c

Pistlar:

11. febrúar 2021 kl. 21:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bóluefnaklúður Evrópusambandsins

Í gær var haft eftir Ursulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, að sam­bandið hafi verið of lengi að samþykkja bólu­efni við kórónuveirunni. „Við erum ekki á þeim stað þar sem við vilj­um vera,“ sagði hún í ræðu á Evr­ópuþing­inu. Þessi játning kom ekki af sjálfu sér og var ekki óvænt enda hafði hún verið harðlega gagn­rýnd af þing­mönn­um fyr­ir hæga­gang af hálfu Evrópusambandsins við að út­vega bólu­efni. Eigi að síður sagðist hún vera sann­færð um að ákvörðunin um að panta bólu­efni í sam­ein­ingu hafi verið sú rétta í stöðunni eins og segir í frétt mbl.is.

Við Íslendingar bundum trúss okkar við Evrópusambandið um innkaup á bóluefni. Ýmsir fylgismenn aðildar að Evrópusambandinu töldu þá ákvörðun skynsama. Þingmaður Viðreisnar skrifaði: „Takk Evrópusamstarf,“ á tvít-reikning sinn þegar frá þessu var greint. Margir Evrópusambandssinnar hér á Íslandi sögðu þetta til marks um styrk sambandsins og ábendingu um að best væri fyrir okkur Íslendinga að treysta á það. En þó þingmenn Viðreisnar hefðu verið glaðir ríkir engin slík gleði innan Evrópusambandsins. Þvert á móti ríkir mikil óánægja með hvernig til hefur tekist með að útvega íbúum Evrópusambandsins bóluefni. Samanburðurinn er sláandi, aðrar þjóðir geysast framúr þeim í bólusetningu, með Breta í broddi fylkingar.ursula

Framkvæmdastjórn ESB hefur hvað eftir annað verið gagnrýnd fyrir það hversu langan tíma hefur tekið að útvega bóluefni. Áætlun þess efnis var samþykkt í júní í fyrra. Samið var um kaup á bóluefnum fyrir hönd þeirra ríkja sem eru í ESB. Seinkun hefur orðið á bóluefnum frá framleiðendum, þar á meðal Oxford-AstraZeneca og Pfizer-BioNTech. Undanfarið hefur athyglin beinst að ákvarðanatökuferlinu.

Þjóðirnar hefðu átt að semja sjálfar

Í þýskum fjölmiðlum hefur undanfarið verið mikið fjallað um bóluefnaklúður Evrópusambandsins þó að fréttastofa RÚV telji ekki ástæðu til að endurvarpa því. Á mánudagskvöldið var þátturinn „Harður en sanngjarn“ („Hart aber Fair“), á þýsku ríkissjónvarpsrásinni ARD, þar sem hinn gamalkunni sjónvarpsfréttamaður Rolf Dieter Krause fór hörðum orðum um slæma frammistöðu Evrópusambandsins í bóluefnismálum. Krause hefur löngum starfað í Brussel og sagði einfaldlega að rekja mætti hina arfaslöku frammistöðu Evrópusambandsins til þess að valdsvið þess næði í raun alls ekki til heilbrigðismála, sem væru með öllu á hendi aðildarríkjanna og jafnvel einstakra fylkja. Svipað fyrirkomulag ríkir reyndar í Bandaríkjunum, þar sem hin einstöku ríki bera höfuðábyrgð á heilbrigðismálum þó Trump hafi verið látinn gjalda allra mistaka. Að sumu leyti kallaði hann það yfir sig með því að trana sér fram fyrir sjónvarpsmyndavélarnar.

En Þjóðverjar telja að Evrópusambandið hafi reynst vera allt of svifaseint til að geta sýnt árangur við gerð samninga um bóluefni sem sannarlega voru á þeirra borði. Sumt hefði verið heppilegra að láta aðildarríkjunum eftir. Krause bætti við að þetta hafi menn svo sem vitað frá upphafi og því afskaplega einkennilegt að fela framkvæmdastjórninni þetta vandasama og flókna verkefni. Nær hefði verið að Þjóðverjar og Frakkar hefðu sjálfir samið við stóru lyfjarisana og síðan séð um að útdeila lyfjunum til hinna þjóðanna. Við Íslendingar drógumst inn í þessa óljósu ábyrgðaröð og rétt fyrir jól var greint frá því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði átt símtal við Ursulu von der Leyen en þá voru farnar að heyrast gagnrýnisraddir um seinagang hér á Íslandi. Um það var fjallað hér í pistli en þá þegar var þýska tímaritið Der Spiegel farið að fjalla um ákvarðanatökuóreiðu. Nú blasir við að Ursula hafði takmarkaða innsýn í innkaupaferlið þegar símtalið við Katrínu fór fram.

