c

Pistlar:

16. september 2020 kl. 21:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjávarútvegurinn og auðlindaarðurinn

Enn og aftur erum við minnt á hve útbreidd vanþekking er hér á landi um málefni sjávarútvegsins. Hugsanlega er það gjaldið sem við þurfum að greiða fyrir að hafa byggt upp borgarhagkerfi þar sem stór hluti íbúanna hefur ekki lengur innsýn í hvað fellst í verðmætasköpun grunnatvinnuvega. Við stærum okkur af því að hafa byggt upp öflugt velferðakerfi og sinna menningu- og listum af alúð en höfum um leið gleymt því hvaðan verðmætin til að standa undir því koma. Því finnst stórum hluta landsmanna allt í lagi að niðurgreiða vinnu ofurríkra kvikmyndamógúla sem fljúga til landsins á einkaþotum en telur um leið nauðsynlegt að auka álögur á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Bætir svo um betur með því að halda því fram að það sé hægt að byggja sem svarar tveimur Hörpum á ári fyrir þá fjármuni sem að skaðlausu megi taka út úr sjávarútveginum. Og gleyma þá í leiðinni að skattgreiðendur landsins þurfa árlega að greiða milljarða með slíkum húsum þegar þau eru risin, enn erum við nefnilega að láta launafólk greiða fyrir hámenningu hinna útvöldu.sjavarkör

Vinnubrögð lýðskrumarans?

Í nafni Stjórnarskrárfélagsins þurfum við að horfa á unga leikara lesa upp verstu rullur lífsins. Þetta minnir okkur hins vegar á að það er ekki endilega skynsamlegt að taka marka á fólki sem hefur lifibrauð sitt af því að lesa upp texta sem aðrir rétta þeim. En með aðferðum heilaþvottarins er ungt fólk dregið á þennan vagn lýðskrumsins með loforðum um að það bíði gull og grænir skógar við enda regnbogans, þar sem „nýju“ stjórnarskránna er að finna ef hún finnst þá yfir höfuð. Hvað afhjúpar betur vinnubrögð lýðskrumarans en það að ætla að reyna að blása lífi í vonlitla undirskriftarsöfnun á lokametrunum með því að nýta sér Samherjamálið á þessari stundu?

Auðlindaumræða á villigötum

Fyrir stuttu benti pistlaskrifari á að Íslendingum sem öðrum væri hætt við oftrú á því sem mönnum er tamt að tala um sem auðlind og sagði. „Það er einhvernvegin þannig að þeir sem hafa minnstan framkvæmdahug eru mest uppteknir af verðmæti auðlinda, hvernig sem þær eru skilgreindar. Vissulega er verðmæti öllu því sem Íslandi tilheyrir, það getum við sagt með stolti. En peningaleg verðmæti auðlinda eru ofmetin um leið og peningaleg verðmæti athafnamennsku og framkvæmdahugar eru vanmetin. Þjóð sem heldur að hún eigi eitthvað inni vegna auðlindanna einna er á miklum villigötum.“

Sá hópur sem telur nú að hann geti tekið meira út úr auðlindinni með því að skattleggja þá sem nýta hana enn meira er á villigötum. Hann er dæmdur til að spilla því verki sem hefur verið unnið og er daglega unnið í sjávarútveginum. Það er kannski tilgangslaust að rifja upp að Íslendingar reka einir í heiminum sjávarútveg sem er ekki studdur í bak og fyrir af skattgreiðendum. Þetta hefur orðið enn skýrar á tímum COVID-19 veirunnar þar sem flest ríki Evrópu hafa neyðst til að dæla fjármunum í sjávarútveg sinn. Til þess að geta verið samkeppnishæfur og haldið áfram vöruþróun sem til er litið þarf sjávarútvegurinn að hafa kraft til að fjárfesta og draga til sín fjármagn. Það gerist ekki ef honum er tekið meira blóð en hann þolir. Við höfum miklu að tapa ef rangar ákvarðanir eru teknar varðandi sjávarútveginn. Því er brýnt að ræða mál hans út frá skynsemi.

Það er gæfa okkar Íslendinga að við höfum leyft sjávarútveginum að þróast á eigin forsendum, þó með þá grunnhugsun að vernda auðlindina og tryggja sjálfbærni hennar. Þannig hefur sjávarútvegurinn tekist á við nauðsynlegar tæknibreytingar og kröfur um hagræðingu. Virðing fyrir hráefninu hefur aukist jafnt og þétt og nú er áherslan á nýtingu, vöruvöndun, ferskleika, gæði og markaðsstarf. Vilja menn bylta þessu í nafni byltingastjórnaskrár?