c

Pistlar:

30. desember 2020 kl. 12:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Jón Arason: Biskup í heimi alþjóðaviðskipta

Sagnfræðingar henda gjarnan gaman að yfirlýsingu Actons lávarðar, prófessors við Cambridge, um að sá tími kæmi að menn hefðu rannsakað frumheimildir um tiltekna atburði það vel að ekki þyrfti að athuga þá sögu frekar. Þessi orð má setja í flokk með ummælum forstjóra bandarísku einkaleyfisstofnunarinnar McKinley, sem sagði árið 1899, að búið væri að finna upp allt sem hægt væri að finna upp og því væri rétt að leggja stofnunina niður!

Sagan er marglaga og stöðugt er verið að endurmeta og enduruppgötva hlut sem voru okkur ýmist huldir eða við gátum ekki sett í rétt eða skynsamlegt samhengi. Stundum er eins og hver kynslóð þurfi að endurmeta og endurskilgreina söguna uppá nýtt. Oft gerist þetta vegna hugmyndafræðilegra breytinga en stundum vegna nýrrar tækni eða starfsaðferða. Saga siðaskiptanna hefur þannig fengið nýja merkingu með umfangsmiklum forleifauppgreftri á gömlum klaustrum og er þar uppgröfturinn á Skriðuklaustri, undir umsjón Steinunnar Kristjánsdóttur, fyrirferðamikill. Sömuleiðis hafa rannsóknir fræðimanna eins og Vilborgar Ísleifsdóttur, sem stundum hefur verið vitnað til hér, haft mikil áhrif á mati á tímabilið fyrir og eftir siðaskiptin.Uppreisn Jóns Arasona - kápa

Uppreisn Jóns Arasonar

En nú fyrir jólin kom út stutt kver eftir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um sveitunga hans, Jón Arason, síðasta biskup kaþólskra hér á landi. Ásgeir gefur bók sinni heitið Uppreisn Jóns Arasonar og setur sögu hans og þau átök sem stóðu í kringum siðaskiptin í áhugavert hagsögulegt samhengi. Ásgeir er glöggur þegar kemur að hagsögulegri þróun og vakti fyrst athygli pistlaskrifara þegar hann hóf sem ungur maður að skrifa greinar um sögu byggðaþróunar á Íslandi í Viðskiptablaðið. Þar kvað við nýjan tón og Ásgeir hefur sýnt sig vera skarpan rýnanda þegar kemur að hagsögu.

Um Jón Arason hefur talsvert verið skrifað og í það minnsta tvær sögulegar skáldsögur til um hann, önnur eftir Torfhildi Hólm og hin eftir Ólaf Gunnarsson. Ásgeir leitar hins vegar eftir stærra samhengi varðandi lífshlaup Jóns. Hann segir þannig í bók sinni að þeir sem hafi ritað um siðaskiptabaráttuna hafi fæstir gefið nægilegan gaum að áhrifum af verslunarstríði Dana og Þjóðverja á innanlandsmálefni. Um þetta ræðir Ásgeir talsvert og varpar áhugaverðu ljósi á hagsögu þessa tíma. Við blasir að Íslendingar nutu þess að konungsvaldið var til þess að gera veikt fram að siðaskiptum og verslun við erlenda kaupmenn og sjófarendur blómstraði. Sagnfræðingar hafa kallað 15. öldina þá ensku sem er auðvitað sterk vísbending um umsvið enskra sjófaranda hér. Þar vegur þyngst höfuðrit Björn Þorsteinsson: Enska öldin í sögu Íslendinga sem kom út 1970.

Ríkir menn og verslun

Þegar kom fram á 16. öldina urðu Hamborgarkaupmenn einnig fyrirferðamiklir og Íslendingar höfðu margt fram að bjóða, þó aðallega fisk og brennistein. Margt stuðlaði að ágætri hagsæld á þessum tíma og klaustrin og biskupsstólarnir urðu umsvifamiklir, jafnvel svo að þar mátti greina vísi að þéttbýlismyndun. Hugsanlega er hægt að leyfa sér að segja að tíminn frá því þegar svartadauða hafði lokið sér af hér á landi í upphafi 15. aldar og fram til siðaskipta hafi verið uppgangstími þó sagnfræðingar deili um áhrif plágunnar á eignarhald á jörðum. En við sjáum þessi áhrif af umsvifum Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum (1395 -1448) sem nýtti sér viðskiptastríði á meginlandinu, nýja markaði fyrir íslenskar afurðir og veikt konungsvald eða ættum við að segja veikt miðstjórnarvald? Þetta opnaði áður óþekkta möguleika til auðsöfnunar og Björn ríki Þorleifsson (um 1408-1467), sem var hirðstjóri, riddari og bóndi á Skarði á Skarðsströnd, sýndi einnig að það var hægt að safna að sér umtalsverðum auði. Og saga Ólafar ríku Loftsdóttur (um 1410-1479), ekkju Björns, styður við það enda þau talin auðugust hjóna á Íslandi. Auður þeirra allra skapaðist að mestu af verslun við Breta þó einnig hafi menn efnast af yfirgangssemi, erfðum og almennu harðræði við aðra. Þetta var öld hinna sterku, eins og svo oft fyrr og síðar á Íslandi, þó mönnum héldist auðvitað misvel á þeim auði sem safnaðist.

