c

Pistlar:

18. janúar 2021 kl. 18:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ofbeldi gagnvart stjórnmálamönnum

Á Facebook má finna myndband af því þegar skiltakarlarnir svokölluðu mæta heim til Sigríðar Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, til að afhenda henni í háðungarskyni verðlaun fyrir að vera spilltasti stjórnmálamaðurinn. Verðlaun sem þeir virðast sjálfir halda úti en hér er um að ræða tvo menn á eftirlaunum, þá Ólaf Sigurðsson og Leif Benediktsson, sem gera sig gildandi í mótmælendasamfélagi Reykjavíkur eftir að hafa starfað fyrir Lýðræðisvaktina á sínum tíma. Annar þeirra afhendir Sigríði verðlaunin og hinn tekur atvikið upp. Þetta er hálf vandræðaleg uppákoma og skiltakarlinn sem stendur í dyragættinni er afsakandi enda virðist hann vita hve ósmekklegt er að haga sér svona við heimili fólks. Á heimilinu eru enda börn og svona atvik geta komið misjafnlega við þau þó að Sigríður láti engan bilbug á sér finna þar sem hún stendur í dyragættinni á heimili sínu og á orðastað við karlanna. Þess má geta að skiltakarlarnir afhentu Bjarna Benediktssyni þessi sömu verðlaun árið 2018 en gerðu það þá á opinberum vettvangi.spilling

Er þetta hegðun sem á að sætta sig við? Er þetta það sem stjórnmálamenn mega búast við og fylgir bara því vafstri? Flestu venjulegu fólki finnst hins vegar að heimilið eigi að vera griðastaður, líka fyrir þá sem veltast um í ólgusjó stjórnmálanna. Skiltakörlunum hefði verið í lófa lagið að hitta Sigríði niðri á Alþingi eða annars staðar á opinberum vettvangi eins og þeir gerðu þegar Bjarna var afhent verðlaunin. En þeir kjósa að fara heim til hennar, þeir eru ekki meiri menn en það. Þetta atvik er þó aðeins eitt í langri röð ofbeldisaðgerða þar sem grið eru rofin á heimilum stjórnmálamanna.

Neyðarhnappur og morðhótanir

Ekki er langt síðan Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði frá því í viðtali á Rás 1 sem hún þurfti að þola á sínum tíma þegar hún sat í ríkisstjórn. Það var heldur nöturlegt að hlusta á frásagnir hennar en hún lýsti því hvernig ráðherra í ríkisstjórninni þurfti að búa við stanslausar hótanir um ofbeldi, jafnvel morðhótanir. Hvernig hún þurfti að vera undir stöðugri vakt hjá lögreglu mánuðum saman og ganga um með neyðarhnapp. Átakanlegt var að hlusta á lýsingar á því þegar Hanna Birna þurfti að setjast niður með börnunum sínum til að útskýra öryggiskerfi og virkni neyðarhnappa og annarra viðbragðsáætlana ef einhver myndi fylgja hótununum eftir. Í framhaldi þess ákvað hún að hætta í stjórnmálum. Því miður virðist engin hafa verið látin sæta ábyrgð fyrir ofbeldishótanirnar og furðu margir virðast líta á þetta sem óhjákvæmilegan fylgikvilla stjórnmála nútímans.

Það er engin vafi á því að í kjölfar stjórnmálaumrótsins eftir bankahrunið 2008 breyttist margt. Svo virðist sem ný tegund af ofbeldi hafi haldið innreið sína í íslensk stjórnmál, ofbeldi sem gekk út á að ráðast að heimilum stjórnmálamanna og reyndar einnig ýmissa þeirra sem höfðu tengst íslensku viðskiptalífi. Margir brugðu á það ráð að flýja heimili sín með fjölskyldur sínar eftir endurteknar árásir þar sem skemmdaverk voru unnin á heimilum og bílum sem stóðu við þau. Það er enn í dag hægt að undrast þá þolinmæði sem þessu framferði var sýnt og stundum gerðist það að áberandi fólk í þjóðfélagsumræðunni sagðist sýna þessu skilning eða hreinlega lýsti yfir ánægju sinni með ódæðin.

