c

Pistlar:

13. ágúst 2020 kl. 11:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing á haustdögum

Nú þegar haustið nálgast allt of hröðum skrefum þá blasir við að efnahagsleg áhrif veirufaraldursins (SARS-CoV-2 veirunni) ætla að verða meiri og langvinnari á heimsvísu en séð var fyrir. Að hluta til sést það hvað skýrast í því hvaða afstöðu fjárfestar þurfa að taka gagnvart hlutafjárútboði Icelandair sem nú er farið að styttast í. Morgunblaðið minnir réttilega á það í leiðara í dag að flugfélagið á sér langa og merkilega sögu í íslensku þjóðlífi. Er það eitt og sér ástæða fyrir fjárfesta að koma því til hjálpar? Tæplega en sagan skiptir máli og við sjáum það að í nágranalöndunum hafa stjórnvöld að lokum tekið sig til og komið stórum flugfélögum með langa sögu til bjargar. Réttlætir það björgun Icelandair að stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð koma SAS til bjargar? Tæpast, SAS er jú nú þegar í eigu ríkissjóða þessara landa.fáni

Því er haldið fram að það kosti ekki nema 3 til 4 milljarða króna að stofna flugfélag og hefja áætlunarflug frá Íslandi með 12 vélar. Ef vel gangi geti slíkt félag fljótt aukið ferðatíðni sína. Ég treysti mér ekki til að meta hvort þetta er rétt. Það eru verðmæti í þekkingu og reynslu Icelandair-manna en hversu hátt verð skal greiða fyrir það? Þá má hafa efasemdir um að þeir samningar sem kynntir voru í gær séu hagfeldir félaginu. Greint hefur verið frá því að gengið hafi verið frá endanlegu samkomulagi við flugvélaframleiðandann Boeing um bætur vegna kyrrsetningar MAX-flugvéla. Félagið þarf að taka við sex MAX-vélum í byrjun næsta árs og fær svo bætur frá félaginu á miðju næsta ári. Er þetta hagfeld niðurstaða fyrir félagið sem boðar að MAX-vélarnar verði áfram hluti af flugflota þess? Nýir hluthafar verða að meta hvort það sé.

Hvað gera gististaðir í haust?

En þróun og saga Icelandair er líka saga annarra ferðaþjónustufyrirtækja. Hér var fyrir nokkru sagt að við svifum hugsanlega á bleiku skýi inn í haustið. Sú sumartrafflík sem Íslendingar hafa skapað mun þá hverfa að mestu. Hugsanlega geta gististaðir á suðvesturhorninu laðað til sín helgargesti með tilboðum. Aðrir hlutar landsins verða að mestu lokaðir þar ferðamennska hefst á ný. Sem betur hafa yfirvöld nokkurn skilning á að ekki sé skynsamlegt að loka með öllu á meðan aðstæður ekki beinlínis kalla á það. Allt hagkerfið er í aðlögun

En bak við þetta allt lúrir staða okkar sameiginlegu sjóða. Efnahagslífið í heild sinni og þá staða ríkissjóðs. Engin leið er á þessari stundu að meta heildartjónið af veirunni en augljóslega er ríkissjóður bæði að hafa af henni mikil útgjöld og mikið tap á tekjum. Á sama tíma er sagt frá því að kaupmáttur sé að aukast. Í þessu er falin þversögn, kaupmáttur verður að lokum að endurspegla framleiðslugetu hagkerfisins.

Hröð aukning ríkisskulda

Hlutfall skulda ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu mælist nú tæplega 40%. Það var til samanburðar rúmlega 28% í janúar og hafði þá lækkað jafnt og stöðugt allt síðan 2015. Þessar upplýsingar má lesa úr nýjum Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins í Seðlabanka Íslands og Morgunblaðið gerir þetta að umtalsefni í dag. Heildarskuldir ríkissjóðs voru tæplega 882 milljarðar í lok janúar en var tæplega 1.136 milljarðar í lok júlí. Þær hafa því hækkað um ríflega 250 milljarða á sex mánuðum, eða um vel á annan milljarð á dag.

Fyrir þetta ár voru spár um hagvöxt þokkalegar þó augljóslega væri að draga úr þeim uppgangi sem hér hafði orðið árin á undan. Í Peningamálum Seðlabankans í febrúar var gert ráð fyrir 0,8% hagvexti í ár. Horfurnar breyttust hratt með faraldrinum að í Peningamálum Seðlabankans í maí var spáð 8% samdrætti í ár. Aðrir hafa spáð enn meiri samdrætti eins og getið hefur verið hér. Síðan hefur Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagt við Morgunblaðið að mögulega verði samdrátturinn minni en þá var spáð var. Það er hraustlega sagt en vissulega er fellur margt með okkur svo sem lág skuldastaða, lágir vextir og greiður aðgangur að lánamörkuðum.

Krónan hefur verið að veikjast að undanförnu sem getur valdið verðbólguþrýstingi, sérstaklega ef laun halda áfram að þróast með óraunhæfum hætti. Miklu skiptir að sá útflutningsiðnaður sem enn er til staðar standi sterkur.