c

Pistlar:

30. ágúst 2020 kl. 10:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sundabraut aftur og aftur

Þeir sem hafa lesið pistla mína hér hafa væntanlega tekið eftir að Sundabraut hefur verið alloft til umræðu og hér ítrekað verið bent á mikilvægi þess að ráðast í lagningu hennar. Segja má að málefni Sundabrautar hafi legið í láginni þar til Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerði hana að umræðuefni á opnum fjarfundi efnahags- og viðskiptanefndar um skýrslu peningastefnunefndrar Seðlabanka Íslands til Alþingis. Það var þarft hjá Ásgeiri að taka málið á dagskrá en um leið hefur verið eftirtektarvert að sjá viðbrögð við ummælum hans. Í raun kostulegt að fylgjast með viðbrögðum eins nefndarmanna, Smári McCarthy, sem treysti sér ekki til að ræða málið þegar það kom upp á fundinum en birti þess í stað Facebook-status strax í kjölfarið þar sem hann sagði ummæli Ásgeirs „galin“ og að hann væri síður en svo sérfræðingur í málinu! Svo mikið fyrir þau umræðustjórnmál.sundabrlega

Hvað um það. Það hefur í gegnum tíðina komið skýrt í ljós að ýmsir fulltrúar meirihlutans í Reykjavík og pólitískir fylgifiskar telja lagningu Sundabrautar óþarfa og beinlínis vinna að því að leggja stein í götu framkvæmdarinnar. Skiptir litlu þó hún sé hluti af til þess að gera nýlegu samkomulagi milli ríkis og Reykjavíkurborgar og hafi verið í Aðalskipulagi Reykjavíkur síðan 1985 eða í 35 ár. Aftur og aftur hafa verið gerðar skýrslur og samþykktir um hana sem í stórum dráttum eru sammála um mikilvægi Sundabrautar og þau tækifæri sem felast í lagningu hennar. Það eina sem hefur skort á er að orðum fylgi athafnir.

Blint hatur gagnvart einkabílnum

Það er sérlega eftirtektarvert að sjá þau rök sem eru sett fram af Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, formanni skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. Þar er greinilegt að hún velur það sem hentar í umræðunni og augljóslega er hún að vinna gegn því að Sundabraut verði lögð. Furðulegt að hún telji ársgamla skýrslu einhverja staðfestingu þess að óheppilegt sé að leggja Sundabraut. Þvert á móti eins og bent var á hér í pistli við það tilefni. Undir liggur einhverskonar furðuleg andstaða við einkabílinn sem formaðurinn hefur fjandskapast við lengi. Spyrja má hvort skipulagsyfirvöld ættu ekki að vera að huga að hagsmunum allra í samfélaginu í stað þess að fjandskapast við þann samgöngumáta sem langflestir landsmenn hafa valið sér? Þessi fjandskapur birtist aftur og aftur og þá meðal annars í langvarandi og viðvarandi framkvæmdastoppi umferðamannvirkja í Reykjavík sem virðist miða að því að torvelda þeim sem hafa valið einkabílinn að nota hann. Sundabraut er eitt þessara mála. Er nú svo komið að ónauðsynlegar þrengingar torvelda umferð og bílastæðum í miðborg Reykjavíkur fækkar hratt. Þetta veldur fjölda fólks miklum óþægindum og erfiðleikum.

En Sundabraut er mikið meira en bara vegur. Með henni skapast öryggi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins en ótækt er að hafa aðeins eina leið úr bænum til vesturs og norður. Þá er í verkefninu falið mikið tækifæri til uppbyggingar og það er væntanlega það sem seðlabankastjóri hafði í huga þegar hann sagði að vandinn við innviðafjárfestingar sem þessa væri gjarnan tæknilegur en ekki peningalegur og fælist í því að það tæki langan tíma að undirbúa þær. „Við getum hæglega fjármagnað þetta,“ sagði seðlabankastjóri. Hann ætti að vita það!