Að sögn þýskra fjölmiðla var staðan sú frá upphafi að hver höndin var upp á móti annarri meðal aðildarríkjanna. Sum löndin hafi gert lítið úr hættunni af veirunni á meðan að aðrir töldu eftir sér eða höfðu hreinlega ekki efni á að eyða peningum í rannsóknir. Enn önnur aðildarríki ESB hafi ekki tekið í mál að greiða það háa verð sem lyfjafyrirtækin settu upp fyrir lyfin. Þetta hafi lítið ríki eins og Ísrael hins vegar treyst sér til og greitt strax upp í topp og Bretar hafi þarna einnig séð sér leik á borði.

Fæðuöryggisstjórinn átti að sjá um bóluefnið

Þetta mál er upplýsandi fyrir boðskiptaleiðir innan Evrópusambandsins eins og Guðbjörn Guðjörnsson tollvörður rekur ágætlega í færslu á Facebook-síðu sinni en hann fylgist augljóslega vel með umræðu þýskra fjölmiðla sem hafa fjallað um ákvarðanatökuna. Þannig segir Guðbjörn mikilvægt að átta sig á því að Ursula von der Leyen framseldi í raun lausn á bóluefnainnkaupum yfir til Kýpverjans Stellu Kyriakides, heilbrigðis- og fæðuöryggisstjóra ESB (Commissioner for Health and Food Safety). Þýskir fjölmiðlar segja að Kyriakides hafi í framhaldi þess fengið það verkefni að kynna allar slæmar fréttir í fjölmiðlum, á meðan að von der Leyen sjálf hafi séð um að kynna góðu fréttirnar. Hafa verður í huga að þessi staða heilbrigðisstjóra fer yfirleitt til lítilla ríkja, enda hafi staðan alla tíð verið áhrifalaus og lítils metin, eða allt þar til kórónuveiran braust út. Guðbjörn hefur eftir Krause að í þessar stöður hafi aldrei valist neitt pólitískt þungavigtarfólk heldur nær alltaf pólitísk léttvigt frá smáríkjum.

En þetta er ekki öll sagan. Krause heldur áfram og sagði að allri samningagerð sambandsins hefði von der Leyen komið í hendurnar á allsendis óreyndri og vanhæfri ítalskri vinkonu sinni, Söndru Gallina. „Sú ágæta kona hefði ekkert vit á lyfjaframleiðslu eða lyfjasamningum og hafi því ekkert haft að gera í hákarlana í lyfjabransanum. Útkoman hefði verið hreint út sagt skelfileg fyrir Evrópu. Öll sú pressa sem ESB hefði átt að hafa í þessu máli með alla sína peninga, 500 milljónir íbúa og gríðarleg áhrif og mikla lyfjaframleiðslu og tækniiðnað hefði strax runnið út í sandinn,“ skrifar Guðbjörn. Þannig hefði engin „dýnamík“ heldur verið samningunum og fyrir vikið engir jákvæðir hvatar verið til staðar ef lyfjafyrirtækin hefðu getið afhent lyfin fyrr en ætlað var. Þá hefðu engar dagsektir eða afslættir ef lyfjafyrirtækin stæðu ekki við gerða samninga. Í raun væri ESB síðast á listanum vegna þess að gjörsamlega óhæft fólk hefði séð um samninganna af hálfu sambandsins og þar við sæti. Önnur ríki hefðu gert mun árangursríkari, strangari og skilyrtari samninga við lyfjarisana til dæmis varðandi tímasetningar og magn. Þessi ríki fengju auðvitað sín bólusetningarlyf afhent miklu fyrr.

Krause vandaði reyndar von der Leyen ekki kveðjurnar og sagði hana stjórna ESB með klíku vina sinna. Öll raunveruleg völd væru þó sem betur á bak við tjöldin fyrir löngu komin í hendurnar á Frakkanum Thierry Breton. Þetta gæti því bara skánað, sagði þessi fyrrum fréttaritari ARD í Brüsse. „Fyrir mitt leyti finnst mér spaugilegt að Íslendingar og Norðmenn séu í þeirri einkennilegu aðstöðu að hafa aldrei gengið í ESB en sitja uppi með að vera í verri stöðu „bóluefnislega“ séð en Brexit-þjóðin," skrifar Guðbjörn. Undir það er hægt að taka.