c

Pistlar:

25. febrúar 2021 kl. 18:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

ESB og viðskipti Íslendinga við Nígeríu

Hvað eiga Evrópusambandið og viðskipti Íslendinga við Nígeríu sameiginlegt? Því er fljótsvarað, nákvæmlega ekkert. Eigi að síður er Nígería í hópi mikilvægustu markaðslanda Íslendinga og eini markaðurinn fyrir þær þurrkuðu fiskafurðir sem við framleiðum. Það sem meira er, tilraunir til að leita nýrra markaða fyrir þurrkaðar fiskafurðir hafa lítinn árangur borið, við sitjum uppi með Nígeríuviðskiptin og þeir með okkur. Hér hefur áður í pistli verið vikið að þessum viðskiptum og almennt ástandinu í Nígeríu.

Af hverju er þá verið að tengja saman Evrópusambandið og Nígeríuviðskipti? Jú vegna þess að stundum þegar stuðningsmenn Evrópusambandsins hefja upp tal sitt mætti halda að einu viðskiptin sem geti átt sér stað milli tveggja aðila verði að tilstuðlan alþjóðastofnana eða alþjóðlegra viðskiptasamninga og þá sérstaklega þeim sem samið er um í Brussel. Það er auðvitað alrangt, viðskipti eiga sér stað þegar einn aðili framleiðir vöru sem annar vill kaupa og báðir græða á því. Menn þurfa ekki endilega að vera þaullesnir í Adam Smith til að átta sig á því en það þarf heldur ekki að treysta á Evrópusambandið eða alþjóðlega viðskiptasamninga til þess. Viðskiptin við Nígeríu með þurrkaðan fisk eru gamalreynd og farsæl fyrir báða aðila þó vissulega hafi stundum gefið á bátinn. En þau eru alveg laus við að styðjast við opinbera fyrirgreiðslu eða alþjóðlega viðskiptasamninga. Báðir aðilar verða að treysta á sjálfa sig. Og þessi viðskipti eru okkur Íslendingum mikilvæg, gróflega áætlað má segja að þau færi okkur ríflega 100 milljarða í gjaldeyristekjur yfir 10 ára tímabil, fyrir vöru sem hvergi selst annars staðar.niger

Fyrir stuttu hlustaði pistlaskrifari á hlaðvarpsþátt sem María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarmaður formanns Viðreisnar, stendur fyrir og heitir Pælum í pólitík. Þar er rekið nokkuð stíft trúboð fyrir þann flokk og þátturinn 23. febrúar var kynntur svona: „Út á hvað gengur alþjóðasamstarf og hvers virði er það? María ræðir við Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, um birtingamyndir alþjóðasamvinnu.“ Ég ætla að sleppa því að fara ítarlega í inngang þáttastjórnanda sem gekk út á að sannfæra hlustendur að Jón Sigurðsson, oft nefndur Jón forseti, hafi verið meðlimur í Viðreisn og raunveruleg barátta hans hafi snúist um að gera Íslendinga sjálfstæða „til þess að geta tekið þátt í alþjóðasamvinnu.“ Því er miður að það hafi gerst að óprúttnir landar Jóns hafi síðar meir tengt hann við það „að vernda sjálfstæði okkar og fullveldi.“ Svona söguleg greining er sérstök, Jón Sigurðsson studdi sjálfstjórn og viðskiptafrelsi og sá þann kost bestan fyrir Íslendinga. Hann eins og aðrir hefur án efa haft það í huga að samstarfið innan slíks viðskiptafrelsis yrði sem ánægjulegast og farsælast. Ólíklegt verður að telja að hann sæi fyrir sér að skipta út dönskum embættismönnum fyrir ESB-kommissara! Látum þar við sitja en víkjum að fullyrðingum prófessors Baldurs í þættinum sem byggjast meðal annars á einhverskonar orðræðugreiningu sem pistlaskrifara finnst heldur ódýr vísindi. Þegar slíkri greiningu er beitt þá kemur vanalega það út sem vísindamaðurinn ætlar sér.pælum

Sjálfstæði og fullveldi til trafala

Baldur, sem eitt sinn var í framboði fyrir Samfylkinguna, segir að alþjóðasamvinnu sé erfitt að aðskilja frá frjálsum viðskiptum og þetta fari oft saman. Því séu orð eins og sjálfstæði og fullveldi til trafala, færi jafnvel þjóðum og fyrirtækjum trú um að þau geti gert hlutina ein og sér sem sé hrapalegur misskilningur. Skilja má prófessorinn þannig að þessi hugtök gagnist fyrst og fremst ef við göngum í efnahags- og viðskiptabandalög, þá fyrst nýtist okkur sjálfstæði og fullveldi. Því miður sé það inngróið í okkur að með sjálfstæði og fullveldi felist það að við gerum hlutina eina og sér. En stundum er það spurningin hvort kemur á undan, eggið eða hænan og það á sérstaklega við um það þegar við ræðum efnahagslega hagsmuni. „Aukin viðskipti milli ríkja leiða oft til nánari pólitískrar samvinnu. Aukin menningarsamskipti leiða líka til nánari pólitískrar samvinnu milli ríkja og þannig hjálpa litlum ríkjum eins og okkur að hafa röddu á alþjóðlegum vettvangi og verja sína hagsmuni,“ sagði Baldur.

Það gerist stundum að þegar Viðreisnar-fólk ræðir um fullveldi þá notar það gæsalappir og setur þannig augljósan fyrirvara á fullveldið. Það er auðvitað einkennileg nálgun en það er ekki ætlunin að stoppa lengi við það hér. Það er hins vegar merkileg sú sýn að viðskiptum verði aðeins komið á í gegnum alþjóðlega samninga eða bandalög og þau séu samofin menningarlegri og pólitískri samvinnu. Það er nákvæmlega það sem viðskiptin við Nígeríu afsanna. Þeim hefur hvorki fylgt menningarleg né pólitísk samvinna, þar er einfaldlega um viðskiptalega hagsmuni að ræða sem menn reyna að tryggja og efla enda hafa bæði Íslendingar og Nígeríumenn ábata af þeim. Það eina sem truflar þau er pólitískur órói og viðskiptahindranir sem settar eru á í nafni alþjóðlegrar samvinnu. Það eru slíkar hindranir sem trufla núna viðskipti Bretlands og Evrópusambandsins sem virðist heldur vilja verja stöðu sína sem tollabandalag en að stuðla að frjálsum viðskiptum með því að stuðla að minna skrifræði og skilvirkari viðskiptum. Ef það er fyrir hendi þá finna samskiptin sér farveg, af hvaða toga sem þau eru, eins og á við um viðskipti Íslendinga og Nígeríumanna.