin gjarnan á lista með Íslandi í efstu sætum. Svo er ekki lengur en Danmörk er í 5. sæti, Finnland í 14. sæti, Svíþjóð í 15. sæti og Noregur í 18. sæti. Þess má geta að þegar Noregur hrundi niður í 11. sæti 2013 var Anders Breivik sagður eiga mestan þátt í því. En nú virðist það staðreynd að þessi fyrrum friðsömustu lönd heims (ásamt Íslandi) eru það ekki lengur hvað sem veldur en sjálfsagt er viðkvæmt að ræða þessa þróun gagnvart þeim sem hafa tekið sér orðræðuvaldið í landinu nú um stundir. Við getum þó glaðst yfir að Evrópa er enn friðsamasta svæði heims og Norður-Ameríka þar næst á eftir. Fjölmörg önnur dæmi má taka og Ólafur Ragnar hefur verið duglegur að minna á þau verðmæti sem við höfum í íslensku samfélagi og oft hefur verið vikið að hér í pistlum.

Nýfundnaland og gjaldþrot

En víkjum aftur að fullveldinu. Ólafur Ragnar segir í Hringbrautarviðtalinu að farið hefði fyrir Íslandi eins og Nýfundnalandi og landið orðið gjaldþrota ef ekki hefði tekist að færa landhelgina í áföngum út í 200 mílur og fá yfirráð yfir landhelginni og fiskimiðunum. Um það segir hann:
„Ég hef kallað útfærslu landhelginnar og þann sigur sem þar vannst í þremur þorskastríðum við Breta; raunar þessa sögu alla, sjálfstæðisbaráttuna síðari. Ef okkur hefði ekki tekist að færa landhelgina út og fá yfirráð yfir fiskimiðunum hefðum við ekki getað þróað nútímasamfélag á Íslandi. Þetta er mikið sagt; en ef við hefðum ekki náð þessum yfirráðum er mjög líklegt að fyrir Íslandi hefði farið eins og Nýfundnalandi og landið orðið gjaldþrota.“

Þorskastríðin voru hluti af sjálfstæðisbaráttunni

Þarna bendir Ólafur Ragnar á mikilsverðan hlut. Það er eitt að fá pólitískt sjálfstæði og fullveldi. Annað að vernda það og styðja. Þorskastríðin voru hluti af sjálfstæðisbaráttunni. Fyrst tryggðum við pólitískt sjálfstæði og síðan í krafti þess efnahagslegt sjálfstæði okkar. Við hefðum seint tryggt yfirráð okkar yfir miðunum án fullveldisins. Það var ástæða fyrir því að stórar þjóðir reyndu að stöðva okkur í því. Fullveldið var okkar aðalvopn. Allt í krafti þess að valdið til þess er hér innanlands en ekki erlendis. Aðrir hornsteinar sem Ólafur Ragnar nefnir til að efnahagslegu sjálfstæði eru flug og orkugeirinn. Á báðum þeim sviðum nutum við fullveldisins þegar við settum reglur og umgjörð sem hentaði þeirri atvinnustarfsemi. En þetta var mest áberandi í þorskastríðunum.

Ólafur segir enn fremur í viðtalinu:

„Þegar Ólafur Thors mælti fyrir útfærslu landhelginnar í 4 mílur árið 1952 sagði hann réttilega að annaðhvort tækist þetta eða lýðveldinu væri stefnt í alvarlega hættu. Því að þegar Ísland varð lýðveldi 17. júní 1944 var það í fyrsta skipti í sögunni sem svo fámenn þjóð varð sjálfstætt ríki. Flestir sérfræðingar á þessum tíma töldu að stofnun lýðveldisins væri nánast vonlaust dæmi; bæði pólitískt og efnahagslega, að svo fámennt samfélag, sem þar að auki byggi í mjög stóru og harðbýlu landi, myndi vart hafa það af sem sjálfstætt ríki. En núna 76 árum síðar erum við í fremstu röð í veröldinni á nánast öllum alþjóðlegum mælikvörðum sem notaðir eru yfir velmegun og lífskjör.“

Það er þarft verk hjá Ólafi Ragnari að minna okkur á þetta.