c

Pistlar:

17. ágúst 2020 kl. 10:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sigurvegararnir í veirukreppunni

Í heimi viðskipta er oft farsælt að vitna í fjárfestinn Warren Buffett og fleyg eru þau orð hans að „í heimi viðskiptanna gefur baksýnisspegillinn alltaf skýrari mynd en ef horft er út um framrúðuna.“ Buffett er maður sem græðir þegar aðrir fjárfestar tapa og hefur yfirleitt haft næman skilning á þeim tækifærum sem felast í kreppu, þegar eignarverð fellur og sá stendur best að vígi sem hefur mest lausafé. Í Bandaríkjunum er þetta orðað með einföldum hætti, „cash is king“. Sem mætti útleggja að kóngurinn eigi nóg af seðlum sem er sögulega ekki rétt þar sem kóngar Evrópu voru yfirleitt skuldugustu menn síns tíma! En það er önnur saga.

En hvað sem líður reglum fjármálamarkaðanna og innsýn þeirra fremstu spekúlanta þá er merkilegt að fylgjast með þróun markaða í henni Ameríku. Á sama tíma og kórónuveiran hefur leitt til fordæmalaus efnahagssamdráttar og lækkunar á hlutabréfaverði virðast nokkur af stærstu tæknifyrirtækjunum vera ónæm fyrir áhrifum veirunnar og bréf þeirra halda bara áfram að hækka. Þar fara fremst í flokki netrisarnir Google, Amazon og Facebook ásamt, Apple og Microsoft. Hlutabréf þeirra allra hafa hækkað umtalsvert á árinu og er samanlagt markaðsvirði þessar fimm félaga um það bil fjórðungur af S&P 500 hlutabréfavísitölunni eins og Viðskiptablaðið vakti athygli á í síðasta blaði. Það vekur athygli að afkoma Apple og Amazon var talsvert umfram væntingar fjárfesta á síðasta fjórðungi. Tekjur Amazon jukust um 40% á árinu og hagnaður tvöfaldaðist og virðist skýring sú að mun fleiri versla nú á netinu en áður. Apple jók einnig tekjur sínar þrátt fyrir að hafa þurft að loka búðum mánuðum saman. Tekjur Facebook hafa einnig haldið áfram að aukast og það þrátt fyrir að talsverður hópur auglýsenda sniðgangi fyrirtækið til að knýja það á um hefja meiri ritskoðun á efni sínu.big teck

Undir rannsókn samkeppnisyfirvalda

Stærð fyrirtækjanna er nú slík að yfirvöld rannsaka þau nú fyrir að hafa óeðlileg áhrif á samkeppni. Von er á málssókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins gegn Google og rannsókn stendur yfir á Facebook, Apple og Amazon fyrir það sem yfirvöld telja vera samkeppnishamlandi hegðun. Áður hefur Microsoft orðið að þola svipaða rannsókn en það er elst fyrirtækjanna. Ekki er langt síðan forstjórar félaganna mættu fyrir þingnefnd í Bandaríkjunum og svöruðu fyrir ásakanir um hamlandi áhrif á samkeppni.

Yfirvöld í Evrópu hafa verið á svipaðri vegferð. Þar eru ný lög í smíðum sem er sérstaklega beint að þessum fyrirtækjum með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra á samkeppni, til dæmis með hærri sektum auk heimilda til að stöðva tiltekna starfsemi þeirra og neyða þau til að opna hugbúnað sinn gagnvart samkeppnisaðilum. Þetta eru ekki ný tíðindi en félögin eru á hverjum tíma í miklum og vandasömum málaferlum. Ekki er langt síðan Facebook hafði afgerandi sigur í samkeppnismálum sínum gegn ESB á Írlandi.

Skapa nýja auðmenn

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með uppgangi þessara tæknifyrirtækja sem í grunninn eru ekki ýkja gömul, yngst er Facebook en það var stofnað árið 2004 en hér hefur í nokkur tilfelli verið fjallað um um félagið. Sama má segja um Amazon og stofnanda þess Jeff Bezos sem hefur tekið við af Bill Gates sem ríkasti maður heims. Reyndar langríkasti enda uppskera stofnendur þessara félaga ríkulega fyrir ævintýralegan vöxt félaganna.

Buffett sjálfur virðist hafa verið að lækka á þessum auðmannalista en honum er líklega slétta sama. Hann verður níræður nú 30. ágúst en virðist enn nálgast fjárfestingar sínar sem langtímafjárfestir! Það að hann skyldi yfirgefa fjárfestingar sínar í fjölmiðlum sannar það hugsanlega.