c

Pistlar:

4. október 2020 kl. 17:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Farsóttarbylgjur efnahagslífsins

Fjárlagafrumvarpið liggur nú fyrir og búið er að setja Alþingi. Um leið er verið að herða samskiptahöft í landinu vegna COVID-19 faraldursins. Við erum stödd í bylgju þrjú og farsóttarlæknir talar um að bylgja fjögur hringi inn jólin. Því miður koma fáar góðar fréttir úr þeirri áttinni um þessar mundir. Eftir því sem farsóttarbylgjunum fjölgar er hætt við að fólk missi móðinn, sérstaklega þegar verið er að herða og slaka á sóttvarnakröfum og senda þannig mismunandi skilaboð. Líklega er verst að loka skólum og líkamsræktarstöðvum og gera þannig ungu fólki erfiðara að halda röð og reglu á sínu lífi.fjarel

En aftur að fjárlagafrumvarpinu en það staðfestir það sem áður hefur verið sagt. Stjórnvöld ætla að gera sitt besta til þess að prenta sig út úr vandanum og gríðarlegur hallarekstur er í kortunum næstu misseri. Það er ekki eingöngu í þágu ríkisins sem seðlaprentvélarnar rúlla núna, sveitarfélögin eru í slæmri stöðu með öll sín lögbundnu verkefni og ónógar tekjur eins og vakin var athygli á hér fyrir stuttu. Ríkið ætlar þeim fimm milljarða í frumvarpinu en þau telja sig þurfa 50 milljarða. Líklega á hall fjárlagafrumvarpsins aðeins eftir að aukast í meðförum þingsins. Lausara taumhald peningastefnunnar segir á máli sérfræðinga en þessu má líkja við að það sé opin reikningur á barnum. Við sjáum að á vinstri væng stjórnmálanna bíða stjórnmálamenn sem eru tilbúnir að herða enn frekar á seðlaprentunni. Það er fólkið sem trúir á þá lausn að ráða fólk til hins opinbera til þess að takast á við atvinnuleysi.

Að deila kjörum

En því miður virðist fátt annað í stöðunni en að auka hallarekstur ríkisins núna, við verðum að treysta á að þetta úrræði komi okkur yfir versta hjallann áður en við náum viðspyrnu í hagkerfinu. Alsendis óvíst er að það verði á næsta ári og vel má vera að áætlanir um hagvöxt, eins og þær birtast í frumvarpinu, séu reistar á bjartsýni. Á móti vegur að við getum reynt að berjast við verðbólgu, halda vöxtum lágum og vernda störfin í lengstu lög. En til þess að það sé unnt þurfa aðilar vinnumarkaðarins að ná samtali um hvert stefnir. Því miður virðast þröngsýni og skammsýni vegast á innan verkalýðshreyfingarinnar en það má hins vegar einnig segja að stjórnendur fyrirtækja í landinu verði að sýna á áþreifanlegan hátt að þeir deili kjörum með fólkinu í landinu.

Standast forsendur frumvarpsins

Vitaskuld má hafa efasemdir um að ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins standist, bæði tekju- og útgjaldamegin. Það er einfaldlega vegna þess að stærsta breytan, þróun veirunnar, er alsendis óútreiknanleg. Ekki aðeins hér innanlands heldur einnig erlendis. Auðvitað er hætt við því að þetta fordæmaleysi geri það að verkum að menn hætti að sýna aðgæslu og herði bara á seðlaprentunni í hvert sinn sem verri tölur birtast og seinki þannig endurkomunni.

Hvað er til ráða? Jú, það óþarfi að deila við þá meginhugsun fjárlagafrumvarpsins að reyna að þrýsta samfélaginu í gegnum skaflinn með stórtækum aðgerðum á sviði peningastefnunnar. En það eru margar aðgerðir sem má huga að, sparnaður á ýmsum sviðum hins opinbera er eitt, en einnig að stuðla að því að atvinnurekstur haldist við í landinu. Þá er auðvitað spurning hvað er hægt að gera á sviði atvinnusköpunar, við erum jú land sem hefur margt að bjóða erlendum fjárfestum, meðal annars þeim sem hugsa til langs tíma á sviði orkufrekrar framleiðslu. Þannig er hálfbyggt álver í Helguvík, vill einhver taka það í notkun ef orka býðst á ásættanlegu verði? Þorum við að feta þá braut, núna þegar við þurfum sannarlega á erlendri fjárfestingu að halda?