c

Pistlar:

14. október 2020 kl. 14:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fiskeldi í örum vexti

Það er vinsælt umræðuefni að benda á að Íslendingar þurfa að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf landsins. Þetta hefur verið gert í nokkrum skrefum en áfram má þó auka við. Lengst af voru það fyrst og fremst landbúnaður og sjávarútvegur sem stóð undir atvinnulífinu og síðar var það fyrst og fremst sjávarútvegsins að afla landsmönnum gjaldeyristekna, svona fyrir utan það tillegg sem barst með hernum á sínum tíma. Í kjölfar hruns síldarinnar, sem hafði skapað okkur 25% af útflutningsverðmætum, var reynt að renna stoðum undir stóriðju sem nýtti innlenda orkugjafa. Þessi grein óx smátt og smátt og varð síðan að mikilvægri stoð undir gjaldeyristekjur landsmanna. Í kjölfar bankahrunsins 2008 reis ferðamannaiðnaðurinn á undra skömmum tíma og varð að lokum stærsta gjaldeyrisuppspretta okkar. Samhliða þessu varð til iðnaður í landinu, sem meðal annars hafði bakland í að þjónusta stóriðjuna og sjávarútveginn. Þessi iðnaður er oft vanmetin en skapar mörg störf og miklar tekjur.laxlax

Útflutningsverðmæti að stóraukast

En við þurfum sárlega fleiri stoðir undir gjaldeyristekjur okkar. Þar er eðlilegt að horfa til fiskeldis en við sjáum að nágranar okkar, Færeyingar og Norðmenn, hafa náð góðum tökum á slíkri starfsemi og við erum langt á eftir þeim. Við njótum hins vegar góðs af þekkingu Norðmanna sem hafa verið að fjárfesta hér á landi. Nú segir í frétt Hagstofunnar að fiskeldi á Íslandi hafi aukist í tonnum talið um 77% á milli áranna 2018-2019, laxeldi tvöfaldaðist og bleikjueldi jókst um þriðjung. Útflutningsverðmæti eldisfisks jókst um rúmlega 11 milljarða á milli ára, úr 13 milljörðum króna árið 2018 í 24 milljarða árið 2019.

Eins og staðan er núna er greinin ein af fáum útflutningsgreinum sem eru í vexti um þessar mundir. Hefur vægi greinarinnar í útflutningstekjum þjóðarbúsins aukist nær stöðugt síðasta áratuginn. Miðað við útflutningsverðmæti sjávarafurða voru eldisafurðir komnar í tæp 10% en miðað við verðmæti vöruútflutnings alls var verðmæti þeirra rúm 4%. Miðað við áætlanir fiskeldisfyrirtækja eru horfur á enn frekari aukningu í framleiðslu á eldisfiski á næstu árum. Er því óhætt að segja að hér sé að verða til öflugur grunnatvinnuvegur. Hér hefur áður verið fjallað um tækifæri í fiskeldi um leið og brýnt er að það vaxi í takt við getu vistkerfisins hér við land.

Fiskeldi í stað álframleiðslu

Nú í morgun var upplýst að Samherji og Norðurál hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup Samherja á lóð og byggingum Norðuráls við Helguvík. Sjávarútvegsfyrirtækið hefur í hyggju að hefja laxeldi á landi, svokallaða landeldisstöð, og nýta til þess byggingar Norðuráls sem upphaflega átti að nota fyrir álver en ekki fékkst raforka fyrir.

Í tilkynningu Samherja kemur fram að félagið hefur hafið frumathugun á aðstæðum til laxeldis í Helguvík og er niðurstöðu að vænta fyrir áramót.

Á Suðurnesjum er Samherji fiskeldi þegar með sláturhús og vinnslu í Sandgerði, eldisstöð á Stað við Grindavík og eldisstöð á Vatnsleysuströnd. Samherji fiskeldi er svo að auki með landeldi á laxi á Núpsmýri við Kópasker og seiðastöð á Núpum í Ölfusi. Starfsemi félagsins er því þegar umsvifamikil á þessu sviði.

Samherji fiskeldi hefur einkum lagt áherslu á landeldi í sínum rekstri og er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með tæplega 3.800 tonn árlega. Þá framleiðir félagið um 1.500 tonn af laxi. Næstu vikur mun félagið kanna hagkvæmni og möguleika á því að byggja landeldisstöð við eignirnar sem nú standa í Helguvík. Forvitnilegt verður að sjá hvernig það þróast.

Um leið hefur verið greint frá áhugaverðu hlutafjárútboði Arnarlax sem líklega mun staðfesta hvort áhugi íslenskra fjárfesta er á þessari nýju grein.