c

Pistlar:

25. ágúst 2020 kl. 18:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þjóðverjar gera tilraun með borgaralaun

Í Þýskalandi er að hefjast tilraun með borgaralaun og hyggjast rannsakendur þar greiða 120 manns 1200 evrur á mánuði næstu þrjú árin eða sem svarar 195 þúsund krónum. Greiðslan verður án skilyrða en þátttakendur fallast á að vera hluti af samanburðarannsókn en lífshlaup þeirra verður þá borið saman við það hvernig öðrum 1.380 þegnum vegna sem ekki fá borgaralaunin. Sem fyrr eru rökin þau að borgaralaun dragi úr ójöfnuði og stuðli að vellíðan þeirra sem þiggi þau. Efasemdamenn telja þetta of dýra aðferð sem að lokum dragi úr vilja fólks til að vinna. Hér hefur áður verið fjallað um borgaralaun við nokkur tilefni, meðal annars þegar Svisslendingar kusu um hvort ætti að innleiða borgaralaun og þegar Finnar féllu frá tilraun sinni. Borgaralaun hafa verið sérstakt baráttumál Pírata hér á landi og þeir hafa endurtekið flutt þingsályktunartillögur um upptöku þeirra.

Tilraunaverkefni

En eins og áður sagði þá er hér um að ræða tilraunaverkefni í Þýskalandi. Það er framkvæmt af þýsku efnahagsrannsóknarmiðstöðinni (German Institute for Economic Research) og er fjármagnað af 140.000 stuðningsaðilum í gegnum Mein Grundeinkommen. Allir þátttakendur verða beðnir um að svara reglulega spurningalistum er varðar líf þeirra, líðan og stöðu í tilraun til að skilja betur hvaða áhrif laun af þessu tagi hafa.univ

Jürgen Schupp, sem fer fyrir rannsókninni, tjáði Der Spiegel tímaritinu að hún muni hjálpa við að skilja áhrif borgaralauna og með henni verði aflað nauðsynlegra vísindalegra upplýsinga. Þar með verði hægt að styðjast við raungögn í umræðunni um borgaralaun, nokkuð sem hafi sárlega vantað til þessa.

Ánægðari en jafn atvinnulausir

Þeir finnast sem telja að faraldurinn nú sýni ágæti þess að hafa fyrirkomulag eins og borgaralaun og þau geti jafnað betur sveiflur sem leiði til fjöldaatvinnuleysis. Tilraunin í Finnlandi sýndi að borgaralaun gerðu fólk ánægðara en leiddu ekki til þess að fólk væri líklegar til að leita sér að vinnu.

Finnar gerðu eins og áður sagði tilraunir með borgaralaun á tveggja ára tímabili, eða frá janúar 2017 til desember 2018. Þá fengu um 2000 atvinnulausir Finnar sem svarar 560 evrum á mánuði eða 91 þúsund krónur. Svisslendingar ætluðu að greiða mun hærri upphæð í borgaralaun eða 2500 svissneska framka eða sem svarar 378 þúsund krónum. Það var hins vegar fellt.