c

Pistlar:

30. september 2020 kl. 21:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Unity-ævintýrið og ójöfnuður

Íslenskir fjölmiðlar hafa undanfarið fylgst með gengi hlutabréfa Unity Software af vaxandi áhuga. Félagið var skráð í kauphöll New York 18. september síðastliðinn. Útboðsgengið var 52 Bandaríkjadalir og hefur virði hlutabréfanna því hækkað um 90% síðan þá. Lengst af var það fyrst og fremst Viðskiptablaðið sem sýndi þessu áhuga en nú hafa aðrir og alvöruminni fjölmiðlar tekið við boltanum. Ástæðan er þátttaka Davíðs Helgasonar í þessu Unity-ævintýri en hann er einn af þremur stofnendum félagsins. Hann á um fjögur prósenta hlut í félaginu eða um 10,4 milljónir hluta. Miðað við hæsta gengi bréfanna var hlutur hans virði um 144 milljarða króna. Það rokkar sjálfsagt til um tugi milljarð á dag þessar vikurnar!unity

Í einum fjölmiðli var sagt að Davíð Helgason sé ríki Íslendingurinn sem fæstir hafa heyrt um áður! Hann hafi ekki verið sérstaklega áberandi á Íslandi og hefur verið þekktastur hingað til fyrir að vera hálfbróðir Egils Helgasonar sjónvarpsmannsins góðkunna. En Davíð er líklega næstríkastur allra núlifandi Íslendinga og er kominn inn á lista tímaritsins Forbes um ríkasta fólk heims. Davíð er einn stofnenda Unity sem framleiðir hugbúnað fyrir tölvuleiki en hlutabréfin hafa hækkað gífurlega eftir að viðskipti með þau hófust.

Félagið Unity var stofnað í Kaupmannahöfn og starfaði Davíð sem forstjóri í nær 12 ár eða frá árinu 2003 til 2014 og þá var félagið orðið verðmætasta netfyrirtæki Danmerkur. Í dag er Unity Technologies metið á 126 milljarða Bandaríkjadala eða andvirði um 3.600 milljarða króna. Það hefur 45-faldast í verði síðan 2017.

Ójöfnuðurinn

Þetta er í raun ótrúlegt ævintýri en hefur því miður eina skuggahlið. Eignaaukningin hefur sett Gini-stuðulinn í Danmörku á hliðina! Félag eins og Unity er í raun dæmi um hvernig reiknireglur Gini-stuðulsins geta virkað. Þarna hefur orðið til fyrirtæki á um það bil 20 ára tímabili sem lengst af var bara að veita nokkrum frumherjum vinnu. Smám saman óx það, fjárfestar komu inn í félagið, tekjur jukust en það hafði ekkert markaðsvirði. Jú, sjálfsagt hafa fjárfestar metið það nokkuð í viðskiptum sínum en með ákveðinni einföldun þá fer það úr því að vera verðlaust í að vera 3600 milljarða virði. Nánast á einni nóttu. Og nú geta frumherjarnir, eins og Davíð Helgason, hlegið alla leiðina í bankann og hæglega selt hluta af eign sinni og hafa sjálfsagt gert það í gegnum skráningaferlið. Óréttlátt? Já, svona virkar kapítalisminn, það sem áður hafði takmarkað verðmæti hefur nú verðmæti á virkum hlutabréfamarkaði þar sem hlutir ganga kaupum og sölum.

Tilfallandi kringumstæður

Heimspekingurinn Immanúel Kant sagði: „Því ójöfnuður í velmegun manna stafar einungis af tilfallandi kringumstæðum. Ef ég er ríkur þá get ég bara þakkað það því að kringumstæður hafa verið hagstæðar mér eða einhverjum fyrirrennara mínum. Óháð öllum kringumstæðum verður að hugsa um heildina." (Über Pädagogik, 1803)

Hvað fellur undir tilfallandi kringumstæður getur verið erfitt að segja en vaxandi ójöfnuður í heiminum getur verið til marks um vöxt félaga eins og Unity. Við getum í raun tekið öll verðmætustu félög Bandaríkjanna (og Kína) í dag og sagt að þau hafi fengið markaðsverðmæti á síðustu 20 árum. Það sem var þrautarganga frumherjanna verður nú að seljanlegu verðmæti sem eykur um leið ójöfnuð samkvæmt reiknireglu Gini-stuðulsins (e. Gini-index) sem mælir í einni tölu milli 0 og 100 hvernig samanlagðar ráðstöfunartekjur á neyslueiningu allra einstaklinga í landinu dreifast. Hann væri 100 ef sami einstaklingur hefði allar tekjurnar en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur.

Við getum huggað okkur við að þetta er ekki að gerast á Íslandi því söluhagnaður er hverfandi hluti tekna fólks hér á landi og fjárfestar líða enn eitt skipti þjáningar kreppu og samdráttar. Sem auðvitað dregur úr ójöfnuði því sælt er sameiginlegt skipbrot!