c

Pistlar:

30. júlí 2020 kl. 21:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kauphöllin: Hvar eru skemmtilegu fyrirtækin?

Í Viðskiptablaðinu í dag er sagt frá fyrirtækinu AEX Gold sem á gullnámu á Grænlandi auk gullleitarleyfa. AEX Gold hyggst hefja framleiðslu á gulli eftir 18 mánuði. Fyrirtækið fór nýverið í hlutafjárútboð þar sem það sótti sér 7,45 milljarða króna. „Þetta hlutfjárútboð hafði mikla þýðingu fyrir okkur. Til þess að geta ráðist í framleiðslu og vera félag sem er í vaxtarfasa þá þurfum við mikið eigið fé og við söfnuðum á bilinu 7 til 8 milljörðum í eigið fé í þessu útboði. Slíkar fjárhæðir dekka allan rannsóknarkostnað næstu tvö árin og mun gera okkur kleift að ráðast í fleiri fjárfestingar. Á staðnum er náma tilbúin og einnig birgðir af gullefni sem er tilbúið til vinnslu og við ætlum að ráðast í fjárfestingar á nýjum tækjum og meiri vinnslu á efni,“ sagði Eldur Ólafsson stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins í Viðskiptablaðinu. Þar kom einnig fram að félagið sé skuldlaust og þurfi enga frekari fjármögnun til að komast í jákvætt tekjuflæði. Félagið er að ráðast í miklar framkvæmdir sem verða fjármagnaðar með eigin fé.kaupo

Skrá félagið á markað í London

AEX Gold er þegar á markaði í Kanada og viðskipti með bréf félagsins hefjast í London nú á föstudaginn og viðskipti með bréf félagsins byrja þá í Kauphöllinni í London. Spurður hvaða þýðingu skráningin hafi fyrir fyrirtækið segir Eldur að hún hafi mjög mikla þýðingu. „Félög standa oft frammi fyrir alls kyns tegundum af áhættu en það sem hefur mesta þýðingu er fjárhagsleg áhætta. En um þessar mundir er engin fjárhagsleg áhætta næstu 24 mánuðina. Í fyrsta lagi þá erum við nú fullfjármagnaðir og í öðru lagi þá er hlutafjárútboðið sem við erum að fara í það stærsta og eina í London síðan COVID byrjaði,“ segir Eldur og bætir við að fjármögnunin sé stærri heldur en þær 10 síðustu í gullgeiranum í London.

Hér eru djörf áform en svo traustvekjandi að áhættufjármagn virðist dragast að félaginu. Það er hægt að gleðjast með eigendum AEX Gold þó smá vonbrigði séu að ekki sé fótur fyrir að skrá félagið í íslenskri kauphöll. Hafa má skilning á því en um leið velta fyrir sér hvar skemmtilegu íslensku félögin séu? Er yfir höfuð ekkert að gerast í íslensku kauphöllinni?

Hvar eru íslensku félögin

Á baksíðu Fréttablaðsins í dag eru þessi íslensku félög nefnd til sögunnar, sem skemmtileg og áhugaverð: Meniga, LS retail, NetApp, CrankWheel, Clara, SidekickHealth, Controlant, Lucinity, Teatime, Creditinfo, CCP, AwareGo, Syndis, dk-hugbúnaður, Mussila, Sabre-Calidris, SagaNatura, Sæbýli, eTactica,Ýmir, Coori, Infomentor, Beedle, Atmonia, Handpoint, Digifresh, Hausmart. Málshefjandi nefnir að hér megi finna hundruð annarra fyrirtækja sem falli að skilgreiningu hans.

Nú er það svo að ekki henta öll félög til skráningar oftast þó stærðar vegna og skorts á rekstrarsögu. En með mörg þessi félög má þó segja að það eru vonbrigði að menn sjái sér ekki tækifæri til að fara í skráningu og sækja fjármagn fyrir opnum tjöldum. Þess í stað er sótt að fjármagnseigendum, sem í flestum tilfellum tengjast lífeyrissjóðum með öðrum aðferðum. Væri ekki betra að gera það fyrir opnum tjöldum í gegnum skráningu og kauphallarviðskipti?

Það mætti tína til fjölda annarra félaga sem hugsanlega eiga fullt erindi í kauphöll, bara af fréttum dagsins mætti tína til Orf Líftækni og bátagerðina Rafnar. Það virka í það minnsta skemmtileg fyrirtæki.