c

Pistlar:

5. nóvember 2020 kl. 17:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fox News sigraði í baráttunni um áhorfendurna


Fréttamaður Ríkisútvarpsins, staddur í Bandaríkjunum, vegna forsetakosninganna kallaði Fox fréttastofuna „einkafréttastöð Bandaríkjaforseta“ í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag. Hvað sem líður svona fullyrðingum þá er ljóst að Fox News fékk langmest áhorf á sitt kosningasjónvarp nú í kosningunum og er sannkallaður sigurvegari kosningasjónvarpsins. Samkvæmt mælingum horfðu 13,8 milljónir manna á kosningasjónvarp Fox News. CNN var í öðru sæti með 9,1 milljónir áhorfenda og MSNBC með 7,3 milljónir áhorfenda. Þetta var kvöld kapalstöðvanna en reyndar er það svo að áhorf var minna nú en í síðustu forsetakosningum. Það eru sérstaklega gömlu (og áður stóru) stöðvarnar sem gjalda þess. ABC var með 6,1 milljón áhorfenda á sitt kosningasjónvarp, NBC með 5,6 milljón, þar næst Fox broadcast network með 3,3 milljónir, Fox Business með 366,000 áhorendur og CNBC aðeins með 117,000 áhorfendur.

Þetta er búið að vera öflugt ár hjá Fox sjónvarpsstöðinni og áhorf hefur verið á stöðugri uppleið. Á meðan hafa gömlu stöðvarnar, ABC, NBC og CBS mátt þola minna og minna áhorf. Sé það rétt hjá Ingólfi Bjarna Sigfússyni, fréttaritara Ríkisútvarpsins að Fox fréttastofan sé „einkafréttastöð Bandaríkjaforseta“ þá virðist hún ekki gjalda þess. En auðvitað er þetta rangt og hlutdrægt mat hjá fréttamanni Ríkissjónvarpsins, Fox stöðin var með mjög öflugt kosningasjónvarp núna, öfugt við hina döpru útsendingu sem Ríkisútvarpið bauð uppá í samstarfi við CBS.fox


20% minna áhorf en síðast

Samkvæmt mælingum Nielsen horfðu samtals um 56,9 milljónir manna á kosningasjónvarp í Bandaríkjunum nú í kosningunum. Það er 20% minna en í síðustu kosningum þegar 71,4 milljónir manna fylgdust með. Þetta er minnsta áhorf á kosningasjónvarp síðan 2004 þegar George W. Bush tryggði sér seinna kjörtímabilið í baráttunni við demókratann John Kerry. Til samanburðar má nefna að fyrir fjórum árum horfðu flestir á kosningasjónvarp NBC eða 12,1 milljónir áhorfenda. Þá var Fox News í öðru sæti með 11,5 milljón áhorfendur.

Þess má geta að Ólafur Teitur Guðnason, núverandi aðstoðarmaður ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gerði fréttaflutning Ingólfs Bjarna frá forsetakosningunum árið 2004 að umfjöllunarefni í fjölmiðlapistli Viðskiptablaðsins 27. ágúst 2004. Pistlarnir voru gefnir út í bók síðar. Þá hafði Ingólfur Bjarni tekið mjög einarða afstöðu með John Kerry sem hafði verið ásakaður um að hafa gert of mikið úr hetjudáðum sínum á vígvellinum í Víetnam. Af þeirri frásögn að dæma virðist Ingólfur Bjarni telja sig á heimavelli við að verja demókrata sem er nokkuð í takt við fréttaflutning hans núna frá Bandaríkjunum og dylgjum hans í garð Fox News.

Samkvæmt mælingu Nielsen dreifist áhorf á kosningasjónvarp á 21 sjónvarpsstöðvar, þar á meðal stóru stöðvarnar fjórar (ABC, CBS, NBC and Fox), þrjár stærstu kapalfréttastöðvarnar (Fox News, MSNBC and CNN), tvær viðskiptafréttastöðvar (Fox Business og CNBC), nokkrar stöðvar spænskumælandi fólks (Telemundo, Univision and Estrella) en aldrei hafa fleiri spænskumælandi kosið í bandarísku forsetakosningunum. Þá er ótaldar stöðvar eins og NBCLX, PBS, BET, BET Her, CNNe, Newsmax, Newsy, VICE og WGNA.

Áhorf núna skýrist að hluta til af því að fljótt varð ljóst að engin afgerandi úrslit fengjust á kosninganótt. Þá má sjá áframhald á þeirri þróun að ungt fólk leitar annað að upplýsingum en í hefðbundið sjónvarp. Þá voru stafrænar útsendingar á netinu einnig að draga til sín áhorf og þannig fékk CBSN, útibú CBS, talsverða umferð á meðan á talningu stóð kosninganóttina.