c

Pistlar:

16. nóvember 2020 kl. 22:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Reykjavíkurflugvöllur skapar tækifæri

Það er merkilegt að lesa sögu flugsins á Íslandi og hve miklu máli Reykjavíkurflugvöllur skiptir í allri þeirri sögu. Nú síðast má lesa áhugaverðar frásagnir af þessu í nýrri ævisögu Jóhannesar Einarssonar sem bókaútgáfan Ugla gefur út. Jóhannes stýrði meðal annars byggingu Hótels Loftleiða en upphaflega átti stór hluti hússins að fara undir flugrekstur en svo kom Keflavíkurflugvöllur til sögunnar. Þegar saga Jóhannesar er lesin og saga annarra frammámanna í íslenskri flugsögu sést hve gríðarlega mikilvægur Reykjavíkurflugvöllur hefur verið í þessari sögu. En sjáum við það þó þrengt sé að allri starfsemi á og í kringum völlinn en um 600 til 800 manns hafa atvinnu af honum í dag auk ýmissa afleiddra starfa.flugv

Því miður er það svo að núverandi borgarstjórnarmeirihluti horfir framhjá þeirri sögu sem flugvöllurinn á, þeirri atvinnu sem hann skapar og þó ekki síst þeim tækifærum sem í honum felast. Ekki er langt síðan að þáverandi borgarstjóri, Jón Gnarr, fékk í hendurnar undirskriftir ríflega 70 þúsund Íslendinga sem skrifuðu undir áskorun um að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. Þegar þeim var skilað þá sagði borgarstjórinn að hann hefði átt von á fleiri undirskriftum! En hvorki meira né minna en 28% kosningarbærra Íslendinga skrifuðu undir eftirfarandi: „Við leggjumst gegn þeim áformum að flugvallarstarfsemi víki úr Vatnsmýrinni og skorum á Reykjavíkurborg og Alþingi að tryggja öllum landsmönnum óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar.“ Þessi hópur heldur úti upplýsingasíðu sem stendur fyrir málefnalegri umræðu, öfugt við áróður borgarstjórnarmeirihlutans.

Hvassahraunsflugvöllur óheyrilega dýr

Það er nokkur atriði sem þarf að hafa í huga þegar horft er á flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Í fyrsta lagi kostar óheyrilegar fjárhæðir að leggja hann niður og reysa annan sambærilegan völl. Þær kostnaðartölur sem koma frá meirihlutanum í Reykjavík eru fráleitar. Að byggja upp nýjan alþjóðlegan varaflugvöll í Hvassahraun mun kosta hundruð milljarða króna. Allt tal um annað er bara til að villa um. Nú fara fram veðurfarsmælingar í Hvassahrauni og borgarstjóri sagði í klukkustundalöngu spjalli sínu á Rás 1 um helgina að þær væru allar lofsamlegar. Það á eftir að reyna á áreiðanleika þeirra fullyrðinga en eru veðurfarsmælingar það sem skiptir máli nú? Hafa náttúruöflin ekki verið að senda önnur varúðarmerki? Er hægt að horfa framhjá nýjum jarðhræringum á Reykjanesi og hugsanlegum áhrifum þeirra á flugvallarstæðið í Hvassahrauni? Margir jarðfræðingar hafa orðið til að benda á að þetta hljóti að hafa áhrif á fyrirhugaðan flutning og tala þó af varfærni. Auðvitað ætti þessi augljósa hætta vegna eldvirkni ein og sér að loka á hugmyndir um Hvassahraunsflugvöll. Og um leið benda á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar.

Þarf sess í aðalskipulagi

Það er mikilvægt að tryggja Reykjavíkurflugvelli sess í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar þangað til jafngóður eða betri kostur finnst og er tilbúin til notkunar. Hafa má í huga að borgarstjóri og samgönguráð skrifuðu undir samkomulag um Reykjavíkurflugvöll í nóvember 2019. Til þess að það samkomulag hafi einhverja merkingu þarf að tryggja vellinum framtíðarsess í aðalskipulagi Reykjavíkur.

Þegar flugvellinum hefur verið tryggður varanleiki er hægt að sækja fram aftur um leið og öryggi og festa færist yfir allt sjúkraflug. En þróun í flugi gerir það að verkjum að notkun vallarins getur aukist samfara því sem hann sinnir hlutverki sínu sem varaflugvöllur. Við sjáum að flugvélar verða stöðugt hljóðlátari og þurfa styttri flugbrautir. Stærsti flugvélaframleiðandi heims talar um að nýjar, mengunarminni og hljóðlátari þotur séu í hönnun. Hvað gæti Reykjavíkurflugvöllur gert í markaðssetningu ef flugi til okkar næstu nágrana, Grænlendinga og Færeyinga, væri beint um hann? Þar eru ánægjuleg tækifæri til að styrkja stöðu okkar sem samgöngu- og flugmiðstöð á Norður-Atlantshafinu, rétt eins og saga flugsins á Íslandi kennir okkur. Tækifærin eru í fluginu, nú sem fyrr.