En allt var þetta reist á veikum stoðum og um og eftir siðaskiptin varð pólitískur óróleiki meiri sem hafði áhrif á efnahag landsmanna. Versnandi tíðarfar og verslunareinokun bætti ekki þar úr þannig að það er eðlilegt að menn staldri við þá miklu efnahagslegu breytingu sem varð með siðaskiptunum. Voru þau til góðs eða ills? Hugsanlega er fánýtt að velta slíku fyrir sér og sannarlega er það ekki innlegg í sögu trúarbragða. En með siðaskiptunum breyttist hin pólitíska umgjörð sem hefur síðan mikil áhrif á efnahag landsmanna.

Endurreisnarmaður síns tíma

En það er persóna Jóns Arasonar sem er hér í forgrunni og saga átaka á Íslandi á 15. og 16. öld. Biskupstólarnir voru valdamiðjur þess tíma en valdaættirnar börðust um að koma sínu fólki að. Jón var ekki hluti af þessu ættarkerfi en reynir sannarlega að búa til eitt slíkt í kringum afkomendur sína. Jón Arason var sonur einstæðrar móður, ólst upp við sára fátækt en varð biskup aðeins 36 ára. Augljóst er af frásögnum að Jón var eftirtektarverður maður, nánast endurreisnarmaður síns tíma, reynir að efla menningu og listir, svona eins og staður og tími bauð uppá, yrkir sjálfur vísur og ljóð sem Ásgeir gerir ágætlega skil. En þrátt fyrir völd og umsvif misreiknar hann aðstæður og er handtekin og dæmdur til dauða árið 1550. Kaþólskan tapar stríðinu um Ísland rétt eins og í nágranalöndunum. En af skrifum Ásgeirs að dæma mátti ekki miklu muna. Jón byggði upp sín valdasambönd og hefði með heppni og meiri útsjónarsemi geta tryggt yfirráð fjölskyldu sinnar, í það minnsta á Norðurlandi. Reyndar blasir við að íslensku piltaherirnir höfðu lítið í erlenda atvinnuhermenn að gera og eftir aftöku þeirra feðga eru send tvö herskip hingað til lands, meðal annars til að kveða niður þann mótþróa sem enn mátti finna á Norðurlandi.

Jón og synir voru dæmdir til dauða fyrir landráð af umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara. Svikin fólust í að ætla að koma landinu undir hinn kaþólska Karl V. Þýskalandskeisara. Merkilegt var að Daði Guðmundsson, sem átti heiðurinn af því að handtaka þá biskupsfeðga, var sjálfur kaþólskur til dauðadags og ákallaði fagurlega Maríu mey í erfðaskrá sinni eins og Ásgeir bendir á. Það sýnir glögglega að baráttan snérist um margt annað en beinlínis hvar í átökum siðaskiptanna menn stóðu.

Ásgeir bendir réttilega á að Jón nýtti sér flokkadrætti og valdaátök þess tíma sér til framdráttar. Hann hafði gert bandalag við Hamborgarmenn sem voru ráðandi í Íslandsverslunin á þessum tíma. Þannig vantaði Evrópu prótein og byssupúður og Hamborgarar fluttu héðan fisk og brennistein með góðum hagnaði. Í staðinn fengu Íslendingar það aðgang að betra og meira vöruúrvali en áður. Jón Arason er veraldlegur í hegðun sinni þó augljóslega hafi hann einnig sterka trúarsannfæringu. Á þeim tíma urðu menn að sýna aðlögunarhæfni til að komast af. Hann tefldi djarft og galt fyrir með lífi sínu. Ásgeir veltir því fyrir sér hvort Jón hefði geta leitt landsmenn til aukins sjálfstæðis. Hugsanlega hefði hann getað staðið uppi í hárinu á Dönum ef honum hefði auðnast að semja út frá betri samningsstöðu, nokkuð sem hann var líklega að reyna. Bók Ásgeirs varpar fram áhugaverðum sjónarhornum á einn áhugaverðasta mann Íslandssögunnar og hvetur fólk vonandi til að kynna sér betur þessa sögu.

Uppreisn Jóns Arasonar
Höfundur: Ásgeir Jónsson
Útgefandi: Almenna bókafélagið
120 bls.