c

Pistlar:

3. júlí 2020 kl. 13:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing á miðju ári - á bleiku skýi

Enn eru hagspekingar að reyna að átta sig á því hve djúp og alverlega kreppan sem nú ríður yfir þjóðfélagið er. Hver kreppa eða niðursveifla hefur sína gerð og sitt lag og sú von sem margir báru í brjósti í upphafi um að hún yrði V-laga núna hefur ekki ræst. Þvert á móti, við erum að sigla inn í langvinna niðursveiflu og spárnar verða alvarlegri með hverri vikunni eins og hefur verið bent á hér áður. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins lýsti því þannig að við svifum á „bleiku skýi“ nú á miðju sumri og harður vetur sé framundan. Því miður styðja nýjar hagspár slíkar fullyrðingar.byggja

En kreppan núna hefur margvísleg sérkenni og þau skýrust að hún á ekki uppruna sinn í hagkerfinu sjálfu. En hún afhjúpar hins vegar ýmsa veikleika kerfisins og kippir fótunum undan mörgum sem höfðu ráðist í fjárfestingar sem nú birtast sem bjartsýnar í meira lagi. Verst fer ferðþjónustan út úr þessu en þar hafa viðskiptavinirnir nánast horfið algerlega. Hjá flestum fyrirtækjum var ekki annað að gera en að skella í lás. Engin atvinnugrein getur staðið undir slíku og jafnvel fjárhagslega sterkustu fyrirtækin munu lenda í erfiðleikum. Daglega berast fregnir af því að bankar séu komnir inn á gólf í fyrirtækjum og spurningin hvernig þeir munu vinna sig úr því. Hótel úti á landi munu þannig eiga í miklum erfiðleikum þó þau séu að reyna að draga til sín íslenska viðskiptavini með verðtilboðum. Hvernig þeim mun síðan farnast í haust þegar Íslendingar hætta ferðalögum er önnur saga. Miðað við hvernig mál hafa verið að þróast að undanförnu er ólíklegt að ferðamenn hópist til landsins og það er líklega í fyrsta lagi eftir 3 til 5 ár sem við getum aftur vænst þess að sjá líkar tölur og fyrir ári.

Önnur og ólík kreppa

En ástandið er að mörgu leyti frábrugðið síðustu kreppu sem átti rætur sínar að rekja til fjármálastofnanna. Nú er almenningur og fyrirtæki ekki að sligast undan verðbólgu, gengislánum og háum vöxtum. Nú er ástandið þannig að ef fólk hefur vinnu er staða þess að mörgu leyti góð, vextir hafa verið að lækka og þrátt fyrir lítilsháttar lækkun krónunnar hefur verðbólgan ekki farið af stað. Fjárhagsstaða heimila er trygg og atvinnuleysi í raun eini þátturinn sem skapar óvissu. Fjármálahrunið bjó til ótrúlegt flækjustig sem tók mörg ár að greiða úr og það torveldaði fyrirtækjum og einstaklingum að endurskipuleggja sig. Aðgerðir stjórnvalda verða því að miða við að skapa fólki og fyrirtækjum fótfestu þannig að þessir aðilar geti gert raunhæfar áætlanir og skipulagt sig sem fyrst og hafið uppbyggingu og endurskipulagningu. Það ætti að vera megináhersla stjórnvalda. Liður í slíkum aðgerðum eru skattalækkanir, einföldun regluverks og allt það sem miðar að því að auðvelda atvinnulífinu að keyra sig af stað.

Augljóslega mun fall landsframleiðslu verða verulegt. Það er kannski smá gráglettni í því að það tók okkur átta ár að ná landsframleiðslu á mann eins og hún var fyrir fjármálahrunið en það gerðist ekki fyrr en árið 2016. Nú má segja að fallið í landsframleiðslu hafi aftur fært okkur til 2016! Það ætlar því að reynast örlagaríkt ár fyrir okkur.

En það blasir við að hagstjórn næstu missera verður að talsverðu leyti á herðum Seðlabankans. Hvernig hann stýrir peningamagni í umferð og vaxtastigi mun skipta miklu en Seðlabankinn og bankakerfið eru vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem eru framundan. Staða hinna kerfislega mikilvægu banka er sterk þó að líkur séu á talsverðri virðisrýrnun útlána næstu misseri og mikil óvissa ríki um raunverulegt virði útlánasafns þeirra eins og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins benti á í gær. Gjaldeyrisforði Seðlabankans sem hleypur í dag á um 900 milljörðum króna, mun koma til með að standast viðmið jafnvel þótt mikill fjármagnsflótti yrði að veruleika. Enn sem komið er merkjast þó ekki vísbendingar um slíkt. Við verðum að vona að aðgerðir stjórnvalda miðist við að styrkja og styðja við það atvinnulíf sem er í landinu svo viðsnúningurinn verði hraður.