c

Pistlar:

19. nóvember 2020 kl. 20:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslenski þorskurinn verðmætari en sá norski

Merkileg frétt birtist í Morgunblaðinu í dag en þar er sagt frá því að ís­lensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki búi til tölu­vert meiri verðmæti úr hverju lönduðu kílói af þorski en Norðmenn. Þetta má meðal ann­ars rekja til þess að meiri vinnsla á sér stað hér á landi auk þess sem meiri fjöl­breytni er að finna í fram­leiðslu afurða, að því er fram kem­ur í grein­ing­um sem Sea Data Center hef­ur birt að und­an­förnu og Morgunblaðið vitnar til.

Þetta kemur þeim sem fylgjast með íslenskum sjávarútvegi ekki endilega á óvart en er merkilegt í ljósi þess eilífa samanburðar sem er á íslenskum og norskum sjávarútvegi enda Noregur helsta samkeppnisland okkar þegar kemur að sjávarútvegi og þá sérstaklega veiðum og vinnslu á þorski. Staðreyndin er sú að Norðmenn hafa slitið á tengsl veiða og vinnslu öfugt við Íslendinga þar sem sjávarútvegsfyrirtækin eru með alla virðiskeðjuna. Það virðist skipta máli.fisksala

Sem dæmi um áhrif þess að slíta á sambandið milli veiða, vinnslu og markaðarins er að nær allur þorskafli Norðmanna kemur á land á þeim þremur mánuðum sem hentar útgerðinni að veiða fiskinn, en hentar mjög illa vinnslunni og neytendum. Norðmenn keppast einfaldlega við að ná í þorskinn þegar auðveldast er að sækja hann og greiða fyrir það dýru verði þar sem markaðurinn vill hann ekki á þeim tíma.

Íslendingar nýta afurðirnar betur

En víkjum aftur að nýrri skýrslu Sea Data Center sem Morgunblaðið gerir að umræðuefni. Munurinn milli landa kann að eiga sér marg­ar skýr­ing­ar en grein­end­ur Sea Data Center telja aug­ljóst að nýt­ing afurðar­inn­ar er mis­mun­andi milli ríkj­anna og þegar rýnt er í gögn­in má sjá að á fyrstu sjö mánuðum árs­ins var stærsta út­flutn­ings­var­an frá Nor­egi (meðal þorskaf­urða) heilfryst­ur þorsk­ur, næst á eft­ir var það salt­fisk­ur og síðan heill fersk­ur þorsk­ur. Á sama tíma­bili voru þrjár helstu út­flutn­ings­vör­ur ís­lenskra fyr­ir­tækja á þessu sviði fersk­ir skammt­ar, fros­in flök og frosn­ir skammt­ar.

Á undanförnum árum hefur meðalverð fyrir hvert útflutt kíló af þorski að jafnaði verið um 30% hærra frá Íslandi en Noregi. Ástæðan er sú að Íslendingar flytja einkum úr landi þorskafurðir sem eru að langstærstum hluta unnar heima fyrir á meðan Norðmenn fara augljóslega aðrar leiðir. Þannig hefur vinnslan hér á landi þróast í að vera stöðugt flóknari og í átt að ferskum afurðum sem seldar eru á hærra verði. Á hinn bóginn hafa Norðmenn dregið úr framleiðslu á unnum afurðum. Í auknum mæli hafa þeir selt þorskinn heilan úr landi, ferskan eða frystan, sem er þá hráefni til vinnslu í öðrum löndum. Vinnsla í landi í Noregi hefur einna helst verið á saltfiski eða skreið, en afar lítið hefur farið fyrir flakavinnslu. Hærra vinnslustig og þar með verðmætasköpun heima fyrir skilar sér því augljóslega í hærra verði fyrir hvert kíló af þorski flutt úr landi frá Íslandi en frá Noregi.

Ólík viðskiptalönd

Mishátt vinnslustig þorskafurða heima fyrir, og þar með ólík samsetning afurða í útflutningi, leiðir einnig til þess að helstu viðskipalönd landanna tveggja eru ólík og hefur þróunin þar verið nokkuð önnur. Í fréttabréfi SFS frá því fyrir stuttu mátti sjá að vægi franska markaðarins fyrir þorsk frá Íslandi hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum samhliða auknum áherslum íslenskra fyrirtækja á ferskar afurðir. Á sama tíma hefur útflutningur Norðmanna til Frakklands dregist verulega saman.sjávarutvegur

Norðmenn flytja orðið æ meira til Kína, en þar er aðallega um að ræða heilfrystan þorsk. Miðað við verðmæti nam útflutningur Norðmanna á þorskafurðum til Kína rúmum 10% á árinu 2019 en miðað við magn var vægið rúm 16%. Þorskur sem fluttur er út til Kína er því að langmestu leyti hráefni til vinnslu þar í landi. Að þeirri vinnslu lokinni er hann fluttur frá Kína og ratar þá jafnvel á disk neytenda í Evrópu.

Að geta fjárfest

Það gefur auga leið að þessi útflutningur á þorski til Kína snýst einkum um samkeppnishæfni, enda eru laun í Noregi mjög há í alþjóðlegum samanburði, líkt og á Íslandi. Vinnsla á þorskafurðum hefur þó haldist hér á landi, en til þess að viðhalda samkeppnishæfni hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ráðist í verulegar, og jafnframt nauðsynlegar, fjárfestingar í hátæknibúnaði fyrir fiskvinnslu. Sá búnaður er jafnframt að langmestu leyti íslenskur og þarf vart að nefna þau jákvæðu afleiddu áhrif sem slík fjárfesting hefur í för með sér innanlands. Allt skýrir þetta mikilvægi þess að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki séu fær um að fjárfesta hér heima eins og margoft hefur verið vikið að hér í pistlum.