c

Pistlar:

6. september 2020 kl. 21:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Chicago, óeirðir og sagan

Á síðu Wikipedíu um bandarísku stórborgina Chicago segir að lengst af á 20. öldinni hafi borginni verið stjórnað af demókrötum og að hún hafi verið undirlögð af skipulagðri glæpastarfsemi og spillingu. Margir hafa hugsanlega talið að ástandið hafi batnað við dauða Al Capone (1899-1947) en því miður er það svo enn að Chicago er sögð vera spilltasta borg Bandaríkjanna. Er talið að samfélagslegur kostnaður af þessu spillingarástandi fyrir borgarbúa sé um 500 milljónir Bandaríkjadala á ári. Chicago er að margra dómi ein af glæsilegri borgum Bandaríkjanna og sú þriðja fjölmennasta, næst á eftir New York og Los Angeles og það þrátt fyrir að íbúum hafi fækkað þar síðan hún var fjölmennust upp úr 1950. En glæpir og óstjórn hafa sett mark sitt á þessa borg sem hefur sannarlega margt til brunns að bera, vinsæl meðal ferðamanna og er að margra dómi ein líflegasta borg Bandaríkjanna þegar kemur að menningu og mannlífi.cicago

Ástandið í Chicago varð með eindæmum í borgarstjóratíð Richard Joseph Daley (1902-1976) en hann var af írskum verkamannaættum og tengdur skipulagðri glæpastarfsemi. Í þá tíð voru margar af stóru borgum Bandaríkjanna undirlagðar af slíkum klíkum og var til dæmis ástandið í New York mjög slæmt allt fram á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Á Netflix má finna áhugaverða heimildarþætti um glæpaklíkur New York. En þegar Daley var borgarstjóri í Chicago var Daniel David Rostenkowski (1928-2010) ein valdamesti maður borgarinnar en hann sat á þingi fyrir demókrata og var formaður fjárlaganefndar þingsins. Hann réði lögum og lofum í borginni ásamt Daly og Jon Burge lögreglustjóra (1947-2018). Allir voru þeir demókratar eins og áður sagði og að margra dómi harðsvíraðir og rótspilltir glæpamenn. Rostenkowski var sá eini sem fór í fangelsi og var þó talinn skástur þeirra þriggja að því leyti að hann var líklega ekki morðingi!

Viðvarandi hallarekstur

Demókratar hafa haldið áfram að stýra borginni á 21. öldinni og hún hefur oftar en ekki rambað á barmi þess að verða gjaldþrota eins og var rakið hér í pistli fyrir nokkrum misserum. Borgarbúar hafa engu að síður ekki treyst sér til að skipta um stjórnendur en í síðustu borgarstjórnarkosningum komust sex sósíalistar inn borgarstjórn sem er mjög óvenjulegt í bandarískum stjórnmálum. Um leið var lögfræðingurinn Lori E. Lightfoot kosinn 56 borgarstjóri Chicago en hún er demókrati eins og forverar hennar. Hún hafði starfað sem saksóknari rétt eins og Kamala Harris, varaforsetaefni Joe Bidens, en það er algengur bakgrunnur margra sem ná frama í stjórnmálum vestanhafs. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að kosningabarátta Lori gekk út á siðbót og ábyrg stjórnmál um leið og hún lofaði að skapa öllum borgarbúum jöfn tækifæri. Það má segja að hún hafi tekist á við ærið verkefni en halli á rekstri Chicago hafði náð nýjum hæðum og þegar hún tók við nam hallinn um 838 milljónum Bandaríkjadala. Eitt fyrsta verk Lori var að tilkynna að lágmarkslaun í borginni yrðu 15 dalir og á það að verða að veruleika á næsta ári.lori

Eitra líf heilu kynslóðanna

Það er stundum erfitt að gera sér grein fyrir ástandinu í hinum einstöku hverfum borgarinnar en fyrir nokkrum árum sýndi Ríkissjónvarpið heimildarmyndina Draumafangari (Dreamcatcher) sem gerð var 2015. Hún var um baráttu Brendu Myers-Powell, sem var vændiskona í Chicago í 25 ár, þegar hún snéri við blaðinu eftir að hafa hafnað á spítala í enn eitt skiptið. Brenda stofnaði og stýrði góðgerðarsamtökum sem aðstoðuðu unga þolendur vændis að losna úr klóm iðnaðarins og fóta sig að nýju. Myndin var sláandi og ótrúlegt að sjá það sem viðgekkst í hverfum blökkumanna í borginni þar sem misnotkun, glæpir og fíkniefnaneysla eitra líf heilu kynslóðanna. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að ástand sem þetta sé látið viðgangast en engin virðist treysta sér til þess að berjast gegn þessu og barátta Brendu er fyrst og fremst til að milda líf þeirra sem verst standa.

Þegar þetta er haft í huga er kannski ekki skrítið að staðan sé eldfim og viðkvæm víða í Chicago eins og hefur birst undanfarin misseri. Lori E. Lightfoot á því mikið verk fyrir höndum ef henni á að takast að breyta því sem félagar hennar í demókrataflokknum gátu ekki gert. Þess má geta að söngvarinn Kanye West ólst upp í Chicago og hefur orðið tíðrætt um ástandið þar í söngvum sínum. Lag hans Homecoming er þannig einn óður til borgarinnar.

Drápið á Floyd og óeirðir

En ofbeldi er viðloðandi í Chicago og dagblaðið The Chicago Tribune heldur úti síðu þar sem má fylgjast með hvar í borginni drápin fara fram. Í kringum þjóðhátíðardag Bandaríkjanna höfðu samtals 1.901 verið skotnir í Chicago eða 550 fleiri en 2019. Nýleg talning segir að skotárásir séu komnar upp í 2882 og 536 morð hafa verið framin í borginni það sem af er ári. Glæpaklíkur ráða stórum hlutum borgarinnar en nýlega var fullyrt að það væru um 117.000 meðlimir í um það bil 55 þekktum glæpaklíkum borgarinnar sem gæti nálgast að vera 2 til 3% borgarbúa.

Það er inn í þetta ástand sem óeirðir og ofbeldi sumarsins í Bandaríkjunum berst. Þegar George Floyd var drepinn af lögreglunni í maí var ljóst að það myndi snerta hina viðkvæmu stöðu í Chicago. Borgin er ein 12 borga sem settu á útgöngubann til að koma í veg fyrir gripdeildir og skemmdaverk. Þetta var viðkvæmt ástand því samfara þessu gagnrýndi Lori Lightfoot forsetann, Donald Trump, harðlega fyrir sína framgöngu í málinu. Af tvíti hennar að dæma á hún margt óuppgert við forsetann. Hún neyddist hins vegar til þess í lok maí að biðja ríkisstjórann í Illinoi, J.B. Pritzker, um að senda inn þjóðvarðliða til að skakka leikinn. Það var í fyrsta sinn í 52 ár sem slíkt var gert, eða allt síðan miklar óeirðir áttu sér stað árið 1968. Til þessa er talið að tjón í Chicago vegna óeirðanna í kjölfar drápsins á George Floyd sé á milli 125 til 150 milljónir dala. Það var eitthvað sem borgarbúar máttu illa við.