c

Pistlar:

16. október 2020 kl. 12:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Aldrei nægilega heilbrigður

Það liggur einhvern veginn í hlutarins eðli, að þegar fólk er spurt hvort það vilji verja meiru fé til heilbrigðismála, segir það einfaldlega já. En þannig háttar til að það er eiginlega aldrei hægt afmarka hve miklu eigi að verja til heilbrigðismála því þarfirnar eru endalausar. Gamansamur læknir sagði eitt sinn að skilgreiningin á heilbrigðum manni væri sú að það væri einfaldlega maður sem ekki hefði verið rannsakaður nóg! Það er alltaf hægt að rannsaka meira og lækna meira. Þó að baki læknisfræði séu margvísleg og merkileg vísindi þá sést af faraldrinum núna að það er enn hægt að taka allt mannkynið nánast í gíslingu. Að sum leyti erum við enn að ferðast um í myrkri eins og grein þríeykis sóttvarna í Fréttablaðinu í gær sýnir ágætlega. Við trúum því og treystum að yfirvöld séu að reyna að taka eins upplýstar og skynsamar ákvarðanir og hægt er að taka. Um leið getum sem hægast dregið í efa þessar ákvarðanir því það er ekki til neinn leiðarvísir. Þegar grein þríeykisins er lesin sést að þau sjálf hafa sínar efasemdir sem eykur bara virðinguna okkar fyrir þeim.heilb

11 prósent VLF til heilbrigðismála

Píratar hafa það fyrir sið að spyrja kjósendur um hvernig þeir vilja skipta okkar sameiginlegu fjármálum í upphafi fjárlagavinnunnar. Ágæt framtak, en segir það okkur eitthvað að alltaf vilja allir auka framlög til heilbrigðismála? Er það ekki svolítið eins og að allir vilja betra veður? Þetta tónar ágætlega við undirskriftasöfnun Kára Stefánsson fyrir nokkrum árum sem gekk út á að að ríkið eyði ellefu prósent af vergri landsframleiðslu (VLF) í heilbrigðismál. Sú söfnun fékk góðar undirtektir og varð að lokum ein stærsta undirskriftasöfnun Íslandssögunnar. En sagði hún eitthvað? Hvaða merkingu hefur það að verja 11 prósentum VLF til heilbrigðismála? Jú, að setja verulega meiri fjármuni þangað á kostnað einhverra annarra verkefna. Það fylgdi bara aldrei sögunni hvaða verkefni ættu að víkja.

Heilbrigðisráðherra sagði í grein í Fréttablaðinu í vikunni að framlög til heilbrigðismála yrðu aukin um ríflega 15 milljarða króna á næsta ári, samkvæmt frumvarpi til fjárlaga, að frátöldum launa- og verðlagsbótum. Þetta segir hún vera tæplega 6 prósent raunaukningu frá fjárlögum þessa árs. Einnig segir hún að á tímabili fjármálaáætlunar aukist fjárframlög til heilbrigðismála samtals um 16,1 prósent, eða 41,1 milljarða króna. Það sé raunhækkun upp á 28,4 milljarða króna eða 11,1 prósent. Nú helmingur þessarar aukningar fer í framlög til uppbyggingar nýs Landspítala en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nema það tæpum 7 milljörðum króna en samtals renna 12 milljarðar til verkefnisins árið 2021. Nú kann það að virka talsverð aukning en þetta er til nýframkvæmda, verkefni sem er búið að vera að undirbúa í nokkra áratugi og virðist enn gerast á hraða snigilsins.

Fjórðungur ríkisútgjalda

Samtals nema framlög til málaflokka sem heyra undir heilbrigðisráðherra um 283,5 milljörðum króna á næsta ári, en það er um fjórðungur af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verða útgjöld til heilbrigðismála um 9,2% árið 2021 að því er kemur fram í grein heilbrigðisráðherra. Það er aukning árinu í ár þar sem hlutfallið var 9 prósent og sem heilbrigðisráðherra segir verulega aukningu frá árinu 2019 þegar sambærileg tala var 8 prósent. Ráðherra segir að allt þetta sýni að við erum að sækja fram í heilbrigðismálum og lofar að halda því áfram. Nú er það svo að landsframleiðsla er að dragast saman þessi ár sem gæti skýrt þessa hlutfalslegu aukningu. Hvað verður svo, getum við haldið áfram að auka útgjöld til heilbrigðismála um leið og hagkerfið þarf að vinna sig út úr áfalli faraldursins? Er það raunhæft og er skynsamlegt að láta sem svo sé?