c

Pistlar:

7. mars 2021 kl. 21:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvað varð um sveiflujöfnunina?

Bráðabirgðatölur Hagstofunnar segja að landsframleiðsla hafi minnkað minna vegna kórónuveirunnar en spáð var, eða um 6,6%. Það er reyndar meiri samdráttur en spáð var í upphafi þegar margir vonuðust til þess að veiran færi í gegnum þjóðfélagið í formi V-laga ferils. En þetta er sannarlega minna en menn óttuðust og það er ánægjulegt. Hins vegar er rétt sem Ragnar Árnason, prófessor emeritius, segir við Morgunblaðið um helgina að fordæmi eru fyrir því að slíkar tölur séu endurskoðaðar, jafnvel um 1-2%. Það er reyndin eins og áður hefur verið bent á hér í pistlum og því miður er fremur hætta á því að þróunin verði neikvæðari en nú blasir við.

Það er ýmislegt sem verður að hafa í huga þegar þessar tölur eru skoðaðar eins og Ragnar bendir á: „Einnig er vert að hafa í huga að verg landsframleiðsla á mann – þ.e.a.s. það sem við höfum framleitt á hvern íbúa í landinu – dróst saman um 8,2% á árinu 2020, samkvæmt sömu áætlunum Hagstofunnar. Og 8,2% er ansi mikið meira en 6,6% vegna þess að landsmönnum fjölgar hratt. Þá aðallega vegna innflytjenda,“ segir Ragnar. Það er auðvitað mikilvægt að horfa til þess að raunverulegur hagvöxtur er sá sem stendur eftir þegar leiðrétt hefur verið fyrir mannfjöldaþróun. Það er hins vegar umhugsunarvert hvort að af þessu megi lesa að innflytjendur styðji síður við hagvöxt en þeir sem fyrir eru. Pistlaskrifari þekkir ekki til rannsókna þar um.byggingastarf

Hvað varð um sveiflujöfnunina?

Þá bendir Ragnar á að það sé fyrst og fremst einka- og samneysla sem hafi varnað meiri samdrætti í fyrra. Þeirri aukningu sé hins vegar haldið uppi með lántökum og þá fyrst og fremst hjá hinu opinbera. Nýlegar tölur benda á að síðastliðin tvö ár hefur opinber fjárfesting dregist saman þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um stórátak í fjárfestingum til að vega upp á móti efnahagssamdrætti. Þessi þróun hlýtur að krefjast skýringa og ekki í takt við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Það er til lítils að ætla að nýta opinberar fjárfestingar til sveiflujöfnunar ef stjórnvöld geta ekki hrint áformum sínum í framkvæmd. Samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands dróst opinber fjárfesting saman um 9,3% á árinu 2020. Þetta er annað árið í röð sem opinber fjárfesting minnkar, en samdrátturinn var 10,8% á árinu 2019. Opinber fjárfesting var einungis 3,5% af vergri landsframleiðslu í fyrra, en hún hefur að meðaltal verið um 3,9% af VLF frá árinu 2001. Um þetta sagði í Hagsjá Landsbankans:

„Þessi niðurstaða skýtur verulega skökku við sé litið til samþykkta um aukin útgjöld til fjárfestinga í bæði fjárlögum og fjáraukalögum og yfirlýsingar ráðamanna allt frá upphafi ársins 2019 um að ríkissjóður myndi nú taka öflugan þátt í fjárfestingum á sama tíma og fjárfesting atvinnuveganna hefði dregist mikið saman.“

Neyslu haldið uppi með lántökum

Ragnar segir að ríkið hafi stutt við fólk sem missti vinnuna og greitt fyrirtækjum alls kyns bætur sem síðan fari inn í einkaneysluna. „Þessar lántökur verður að greiða til baka fyrr eða síðar. Og það verður þá ekki gert nema með því að draga annaðhvort úr einka- eða samneyslu. Og það leiðir þá ef til vill til minni vergrar landsframleiðslu,“ segir Ragnar í viðtalinu og bendir á að tímasetning þeirra afborgana muni þó skipta máli og hver staðan er í hagsveiflunni. „Ef uppgangur er mikill er ekki víst að þær endurgreiðslur hafi umtalsverð neikvæð áhrif á landsframleiðslu,“ segir Ragnar. Það er auðvitað lykilatriði í hvað fjármunir fara og aldrei brýnna en þegar kreppir að.

Auka þarf opinbera fjárfestingu

Á milli 2001 og 2010 var opinber fjárfesting að jafnaði vel yfir 4% af VLF. Hlutfallið var síðan töluvert lægra fram til 2018 þegar það hækkaði töluvert en hefur síðan lækkað tvö síðustu ár á sama tíma og einnig hefur dregið úr fjárfestingum í atvinnulífinu. Opinber fjárfesting hefur nú farið minnkandi miðað við fyrra ár í sex ársfjórðunga samfellt þannig að það er ljóst að áform stjórnvalda um stórfelld fjárfestingarátök hafa ekki gengið eftir, segir greiningardeild Landsbankans.

Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviði á Íslandi eru megin niðurstöðurnar þær að stóraukin fjárfesting í innviðum sé nauðsynleg hér á landi og að einmitt nú séu góðar aðstæður í efnahagslífinu til að auka opinbera fjárfestingu stórlega.

Skýrsluhöfundar Landsbankans leggja til að nýta beri þá óvirku framleiðsluþætti sem þegar eru til staðar og byrja að vinna á mikilli uppsafnaðri viðhaldsþörf sem hefur orðið til á síðustu árum. Þetta er einmitt sami málflutningur og hófst meðal ráðamanna strax í upphafi ársins 2019 þegar bera fór á samdrætti í efnahagslífinu. Viljann hefur ekki vantað, en framkvæmdirnar láta bíða á eftir sér.

Vantar 420 milljarða

Samkvæmt skýrslu SI er uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða hér á landi umtalsverð. Þörfin er áætluð um 420 milljarðar eða 14,2% af landsframleiðslu ársins 2020. Þessi upphæð nemur rúmlega fjórfaldri opinberri fjárfestingu ársins 2020.

Greiningardeild Landsbankans bendir á að umfang opinberrar fjárfestingar síðustu missera hefur augljóslega ekki dregið mikið úr þeirri uppsöfnuðu viðhaldsþörf sem varð til í kjölfar síðustu niðursveiflu. Til þess að ástand innviða geti talist gott verður að setja enn meiri kraft í opinbera fjárfestingu í innviðum. Með fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum er augljóslega verið að fjárfesta í hagvexti framtíðarinnar. Af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur verið lagt fram það mat að þróuð ríki eins og Ísland gætu aukið hagvöxt um 2,7 prósentustig og fjölgað störfum um 1,2% á næstu tveimur árum með því að auka fjárfestingu um 1% af vergri landsframleiðslu. Þörfin fyrir aukna opinbera fjárfestingu er því brýn.