c

Pistlar:

6. febrúar 2021 kl. 18:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hefja þarf hönnun Sundarbrautar strax

Allir ættu að fagna þeirri niðurstöðu sem birtist í nýrri skýrslu um Sundabraut en hér í pistlum hefur í mörg ár verið hvatt til þess að ráðist yrði í framkvæmdina. Hér er um að ræða einstaka samgöngubót sem getur um leið stuðlað að bættu öryggi, minni mengun, hagræðingu og skapað ný tækifæri til búsetu og atvinnulífs.sundabra

Það má því taka undir með samgönguráðherra þegar hann segir að loksins sé Sundabraut kominn á kortið enda hefur framkvæmd legið hefur í loftinu í tæp 50 ár. Þetta sagði hann þegar greint var frá því samkomulag sem hefur náðst á milli ríkisins, Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna og SSH. Framundan er að sannfæra meirihlutann í Reykjavík um ágæti framkvæmdarinnar en hann hefur leynt og ljóst talað gegn Sundabraut. Það duldist enda engum þegar tilkynnt var um niðurstöðu starfshópsins að borgarstjórinn var ekkert sérlega spenntur. Sló í og úr með hvenær unnt yrði að ráðast í verkið. Staðreyndin er sú að það er ekkert að vanbúnaði og mikilvægt að hefja hönnun verksins strax.

Lyftistöng fyrir efnahaginn

Ráðherra segir að framkvæmdir geti hafist árið 2025 en Sundabraut er eitt af þeim samvinnuverkefnum (PPP) sem Alþingi hefur samþykkt um að heimila samstarf hins opinbera og einkaaðila að fara í. Eins og áður segir er ástæða til að flýta þessari tímasetningu eins og unnt er. Þá er mikilvægt að unnið verði við Sundabraut frá báðum endum þannig að hún komist öll strax í gagnið. Ráðherra gaf í skyn að brúin yrði tilbúin 2029 eða 2030. Það er of seint enda óhætt að segja að framkvæmdin og brautin síðan muni reynast efnahagnum hér á suðvesturhorninu mikil lyftistöng.

Nú hefur verið kynnt að Sundabrú sé hagkvæmari kostur en jarðgöng fyrir legu Sundabrautar og mun brúin rísa í 35 m hæð svo skipum verði gert kleift að sigla undir og rúmar fjórar akreinar ásamt göngu- og hjólaleið. Sundabrú er arðsöm framkvæmd, tengir borgina betur saman fyrir göngu- og hjólaleiðir og dregur úr umferðarþunga í Ártúnsbrekku

Það vekur vonir að ráðherra segir að undirbúningur sé þegar hafinn og mikilvægt að knýja nú á um að ekki verði slegið af. Talið er að hönnun og verklegar framkvæmdir skapi yfir 2000 viðbótarstörf og auki hagvöxt.