c

Pistlar:

23. júlí 2020 kl. 13:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Leeds: Sigurvegari án peningaausturs

Margir Íslendingar á miðjum aldri og þar á meðal pistlaskrifari fagna því nú að enska knattspyrnufélagið Leeds United sigraði í ensku 2. deildinni (nú Championship). Þetta er í fjórða skiptið í sögu félagsins sem liðið vinnur 2. deildina en Leeds hefur orðið enskur meistari þrisvar. Liðið var án efa það öflugasta í Englandi um og í kringum 1970, varð tvisvar enskur meistari en varð stundum að sætta sig við 2. sætið eftir að hafa klúðrað málum á lokametrunum. Vondar ákvarðanir í kjölfar þess að þáverandi knattspyrnustjóri Sir Don Revie (1927-1989) hætti árið 1974 grófu undan liðinu. Revie tók við enska landsliðinu en hafði ekki árangur sem erfiði enda má segja að knattspyrnuþekking hans hafi snúist um hin sérstaka leikmannahópi Leeds og þeir dýrkuðu hann á móti. Ljóst var að það yrði erfitt að feta í fótspor Revie. Það var því ekki skynsamlega ákvörðun að fá hinn hvatvísa Brian Clough (1935-2004) til að taka Leeds en áður hafði hann gert frábæra hluti með Derby County. Ráðningin kom öllum á óvart enda Clough verið gagnrýninn á leikmenn og leikstíl Leeds sem höfðu unnið deildina árið á undan en voru þekktir fyrir kappsemi sína inni á vellinum með harðjaxlinn Billi Bremner (1942-1997) fremstan í flokki. Óhætt er að segja að Clough hafi verið mætt af miklum kulda í búningsklefanum og fór svo að hann entist aðeins 44 daga í starfi. Um þetta var gerð eftirminnileg kvikmynd, The Damned United, sem knattspyrnuáhugamenn ættu ekki að láta framhjá sér fara. Clough átti eftir að ná einstæðum árangri með Notthingham Forest en gengi Leeds var skrykkjótt næstu áratugi.Leeds

Ris og fall

Saga Leeds undanfarna tvo áratugi er að nokkru leyti vitnisburður um það besta og versta í heimi knattspyrnunnar. Liðið átti velgengni að fagna nokkrum árum áður en það féll, vann enska meistaratitilinn 1992 undir stjórn Howard Wilkinson og komst í undanúrslit meistaradeildar Evrópu árið 2001. En þáverandi stjórnendur lögðu allt undir til að tryggja stöðu félagsins meðal þeirra bestu og töpuðu. Félagið hafði keypt og keypt leikmenn og steypt sér í stórskuldir. Um svipað leyti voru fyrstu alþjóðlegu auðmennirnir að byrja að kaupa stórlið í Englandi og peningarnir streymdu inn. Leeds fékk engan sykurpabba, neyddist til að selja sína bestu leikmenn, féll úr efstu deild og endaði í greiðslustöðvun árið 2007 og sent niður í 3. deildina í framhaldi þess þar sem liðið dvaldi næstu tvö árin. Niðurlægingin var alger.

Árið 2017 eignaðist ítalski kaupsýslumaðurinn Andrea Radrizzani meirihluta í Leeds og byrjun liðsins undir hans stjórn var brösótt, hann réði og rak knattspyrnustjóra eins og fyrirrennari hans og landi Massimo Cellino. Að lokum ákvað hann að semja við umdeildan argentínskan þjálfara, Marcelo Bielsa sem hafði oft náð frábærum árangri en var talið nokkurt ólíkindatól.

Undramaðurinn Marcelo Bielsa

En eftir 16 ára bið er liðið nú aftur í deild þeirra bestu. Endurkoman núna á sér fallega sögu og nokkuð öðru vísi í heimi þar sem peningar og stórstjörnur ráða öllu. Eftir að hafa reynt 20 knattspyrnustjóra á þessum 16 árum eru menn sammála um að árangurinn núna sé að mestu knattspyrnustjóranum Marcelo Bielsa að þakka sem tók við liðinu fyrir tveimur árum og kom því strax í umspil. Hann er nú í guðatölu í Leeds og gata í borginni skýrð eftir honum.

Með komu Marcelo Bielsa hafa hlutirnir verið gerðir öðru vísi. Einhverra hluta vegna er Bielsa kallaður El Loco sem er rangnefni því maðurinn er í senn hæglátur og hógvær. Er til þess tekið hve vel hann hefur fallið inn í samfélagið í Leeds þó hann tali litla sem enga ensku. Hann gefur sér tíma til að sitja fyrir á myndum með stuðningsmönnum og er barngóður með afbrigðum og kýs að búa innan um venjulegt fólk. En hann er maðurinn sem öllu breytti og gerði Leeds kleyft að gera alvöru atlögu að úrvalsdeildarsæti. Ekki með því að ausa peningum í leikmannakaup heldur hlúa að leikmönnum og gefa þeim færi á að blómstra. Mönnum hefur orðið tíðrætt um að Bielsa sé fyrirmynd margra af bestu knattspyrnustjóra heims og menn eins og Pep Guardiola, Diego Simeone og ekki síst Mauricio Pochettino sem lék undir stjórn Bielsa hjá Newell's Old Boys ausa hann lofi.leeds2

Ljóst er að vinnubrögð hans eru einstök. Aðferðir hans minna á það hvernig Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari okkar í handknattleik vinnur. Bielsa vinnur með tölur og kortleggur allt sem hægt er til að dýpka skilning sinn á leikstíl andstæðinganna og um leið getu eigin leikmanna. Hann leggur áherslu á hápressu eins og flestir spila í dag sem krefst aga og úthalds meðal leikmanna. Ekkert lið hélt boltanum meira í 2. deildinni núna og oft á tíðum sprengdu þeir andstæðinganna. Frægt atvik varð á síðasta ári þegar kvartað var yfir því að hann væri að njósna með ólögmætum hætti um andstæðinga sína. Erfitt var að sjá út á hvað kvörtunin gekk en Bielsa kom öllum á óvart með því að staðfesta að hann „njósnaði“ um andstæðingana! Í framhaldi þess hélt hann eftirminnilegan blaðamannafund sem skyldi alla viðstadda eftir í undrun yfir þekkingu hans á knattspyrnu. Knattspyrnuyfirvöld sektuðu Leeds um 200.000 pund sem flestum þótti heldur ósanngjarnt og ekki mildaðist afstaðan til sektarinnar þegar Bielsa krafðist þess að greiða hana sjálfur.

Það verður fróðlegt að sjá Leeds undir stjórn hins 64 ára gamla Bielsa. Liðið verður án efa í sviðsljósinu en spekingar segja að hann muni ekki leggjast í mikil leikmannakaup enda þekktur fyrir að gera miðlungsleikmenn að góðum leikmönnum. Mun það duga í deild þeirra bestu? Það er óvíst en það verður sannarlega forvitnilegt að fylgjast með hvernig til tekst.