c

Pistlar:

26. júní 2020 kl. 11:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hið risavaxna Borgarlínuverkefni

Þegar einstaklingar taka ákvarðanir sem augljóslega munu hafa mótandi áhrif á líf þeirra í framtíðinni er eðlilegt að þeir stoppi við og endurmeti og endurskilgreini þarfir sínar og íhugi næstu skerf. Þetta á líka að felast í opinberri stefnumótun og öll ákvarðanataka á að taka mið af þessu. Er framkvæmdin til hagsbóta fyrir almenning og bætir hún lífsgæði borgaranna, er fjármununum sem í hana er fara betur varið en ef þeir væru settir í aðrar framkvæmdir til að ná fram sömu niðurstöðu? Þetta eru auðvitað lykilspurningar. Það er óhjákvæmilegt að slíkar hugsanir leiti á marga nú þegar verið er að taka stefnumarkandi ákvörðun um framhald Borgarlínuverkefnisins sem talsvert hefur verið fjallað um í pistlum hér. Augljóslega er verkefnið risavaxið og stefnumarkandi í samgöngumálum framtíðarinnar hér á höfuðborgarsvæðinu.borgarlína

Engum dylst að Borgarlínuverkefnið krefst þess að íbúar höfuðborgarsvæðisins breyti lífsháttum sínum verulega hvort sem þeir vilja eða ekki. Eins og málið lítur út í dag er verið að selja íbúum á höfuðborgarsvæðinu ferðamáta sem níu af hverjum tíu borgarbúa munu ekki nota og það fyrir óheyrilegan kostnað.

Óheiðarleg vinnubrögð

Það sem vekur flestum tortrygginni er sú staðreynd að borgaryfirvöld í Reykjavík hafa beitt heldur óheiðarlegum vinnubrögðum í þeim tilgangi að vinna hugmyndinni brautargengi - að því er virðist í flokkspólitískum tilgangi. Hvað á ég við með því? Jú, hér er verið að vísa í hina augljósu andstöðu við einkabílinn sem hefur undanfarinn áratug skapað stöðugt meiri þrengingar og óþægindi fyrir þá sem kjósa að nota hann eins og vikið var að áðan. Þannig má segja að borgin hafi nánast ekkert gert til að bæta umferðarflæði eða tryggja akandi umferð nauðsynlegt pláss. Augljóst er af gögnum málsins að til að ná upp viðskiptum við Borgarlínu þarf að tefja aðra umferð og fækka bílastæðum í borginni þannig að hver einkabíll sé um umtalsvert lengur í akstri í hverri ferð vegna umferðatafa og bílastæðaleitar. Augljóslega hefur þetta neikvæð áhrif á loftslag í borginni.

Jafnt og þétt hefur verið gengið á rými fyrir umferðargötur, bílastæði tekin undir aðra starfsemi og þrengt að flæði umferðar á allan hátt, til viðbótar við takmarkandi ljósastýringu og lækkun á hraða. Þetta hefur ekkert með rétt fólks til að velja sér aðra samgöngumáta að gera. Það er sjálfsagt að bæta hjólreiðastíga og styrkja starfsemi almenningssamgangna en að vinna með þessum hætti gegn einkabílnum eru ekki heiðarleg vinnubrögð. Það er einnig hálf dapurt að verða vitni að þeim hroka sem birtist í umræðunni af hálfu andstæðinga einkabílsins. Það virðist lítill skilningur á því að margt fólk notar þennan samgöngumáta af því að það á ekki annars úrkosta og kýs þessa lausn af persónulegum ástæðum. Nóg hefur það svo sem greitt til samfélagsins í gegnum kaup og rekstur á bílnum.

Vanmeta breytingar

Annað sem vert er að hafa í huga á þessum tímamótum eru þær miklu breytingar sem eru að verða í samgöngumálum. Við sjáum það bara nú í sumar að lítil rafmagnsknúin hlaupahjól bjóða upp á mikla möguleika og þau einkafyrirtæki sem reka þessa starfsemi virðast útsjónarsöm og vakandi fyrir því að þjónusta viðskiptavini sína. Þetta minnir á þá spá sem margir málsmetandi menn hafa sett fram um þróun lítilla rafmagnsknúinna tækja, sjálfakandi rafmagnsbíla og jafnvel flygilda sem geta flutt fólk á skilvirkan og hagkvæman hátt. Nú munu vera gerðar tilraunir með sjálfkeyrandi bíla í tæplega 90 borgum á heimsvísu og þær tilraunir gefa góða raun. Með aðstoð gervigreindar og þessarar nýju tækni má sjá fyrir sér miklu betri nýtingu á hverju og einu faratæki og um leið umferðarmannvirkjum. Getur verið að innleiðing slíkrar tækni verði komin á fullt um heim allan loksins þegar hið risavaxna Borgarlínuverkefni er að fara af stað hér á höfuðborgarsvæðinu?

Hér voru nefndir möguleikar flygilda en flestir af stærstu framleiðendum flugvéla og þyrluflugvéla hafa þegar náð miklum árangri við þróun slíkra véla og kunnugir fullyrða að innan ekki langs tíma geti þær haft afgerandi áhrif á innanlandsflug. Það sýnir hve óráðlegt er að ráðast í ótímabæra lokun Reykjavíkurflugvallar og byggja upp nýjan í Hvassahrauni. Því að verja hundruðum milljarða í slíkar breytingar þegar nýjar lausnir eru hugsanlega innan seilingar?

En aftur að Borgarlínunni. Inni á Facebook er áhugaverður umræðuvefur (Borgarlína - umræða) þar sem andstæðingar og stuðningsmenn Borgarlínu takast á. Stundum jafnvel með málefnalegum hætti. Þar má sjá tilraunir til þess að greina verkefnið niður í smæstu þætti, bæði kostnaðarlega og rekstrarlega í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Af lestri umræðunnar sést að málið er síður en svo fullrætt og ljóst að ef sannarlega er stefnt að því að bæta lífsgæði fólks á höfuðborgarsvæðinu og auðvelda því að komast á milli með skilvirkum og umhverfisvænum hætti er margt sem þarf að ræða. Best er að gera það áður en ráðist er í óafturkræfar og dýrar framkvæmdir.