c

Pistlar:

28. janúar 2021 kl. 13:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Debet og kredit í heilbrigðiskerfinu

Með reglulegu millibili er heilbrigði þjóðarinnar metið eftir þeim tölum sem varið er til málaflokksins. Hér á landi hafa meira að segja verið settir af stað undirskriftalistar til þess að styrkja þá kröfu að meiri fjármunum sé varið til heilbrigðismála, og þá gjarnan stuðst við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Margir virðast telja að þau verði ekki í lagi nema hlutfallið sé norðan megin við 10% af landsframleiðslu. Staðreyndin er sú að það er alltaf hægt að verja meiri fjármunum í heilbrigðismál, það er aldrei hægt að segja að það sé búið að lækna nóg. Þörfin er endalaus. Það þýðir auðvitað ekki að við sýnum þessu uppgjöf og við hljótum til dæmis að horfa á hlutlæga mælikvarða sem sýna ástandið í heilbrigðismálum í samanburði við aðrar þjóðir. Þar virðumst við koma vel út, meira að segja í hinum erfiða samanburði við hin Norðurlöndin sem reka bestu velferðarkerfi heims. En oft er þessi umræða ruglingsleg eins og hefur verið bent á hér í pistlum.lækningatæki

Hagstofan hefur nú birt samantekt sem sýnir að rekstrarútgjöld til heilbrigðismála á Íslandi, þ.e. heilbrigðisútgjöld að innviðafjárfestingu undanskilinni, námu 8,6% af landsframleiðslu árið 2019 og 8,4% árið 2018. Þetta er nánast á pari við meðaltali aðildarríkja OECD. Rekstrarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD nam að meðaltali 8,8% af vergri landsframleiðslu ríkjanna árið 2018 og samkvæmt bráðabirgðatölum ársins 2019 stendur hlutfallið í stað. Hlutur hins opinbera í fjármögnun heilbrigðisútgjalda er hinsvegar yfir meðaltali aðildarríkja OECD. Með öðrum orðum við læknum meira í gegnum ríkið en aðrar þjóðir.

Er þetta réttur mælikvarði?

Auðvitað er erfitt að beita á öllum tíma hlutfall af landsframleiðslu, hún getur svipast til á milli landa, staðbundin kreppa getur þannig hækkað hlutfallið á meðan mikill hagvöxtur getur lækkað það. Það er til dæmis forvitnilegt að sjá hvernig hlutfallið kemur út nú þegar landsframleiðsla fellur augljóslega verulega í kjölfar kórónuverunnar um leið og setja verður aukna fjármuni í að verja landsmenn fyrir veirunni. En heildarútgjöld til heilbrigðismála á Íslandi námu tæpum 269 milljörðum króna, eða 8,9% af landsframleiðslu, árið 2019 samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Útgjöldin hafa hækkað lítillega sem hlutfall af landsframleiðslu síðasta áratug en námu 8,8% árið 2018. Hlutur hins opinbera nam 224 milljörðum króna árið 2019 sem nemur 7,4% af landsframleiðslu ársins. Hlutur einkaaðila, þ.e. heimila og félagasamtaka, nam 44,6 milljörðum króna, eða 1,5% af landsframleiðslu, árið 2019.

Hlutur hins opinbera fer vaxandi

Hlutur hins opinbera af heildarútgjöldum til heilbrigðismála hefur farið lítillega vaxandi á tímabilinu 1998-2019. Árið 1998 nam hlutur hins opinbera 80,6% og var stærstur 2019 eða 83,4%. Hlutur einkaaðila hefur því farið lækkandi á tímabilinu, úr rúmlega 19% heildarútgjalda til heilbrigðismála 1998 í 16,6% árið 2019.

Rúmlega helmingur heilbrigðisútgjalda rennur til þjónustu sjúkrastofnana en rekstrarfyrirkomulag almennrar sjúkrahúsþjónustu hefur á síðustu tveimur áratugum tekið þónokkrum breytingum segir í frétt Hagstofunnar. Margar stofnanir sem veita almenna sjúkrahúsþjónustu hafa verið sameinaðar og töluverð sameining hefur einnig átt sér stað á meðal heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni síðasta áratug. Samkvæmt greiningu hagstofunnar féllu árið 1998 23 stofnanir undir almenna sjúkrahúsþjónustu en stofnunum hafði fækkað í átta árið 2019.

Árið 2019 rann um 28% heilbrigðisútgjalda til þjónustu við ferlisjúklinga sem þjónusta heilsugæslanna tilheyrir að hluta. Um 13% útgjaldanna voru vegna lækningavara og hjálpartækja og það sem eftir stendur, eða um 2%, runnu til forvarna, stjórnunar og annarra heilbrigðisþátta.

Einkaframtakið þróar og framleiðir

Það er forvitnilegt að rýna í þessar tölur en staðreyndin er sú að heilbrigðiskerfið er margskipt og margt utan og innan þess, hér heima sem og á heimsvísu. Ef við horfum til framleiðslu og þróun lækningatækja og lyfja þá er það nánast eingöngu í einkarekstri. Sama má segja um sölu og markaðssetningu þeirra. Vissulega er mikið af grunnrannsóknum unnið með tilstyrk hins opinbera en oftast hafa lyfjafyrirtækin og hluthafar þeirra kostað miklu til í þróun lyfja og þau sem takast verða að greiða kostnaðinn við þau sem mistakast. Að koma sölulyfi í gegnum þriðja fasa og í sölu kostar gríðarlegar fjárhæðir. Hvergi hefur það gefist vel að láta hið opinbera sjá um þetta ferli þó það geti komið að á ýmsum stigum þróunar með aðstoð eða fjárstuðning eins og var gert í sumum tilvikum við þróun á bóluefnalyfjum. Það getur sagt okkur að samspil einkaframtaks og heilbrigðisþjónustu getur verið árangursríkt ef menn láta ekki stjórnast af pólitískri þröngsýni.