c

Pistlar:

29. júní 2020 kl. 12:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Brot úr sögu sjómennsku og útgerðar

Það stundum ótrúlegt að skoða hvernig staðið var að fiskveiðum hér á árum áður. Pistlaskrifari gerir sér það oft að verkefni á ferðalögum innanlands að skoða hvernig útræði var háttað og reynir að gera sér í hugarlund hvernig verbúðalífi fyrri alda var í raun og veru. Stutt heimsókn í Öndverðarnes, yst á Snæfellsnesinu um helgina sýndi glögglega að þetta líf var ekki heiglum hent. Á Öndverðarnesi var á árum áður mikil útgerð og margar þurrabúðir, en jörðin hefur nú verið í eyði frá árinu 1945. Jörðin er ríkisjörð og má sjá nokkrar rústir en þarna eru tæplega 40 rústir skráðar. Þarna er auk þess rekinn viti. 

Ströndin þarna er klettótt og stórskorin og fyrir utan er úfin úthafsaldan. Það er út af fyrir sig afrek að komast inn fyrir ölduna, sæta lagið og ná lendingu og svo annað að bjarga mönnum og farmi í land og tryggja bátinn. Þegar maður stendur þarna, nánast aleinn með vindinn í fangið, vaknar með manni sterk sýn á lífsbaráttu fólks á fyrri árum og hvað það þurfti að gera til að komast af.

Öndverðarnes var heimaver sem segir að flestir sem þar réru bjuggu í Öndverðarnesi. Þó þar sé afbragðsfallegt að koma á sólríkum sumardegi þá er erfitt að ímynda sér fólk lifa þar yst við hafið, þar sem sæbarið grjót má finna langt inn í landi, þangað sem úthafsaldan hefur kastað því í stórviðrum. Reyndar áttu Saxhóll og fleiri bæir í Beruvík búðarstöðu þarna og komu menn þaðan til róðra í Öndverðarnesi. Þegar bátunum var lent í voginum og var lagt að klöppinni þurfti að varna því að þeir nudduðust utan í bergið á meðan aflinn og farviður, svo sem ára, mastur og austurtrog, var borið í land. Þá urðu menn að standa á stöllum í berginu og halda við bátinn. Það hefur verið bæði erfitt verk og hættulegt. Var þá sagt að menn stæðu í postulasporunum. Þegar lokið var við að bera af skipunum var þörf á að setja þau upp fyrir svokallaðan skipagarð eða skiparétt, efst í fjörunni. Skipin voru þau dregin upp eftir klöppinni og sjást kjalförin enn í henni. Skipin voru sett svo hátt að sjór næði ekki til þeirra. Þar stendur ferðalangur nútímans og horfir á lætin í briminu á meðan sólin skín og velti því fyrir sér hvernig var að gera þetta allt saman í vondu vertíðarveðri. En fyrir utan voru gjöful fiskimið og undan þessu var ekki vikist.strönd

Ótrúlegar áhafnasögur af síðutogurum

Í Morgunblaðinu um helgina var önnur lýsing á sjósókn sem einnig vakti athygli mína. Þar var rætt við Brynjólf Oddsson, sem kallaður var „alþjóðlegur“ skipstjóri hjá Samherja, en hann hóf sjómannsferil sinn sem 16 ára strákpjakkur árið 1970. Hann er nú nýlega hættur sem fastráðinn skipstjóri en segist þó ekki hættur á sjó. Frásögn Brynjólfs er fjörleg og forvitnileg. 

Sextán ára gamall var Brynjólfur orðinn pokamaður á síðutogaranum Jóni Þorlákssyni og var þá þriðji æðsti maður á dekki. „Þetta var mikill starfstitill og ég var með tvo aðstoðarmenn, fjórtán og fimmtán ára. Þetta var sérstök vakt því af ellefu manna vakt erum við fimm sem urðum skipstjórar síðar, en þarna vorum við svo ungir að ef það kom slæpa fórum við bara í feluleik og síðasta leik,“ segir hann í viðtali við Morgunblaðið og heldur áfram.

„Á sjónum voru þá bæði svona strákar eins og ég og svo örlagafyllibyttur og heimilisleysingjar. Það var rosaleg dópneysla um borð. Ég man þegar ég fór minn fyrsta jólatúr fimmtán ára, og varð reyndar sextán ára í túrnum, þá tók viku að láta renna af mannskapnum. Þeir voru uppdópaðir og drukknir. Það var ekki um auðugan garð að gresja að fá mannskap. Það var stundum farið í fangelsi, Þórskaffi og Röðul og hreinsað út til að manna skipin. Á þessum tíma var amfetamín um borð í skipum bara eins og sælgæti,“ segir hann. „Síldarskipin voru á þessum tíma búin að hirða alla bestu sjómennina, fyrir ’68, en þá var síldarhrunið.“skipst

Svanasöngur síðutogaranna

Brynjólfur segir upphaf túranna hafa verið það versta, þar sem mannskapurinn var meira og minna undir áhrifum. „Kínverjum var stundum hent inn í klefana til að ræsa mennina á vaktina. Ég lenti í því. Það var ekki hægt að manna vaktir í heila viku í byrjun túra. Svo kláruðust birgðirnar af brennivíninu og dópinu og þá fór þetta að færast í eðlilegt horf. Þetta voru svo hörkusjómenn þegar runnið var af þeim,“ segir Brynjólfur og segist eðlilega ekki myndu vilja sætta sig við svona mannskap í dag. „Þetta var ekkert svona á öllum skipum á þessum tíma; síðutogararnir voru svolítið sérstakir. Það er þarna að renna upp svanasöngur síðutogaranna og þegar skuttogararnir koma gjörbreyttist allt. Þetta var endalok ákveðins tímabils. Þessir menn máluðu bæina rauða þegar þeir voru í landi og lifðu mest í leigubílum. Eyddu bara öllu þar til kom að næsta túr.“

Það er okkur Íslendingum hollt að rifja upp sögu sjávarútvegsins og þó við flest höfum lítil tengsl við hann í dag - sérstaklega við sem lifum hér á suðvesturhorninu - þá hefur hann sterk ítök í þjóðlífinu. Nú er öldin önnur og fagamennska, þekking og skipulag hefur leyst erfiði þeirra sem á undan komu af hólmi. Það er hins vegar sjálfsagt að heiðra minningu þeirra með því að setja okkur inní hvernig háttaði til áður fyrr.