c

Pistlar:

22. júní 2020 kl. 14:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nýsköpun: Áhættufé og erlent fjármagn

Því er haldið fram að öll stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna í dag hafi orðið til um í kjölfar netbólunnar sem sprakk með nokkrum látum um aldamótin 2000. Eldri eru þessi fyrirtæki ekki, Facebook er stofnað 2004 og talsvert skemmra er síðan Elon Musk hóf sinn fyrirtækjarekstur sinn. Amazon var stofnað 1994 en þá fyrst og fremst um bóksölu á netinu en síðan hefur félagið þróað fyrirtækjarekstur þannig að það selur nánast hvað sem er og áfram fer salan í gegnum netið. Þeirra forskot var að læra og treysta á netið um leið og það var að ryðja sér til rúms. Kínverjar komu seinna inn á þennan markað en fyrirtæki þeirra eru ekkert síðri að stærð og á sumum sviðum virðast þeir vera að ná forskoti, svo sem í þróun gervigreindar.

En nýsköpun skapar forskot og það hefur löngum verið drifkraftur hins bandaríska hagkerfis hve vel og rækilega það ýtir undir nýsköpun. Að hluta til skýrist það af því að hvergi hefir verið auðveldara að sækja sér áhættufé en um leið er hvergi erfiðara að halda í þetta áhættufé. Við Íslendingar þekkjum sem betur fer mörg dæmi nýsköpunar í okkar atvinnulífi og það þarf ekki alltaf að leita langt fyrir skammt. En við horfum gjarnan til fyrirtækja eins og Össur og Marel sem hafa sannarlega sýnt hvaða leið er hægt að fara.nýsköpun

Nú hafa Samtök iðnaðarins blásið til sóknar á þessu sviði og í síðustu viku kom út athyglisvert tímarit sem ætlað er að auka mönnum kjarki. Þar segir formaður SI að við séum að lifa „vor íslenskrar nýsköpunar“. Það er erfitt að meta hvort það sé tilfellið en athyglisverð er sú tilraun formannsins að líta um öxl og kanna hverju við höfum áorkað í þessum efnum en við höfum sjálfsagt oft trúað því að vor sé í vændum á þessu sviði.

Flókið styrkja- og skattakerfi

Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins, Deloitte og Nýsköpunarsjóðs, Umhverfi til nýsköpunar á Íslandi, sem kom út í maí 2001, var leitast við að draga fram drifkrafta nýsköpunar og hindranir sem stæðu henni fyrir þrifum á þeim tímapunkti. Forvitnilegt er að skoða þá umfjöllun en um það segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins í grein sinni:

„Þar er réttilega bent á þá staðreynd sem er enn góð og gild að hindranir í umhverfi til nýsköpunar dragi ekki úr framkvæmdum frumkvöðla heldur sói krafti þeirra í verðmætalitla vinnu. Í skýrslunni er bent á fjölmarga veikleika í þáverandi nýsköpunarumhverfi hérlendis – aðgengi að fjármagni var takmarkað og sömuleiðis dýrara en þekktist erlendis, styrkjakerfi var flókið, arðsemiskröfur fjárfesta voru háar, flókið skattkerfi sem byggðist meðal annars á úreltu formi skattlagningar, stefnuleysi stjórnvalda og almennt takmarkaðra hvata.“

Árni segir ennfremur að ljóst sé að margt hefur breyst til batnaðar á síðustu tuttugu árum í starfsumhverfi nýsköpunar á Íslandi og tilgreinir hann ekki síst þær mikilvægu breytingar sem nú hafa nýlega verið lögfestar. Hann telur viðhorfsbreytinguna áþreifanlega og almennur stuðningur sé við aðgerðir í nýsköpunarmálum.

Vantar fjármögnun?

En formaðurinn bendir á að kannski sé björninn ekki unnin. Í upphafi þessa árs hafi birst niðurstöður viðamikillar könnunar á vegum Northstack, Gallup og Tækniþróunarsjóðs um umhverfi nýsköpunar á Íslandi. Þrátt fyrir að þátttakendur, sem komu að miklum meirihluta úr litlum nýsköpunarfyrirtækjum, væru almennt jákvæðir gagnvart framtíð nýsköpunar á Íslandi taldi meirihluti svarenda að Ísland væri ekki góður staður fyrir fyrirtæki í örum vexti eða alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki. Einkum töldu svarendur að fjármögnunarkerfið stæði nýsköpunarfyrirtækjum fyrir þrifum því erfitt væri að fjármagna fyrirtækin, hvort heldur með aðkomu innlendra eða erlendra fjárfesta, og að bankaþjónusta sem í boði er á Íslandi henti illa eða mjög illa fyrir nýsköpunarfyrirtæki.

Þetta eru athyglisverðar niðurstöður. Því miður virðast nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi ekki hafa aðgang að fjármagni, hið áhættusækna fjármagn sem er að finna í svo ríkum mæli í Bandaríkjunum er ekki að finna hér. Er það kannski vegna þess að skattaumhverfi er óhagstætt. Þá er kerfið of flókið. Svo aftur sé tekið dæmi af Bandaríkjunum þá er gríðarlega sterk pólitísk viðleitni til að einfalda og gera regluverkið skilvirkt þar. Þeir sem leggja sig eftir að skilja tilvist Trumps sjá að það er að hluta til það sem hann er að boða enda hefur hann lagt sig eftir að einfalda regluverk atvinnulífsins. Nei, ekki til að auðvelda mengunarsóðum lífið, eins og sumir segja - heldur til að skapa ný störf.

Hvernig sjá erlendir fjárfestar Ísland?

Erlent áhættufé hefur löngum skort hér á landi og það hefur yfirleitt tengst stórum verksmiðjum, sem reistar eru með sérstökum fjárfestingasamningum. Þörf er á fjölbreyttari hópi fjárfesta og það er gleðilegt að margir sjá tækifæri í Íslandi. Ekki er langt síðan Fréttablaðið var með umfjöllun um bandarískan fjárfesti sem hafði komið að yfir 3,5 milljarða dala fjárfestingum í framtaks- og vísisjóðum. Tilefnið var að hann hugðist setja á fót bandarískan sjóð sem mun fjárfesta í slíkum sjóðum hér á landi. Ekki hafa verið frekari fréttir af þeim áformum en í aðdraganda fréttarinnar hafði hann fundað með fulltrúum allra vísisjóða landsins. Umræddur fjárfestir, J. Heath Cardie, upplýsir um áform sín í umsögn sem hann skrifaði í mars síðastliðnum um drög að frumvarpi um stofnun Kríu, sérstaks sjóðs í eigu ríkisins sem er ætlað að fjárfesta í öðrum sérhæfðum sjóðum sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þar segir hann:

„Ég hef trú á því að Ísland hafi allt sem er nauðsynlegt til að ná að byggja upp sprota- og nýsköpunarumhverfi á heimsmælikvarða ef Ísland nær að búa til enn betra aðgengi að vísifjármagni,“ skrifar Cardie, sem er búsettur hér á landi, í umsögn sinni í samráðsgátt stjórnvalda. Sannarlega forvitnilegt að lesa.