c

Pistlar:

11. mars 2021 kl. 18:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Regluverksmúrar ESB

Um þessar mundir er að komast skýrari mynd á það hvað felst í útgöngu Breta úr Evrópusambandinu sem varð að veruleika um síðustu áramót. Augljóslega fylgja því margvíslegar áskoranir og sumt hefur orðið óþægilegra en séð var fyrir enda ljóst að Evrópusambandið hafði engan áhuga á því að láta líta út sem Bretar hefðu ávinning af útgöngunni. Um leið virðist helstu fylgjendum Evrópusambandsins vera umhugað um að færa okkur vondar fréttir og kenna útgöngunni um. Sumt í þeim málflutningi er furðu áróðurskennt og ber fremur keim af upplýsingaóreiðu en skynsamlegri umræðu. Auðvitað eiga Bretar alla möguleika á að ná miklum árangri og engan veginn tímabært að vera með miklar yfirlýsingar á annan veg enda yfirgáfu Bretar til dæmis ekki tollabandalag ESB fyrr en um áramótin.esbfáni

Það var hressandi að lesa grein Ásgeirs Ingvarssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, í viðskiptahluta blaðsins í gær. Ásgeir býr og starfar í Mexíkóborg og hefur vakið athygli fyrir fjörleg og upplýsandi skrif en ekki síður fyrir frumleg sjónarhorn, meðal annars um ESB. Ekki veitir af í þeim einhliða áróðri sem dynur á okkur um ESB og ágæti þess.

Skýrslufarganið

Ásgeir vekur athygli á skýrslufargani því sem fylgir útflutningi á breskum fiski til Evrópu. Hann segist reyndar gruna að það vakað fyrir þeim sem fjalla um það núna að sýna hvers konar reginmistök það voru að ganga úr ESB. Ásgeir segir hins vegar réttileg að það sýni þvert á móti hvað ESB er á miklum villigötum. Ásgeir vitnar í nýlega úttekt BBC þar sem kemur fram að framvísa verður samtals 71 blaðsíðu af flóknum eyðublöðum og vottorðum til að koma einum bílfarmi af fiski í gegnum tollinn Evrópumegin. „Að fylla út pappírana kostar ótal vinnustundir og vitaskuld má ekkert klikka því minni háttar mistök á einu eyðublaði þýða að viðkvæm varan situr föst á landamærunum. Geta breskir útflytjendur sjávarafurða núna vænst þess að vörur þeirra séu um það bil sólarhring lengur að berast í hendur kaupenda í Evrópu,“ skrifar Ásgeir. Þá sýnir vandi breskra sjávarútvegsfyrirtækja að upphæð tollanna er bara hluti af þeim hindrunum sem seljendur reka sig á. Eftir því sem borga þarf fleiri sérfræðingum til að fylla út eyðublöð og gefa út vottorð, því minna borgar það sig að freista gæfunnar á Evrópumarkaði.

En það sem Bretar eru að upplifa er einfaldlega það sama og öll heimsbyggðin hefur hingað til þurft að þola af hálfu ESB sem Ásgeir gagnrýnir fyrir að hafa flúið þau stefnumið sín að standa fyrir bandalagi sjálfstæðra þjóða með það göfuga markmið að tryggja frið í álfunni og bæta hag almennings með því að hámarka frelsi í viðskiptum. „Í dag er hún [ESB] orðin þunglamaleg, eigingjörn og dyntótt, og utan um innri markaðinn er búið að reisa háa múra reglugerða og formkrafa til að verja evrópska framleiðendur fyrir erlendri samkeppni.“
Ásgeir bendir réttilega á það að endingu bera erlendir framleiðendur og evrópskir neytendur tjónið með því að greiða hærra verð fyrir innfluttar vörur svo að innlendir framleiðendur eigi auðveldara með að halda rekstri sínum gangandi.

Tollaprósentur á ferð og flugi

Þegar Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin árið 2016 voru í gildi í Evrópusambandinu um 12.600 sértollar á innflutning af öllu mögulegu tagi, og hefur þeim bara fjölgað síðan þá. Ásgeir vitnar í grein sem birtist í City AM í október sama ár en þar benti Dan Lewis, þá sérfræðingur hjá Institute of Directors, á það hve erfitt væri að sjá nokkra skynsemi í tollareglum ESB og hvernig tollaprósenturnar áttu það til að hækka eða lækka með óskiljanlegum hætti.

Þannig var bent á að tollar á vínber – bæði fersk og þurrkuð – hækkað nánast fyrirvaralaust úr 14,4% upp í 17,6% á skömmum tíma. Engin gat séð af hverju. Þannig er fullkomlega óskiljanlegt hvaða lögmál gilda þegar tollum er breytt. Þá vefst fyrir mönnum að skilja hvað er hugsað sem tekjustofn eða einfaldlega til að vernda undirstöðugreinar innan þess tollabandalags sem Evrópusambandið augljóslega er.