c

Pistlar:

17. júlí 2020 kl. 17:34

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tímavél bjargar ekki Icelandair

Það geta allir haft skoðun á stöðu samningamála hjá Icelandair en það getur engin leyst deiluna milli flugfreyja og félagsins nema samningsaðilar sjálfir. Og deilan virkar óleysanleg, einfaldlega vegna þess að margra ára aðlögum að breyttu samkeppnisumhverfi dynur yfir félagið á einu andartaki. Það er í raun skiljanlegt að samningsaðilar geti ekki tekist á við þann raunveruleika sem flugrekstri er núna búinn. Augljóslega stefnir Icelandair í greiðsluþrot og ljóst að sú umgjörð sem félagið hefur búið við undanfarin ár er horfin. Icelandair eins og það hefur verið rekið mun ekki starfa áfram, tímavél myndi ekki einu sinni hjálpa til við að leysa stöðuna en ekki er langt síðan staða félagsins var gerð að umræðuefni hér.

Að sumu leyti er hægt að undrast hve fljótt hlutirnir geta gerst og enginn verður sakaður um að hafa ekki náð að undirbúa sig undir faraldurinn sem hefur rústað ferðamannaiðnaði heimsins og fært hagkerfi landanna nokkur ár aftur í tímann. Í því ljósi virkar deila flugfreyja og Icelandair næsta veigalítil. Hins vegar hefur það legið fyrir í allangan tíma að samkeppnisstaða Icelandair hefur verið að versna. Það er nóg að fylgjast með þróun hlutabréfaverðs félagsins til að sjá að fjárfestar hafa smám saman verið að missa trú á framtíð þess. Getur ríkið hlaupið undir bagga með félaginu þegar ekki einu sinni fjárfestar og stærstu hluthafar hafa trú á framtíð þess? icelandair

Sérstaðan að hverfa

Staðan er einfaldlega þannig í dag að við sem neytendur viljum nú leita allra leiða til að fá sem ódýrust og hagstæðust fargjöld og þá ríkir engin tryggð. Ný tækni, svo sem leitar- og bókunarvélar, gerir okkur kleyft að bóka ódýra farmiða með stöðugt fleiri flugfélögum. Sérstaða Icelandair þegar kemur að flugi til Íslands hefur verið að hverfa. Vissulega eru margir Íslendingar sem líta á sig komin heim þegar þeir setjast upp í flugvélar félagsins, þó á erlendri grundu sé og íslensku flugfreyjurnar eru þekktar fyrir þjónustulipurð og góða þjónustu. Það skal ekki vanvirt sem þær hafa lagt á sig fyrir félagið en tímans þunga nið stöðvar enginn. Síðustu misseri hafa tugir flugfélaga flogið til Íslands og boðið oft á tíðum furðu lág fargjöld sem almenningur hefur nýtt sér. Tryggðin er fyrst og fremst við eigin buddu. Það er reyndar einnig svo með flugfélögin að þau eru að hugsa um eigin hag, það sjá farmiðaeigendur sem reyna að fá endurgreidda miða. Það er nánast ómögulegt, „computer says no“.

Stétt í aðlögun

Eins og áður sagði þá er aðlögunin hröð fyrir stétt flugfreyja en flugfreyjur Icelandair hafa búið við góð kjör þó ekki sé sagt að þær séu of sælar af sínu. Fólk er hins vegar tilbúið að láta verðið ráða umfram gæði þjónustunnar. Margar stéttir hafa lent í slíkri aðlögun, bændum hefur fækkað um áraraðir og kjör þeirra lækkað svo dæmi sé tekið. Sjómannastéttinni fækkar stöðugt og ekki þarf að ræða stétt fjölmiðlamanna. Það að prenta blöð virðist jaðra við sérvisku og sama má segja um prentiðnaðinn í heild sinni. Svona má lengi telja. Allt breytist.

Hvað gerist næst hjá Icelandair? Með því að sýna að það getur ekki samið við flugfreyjur þá sendir það skilaboð á hinn popúlíska launþegamarkað sem auðvitað blæs í herlúðra. Í fyrra sagði þetta sama fólk; „hótelin eru okkar“ en nú eru þessi sömu hótel lokuð og störfin farin. Verkalýðsfélög á Íslandi geta augljóslega ekki stuðlað að aðlögun vinnumarkaðar nú þegar við getum ekki lengur treyst á verðbólguna til þess eins og viðbrögðin sýna, þar er verið að reyna að ræsa tímavélina! Þess vegna verðum við að taka aðlögunina í gegnum atvinnuleysi. Ljóst er að atvinnulausir næsta haust verða ríflega 20 þúsund talsins, nokkurn vegin jafn margir og teljast til öryrkja sem er kannski sláandi samanburður. Það lagast ekki nema stjórnvöld og verkalýðshreyfingin gera fyrirtækjum auðveldara að skapa ný störf.