Umsátur og sýruárásir

Við höfum áður heyrt frásagnir af umsátursástandi við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur fyrrverandi borgarstjóra og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur fyrrverandi ráðherra og núverandi formanns Viðreisnar. Steinunn Valdís lauk stjórnmálaþátttöku sinni í kjölfarið en Þorgerður Katrín er enn í forystuhlutverki. Steinunn Valdís hefur í viðtölum ekki dregið fjöður yfir hve þungbært þetta var henni og hennar fjölskyldu en hún mátti þola að stór hópur manna stóð við heimili hennar og mótmælti í fimm vikur samfellt. Dóttir hennar lenti í því á meðan á umsátri um heimili þeirra stóð að karlar sem stóðu fyrir utan tóku myndir af henni og vinkonum hennar þegar þær komu heim. Eins og í tilviki skiltakarlanna þá voru settar upp sýningar með afhendingu einhverra plagga og Ríkissjónvarpið lét hafa sig í að taka þátt í þessu. Engu skipti þó Steinunn Valdís byði mótmælendum að hitta sig á skrifstofu sinni. Svo virðist sem aðalatriðið hafi verið að hrella hana og fjölskyldu hennar á heimili þeirra. Það var eftirminnilegt að sjá Gunnar Eyjólfsson, aldraðan föður Þorgerðar Katrínar, eiga orðaskipti við umsátursmenn við heimili dóttur hans. Augljóslega var gamla manninum misboðið.

Rannveig Rist, fyrrverandi forstjóri álversins í Straumsvík, varð að þola svívirðilega árás á heimili sitt þar sem sýru hafði verið komið fyrir. Það var lán að ekki fór verr en augljóslega hafði þetta djúp áhrif á Rannveigu. Svona atvik hafa varanleg áhrif á fólk sem hættir að upplifa sig öruggt á heimili sínu með fjölskyldu sína. Það bætti ekki úr að Rannveigu fannst árásin ekki hafa verið tekin alvarlega og ekki tókst að upplýsa hverjir stóðu að baki þessu.

Nýtur ofbeldi pólitískrar velvildar?

Það er á vissan hátt merkilegt að ekki skuli vera meiri umræða um svona framferði. Nýleg árás á þinghús Bandaríkjamanna hefur eðlilega komið illa við marga. Sem betur fer virðist unnið markvisst starf við að upplýsa hverjir voru þar á ferð. Nákvæm skoðun á myndum sem voru teknar við árásina munu vonandi leiða í ljós hverjir voru að verki svo unnt sé að koma lögum yfir þá. Hér á landi virðist andstaða við að láta ofbeldismenn standa ábyrga gerða sinna. Það hefði auðvitað verið hægðarleikur að skoða og rannsaka þær myndir sem teknar voru á vettvangi og finna þá sem skýldu sér í fjöldanum í Búsáhaldabyltingunni og stunduðu ofbeldi og skemmdaverkastarfsemi. Það virðist hreinlega hafa verið pólitísk stefna að hindra slíkt og reynt var að spilla fyrir rannsóknum og réttarhöldum. Í raun lítur það svo út nú að í gildi hafi verið samkomulag um að láta öll eftirmál niður falla.

Nú um síðustu helgi rifjar Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri, upp það sem hann mátti þola á sínum tíma í borgarstjórn. Frásögn hans afhjúpar að sumir stjórnmálamenn virðast hreinlega skýla sér að baki eða notast við fylgismenn sem eru tilbúnir að ganga mjög langt í aðgerðum sínum. Það er nöturlegt að lesa frásögn Ólafs F. af því hvernig ofbeldisfólki er nánast stýrt til að hrella og trufla andstæðinga. Hann varð að þola að ofbeldisfólk á áhorfendapöllum öskraði: „Þú ert enginn „fokking“ borgarstjóri,“ og „Farðu aftur á geðveikrahælið helvítis auminginn þinn.“ Hefur einhver svarað fyrir þetta? Nei, ekki frekar en að skiltakarlarnir þurfi að útskýra framferði sitt við heimili fyrrverandi dómsmálaráðherra. Ummæli inni á Facebook-síðu þeirra sýnir í hvaða félagsskap þeir sækja.