c

Pistlar:

10. ágúst 2020 kl. 10:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að lifa með veirunni

Inni á vef heilbrigðisráðuneytisins ber nú fyrsta frétt ráðuneytisins þetta heiti. Að lifa með veirunni er nú helsta áskorun heimsbyggðarinnar og ljóst að margs er að gæta. Þegar veiran kom upp í fyrstu var bent á það í pistli hér að hún myndi leggja áskoranir á hagskerfið og efnahagslífið, heilbrigðiskerfið og þó ekki síst samfélagið. Það hefur komið á daginn. Augljóst er að fyrri væntingar um að hún renni fremur hratt í gegn og færi með einhverskonar V-feril í gegnum hagkerfið er ekki að rætast. Þvert á móti er hún að hafa langvarandi og alvarlegar afleiðinga sem munu að lokum setja miklar áskoranir á stjórnvöld og samfélagið allt.covid19

Við blasir að efnahagslífið getur ekki þrifist ef öllu er lokað vegna veirunnar en það getur heldur ekki starfað með hana grasserandi í samfélaginu. Hvernig verður leyst úr því? Það bíður stjórnvalda að finna málamiðlun og líklega er það svo að hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar er lokið. Það er ekki hægt að fela sig lengur með því að færa allt vald til þríeykisins en augljóslega ríkti nokkuð mikil sátt um það fyrirkomulag á meðan við vorum að takast á við fyrstu bylgju faraldursins. Augljóslega eru ólík sýn á það hvernig eigi taka á málum núna og menn greinir á um hve viðamikil lokunin á að vera. Sóttvarnarlæknir segir réttilega að það skiptir ekki máli hve mikil lokunin er ef ekki er farið eftir ráðum hans. Málsmetandi hagfræðingar telja að það eigi að loka af samfélagið vegna þess að það séu mikil gæði að lifa í veirufríu samfélagi. Það er hárrétt en aðgerðir til að tryggja slíkt myndu koma hart niður á mörgum starfsgreinum, og þá sérstaklega ferðaþjónustunni. Það er ekki hægt að meðhöndla hana eins kvartandi barn. Um 25 þúsund manns hafa með beinum hætti lifibrauð sitt af ferðaþjónustu og þúsundir í viðbót óbeint. Þarna er mikið í húfi og það sést best á því að örlög Icelandair, 5000 manna vinnustaðar, gætu ráðist næstu daga, meðal annars af þeim ákvörðunum sem verða teknar. Af fólki sem er öruggt með að fá laun um næstu mánaðamót, svo það sé nú sagt.

40% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar

Erlendir ferðamenn færa Íslandi nærri 40% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar, það munar um minna. Stærsti hluti fyrirtækjanna í eru smáfyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki og í fjölmörgum þeirra er húsnæði þeirra sem reka þau veðsett fyrir rekstrinum. Við vitum hægt er að þakka greininni stóran hluta þess umsnúnings sem orðið hefur í hagkerfinu undanfarin ár. Miklar fjárfestingar hafa átt sér stað í greininni og hún skiptir landsbyggðina miklu máli. Víða eru þetta helstu atvinnurekendurnir í smærri byggðum.

Vandinn við þetta allt er að það er engin leiðarvísir, það verður að reyna að taka skynsamlegar ákvarðanir út frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir með þá reynslu sem við höfum aflað okkur. Sérfræðingana greinir líka á og einstök lönd taka með mjög ólíkum hætti á hlutunum. Þetta sést ágætlega í umræðunni um það hvort skynsamlegt sé að bera grímu eða ekki. Sóttvarnalæknir hér lagðist lengst af gegn því og sagði það veita falska öryggiskennd. Þá sagði okkar ágæti sérfræðingur Kári Stefánsson að veiran væri miklu útbreiddari en hún reyndist vera. Framlag hans og Íslenskrar erfðagreiningar er ómetanlegt en sýnir um leið að stjórnvöld hafa ekki á öllum tímum haft lausnir eða svör. Hann sagði í vetur að hugsanlega yrði bóluefni komið fyrir árslok og var bjartsýnni en sóttvarnarlæknir þar. En nú segir hann að það verði vonandi komið á miðju næsta ári. Það rætist vonandi en margt getur auðveldað að lifa með veirunni þangað til en mikilvægast er að fólk sýni aðgæslu og varkárni og reyni að hlýða þeim fyrirmælum sem sett eru. Þar getum við bætt okkur mikið.